30.03.1982
Sameinað þing: 70. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3333 í B-deild Alþingistíðinda. (2953)

369. mál, fiskikort

Fyrirspyrjandi (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. svör hans. Það athyglisverðasta, sem fram kom í svari hans, var auðvitað að þessi bráðnauðsynlega útgáfa fiskikorta hefur mætt litlum skilningi hjá fjárveitingavaldinu, og það var einkum það sem ég vonaðist til að fá að heyra frá hæstv. ráðh., að hann mundi beita sér fyrir breytingum í þeim efnum.

Sala á þessum kortum hefur farið hægt af stað að vísu. Það á þær skýringar að sjálfsögðu að menn þurfa tíma til að komast upp á lag með að nota þau, en hún hefur aukist. Er hægt að nefna sem dæmi að Mikla norræna ritsímafélagið keypti allstórt upplag af þessum kortum af Reykjanessvæðinu vegna legu sæsímans þar. Þyrfti að kanna sérstaklega hvort ekki gæti verið um ýmis fleiri tilvik að tefla í því sambandi, að gera mætti hér aukinn markað vegna legu sæsíma, rafstrengja o.s.frv.

Ef að verulegu gagni á að koma, sér í lagi fyrir togaraflotann, þarf að endurskoða þessi kort reglulega, en nákvæmni þessara miðana og þessara korta er með ólíkindum og stórkostlegur sparnaður, t.a.m. í veiðarfærum, sem af þessu verður því að menn geta staðsett sig svo nákvæmlega að kannske munar skipsbreidd og fært inn á þessi kort flök af skipum og aðra festu sem til stórtjóns hafa orðið.

Hér er fimm ára þál. og búið er að gefa út níu fiskikort alls af að vísu þýðingarmiklum svæðum. En bæði er það, að þetta gengur allt of hægt, og enn fremur hafa þeir ekki fengið fangs á að endurskoða kortin reglulega, en þess er alveg brýn þörf ef að fullum notum á að koma.

Ég fer nú eindregið fram á það við hæstv. sjútvrh. að hann beiti sér fyrir því, að hert verði á þessari framkvæmd. Sannleikurinn er reyndar sá, að fjárlaga- og hagsýslustofnun, sem hefur litinn skilning haft á þessu máli, hefur auðvitað ekkert leyfi til annars eftir ákvörðun Alþingis en að sinna þessu eins og vera ber. Alþingi sjálft hefur tekið sína ákvörðun. Enn og aftur kem ég að þessu sama, hversu daufir framkvæmdamenn okkar, sem starfa í umboði okkar, hæstv. ráðh., eru að fylgja eftir beinum fyrirmælum hins háa Alþingis. Þyrfti hæstv. fjmrh. sérstaklega að leggja við hlustir í þessu efni og minnast þess að taka í lurginn á þeim þar uppi í fjárlaga- og hagsýslustofnun og sjá svo um að það verði nægilegt fé til að hraða útgáfu fiskikorta.