30.03.1982
Sameinað þing: 70. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3332 í B-deild Alþingistíðinda. (2952)

369. mál, fiskikort

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Sjútvrn. hefur aflað sér upplýsinga frá Sjómælingum Íslands um útgáfu umræddra fiskikorta og vil ég, með leyfi forseta, lesa bréf Sjómælinga:

„Vísað er til bréfs rn., dags. 17. þ. m., varðandi fsp. til sjútvrh. um framkvæmd þál. frá 15. mars 1977 um útgáfu fiskikorta.

Fiskikort, sem gerð eru í samræmi við þál. frá 15. mars 1977, eru gefin út af Sjómælingum Íslands í samvinnu við sjútvrn. Eftir að tekist hafði að sigrast á ýmsum tæknilegum erfiðleikum voru fyrstu þrjú kortin gefin út árið 1980. Á s.l. ári voru gefin út fimm kort til viðbótar af fiskislóð við Suðuvestur- og Vesturland. Nú er verið að vinna að átta nýjum kortum yfir fiskislóð við Suðausturland sem verða gefin út á þessu ári, og verður þá búið að gefa út samtals 16 fiskikort.

Sala kortanna var fremur treg til að byrja með, en hefur glæðst upp á síðkastið.

Sjómælingar Íslands sjá um tæknilega vinnslu kortanna, prentun og sölu, en starfsmaður sjútvrn. safnar upplýsingum um festur og fiskislóðir, sem merktar eru í kortin.

Þrátt fyrir ítrekaða beiðni Sjómælinga um aukna fjárveitingu vegna þessa starfs hefur fjárveitingavaldið ekki séð sér fært að leggja neitt verulega af mörkum til þess að hraða útgáfu kortanna.“

Undir þetta skrifar Gunnar Bergsteinsson, forstöðumaður Sjómælinga Íslands.

Ég hef jafnframt kynnt mér þetta mál nokkru nánar og mér er tjáð að það standi ekki lengur á ýmsum upplýsingum, sem eins og kemur fram í bréfinu töfðu dálítið útgáfu kortanna til að byrja með. Mér skilst að verulegt magn af slíkum upplýsingum liggi fyrir þannig að unnt væti að hraða útgáfu kortanna, en mér hefur einnig verið tjáð að óskir Sjómælinga Íslands, bæði til síns ráðuneytis og við fjvn., um aukna fjárveitingu í þessu skyni hafi, eins og fram kemur reyndar í bréfinu, fengið takmarkaðan hljómgrunn þótt nokkurt fjármagn hafi nú verið veitt í þessu sambandi. Reyndar var mér jafnframt tjáð að menn hefðu gert sér vonir um meiri sölu kortanna og því verið talið að minni fjárveitinga kynni að vera þörf. Salan hefur glæðst upp á síðkastið og kann það eitthvað að hjálpa til í þessari fjárhagsstöðu, en þó er það skoðun mín, að ef hraða á verulega útgáfu kortanna verði að koma til verulega aukin fjárveiting í þessu skyni.