30.03.1982
Sameinað þing: 70. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3335 í B-deild Alþingistíðinda. (2955)

361. mál, tollafgreiðslugjald á aðföng til iðnaðar

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson og Friðrik Sophusson spyrja í fyrsta lagi um að hve miklu leyti tollafgreiðslugjald sé lagt á aðföng til iðnaðar samkv. reglugerð sem sett hefur verið um það efni.

Svarið er, að í þessum efnum er fylgt ákvæðum laganna. Meginreglan varðandi aðföng til iðnaðar er sú, að á þau er lagt krónutölugjald miðað við tiltekna fjárhæð. Er það 50 kr. ef tollverð vörusendingarinnar er innan við 5000 kr., en 200 kr. sé tollverð vörusendingarinnar 5000 kr. eða meira. Fast tollafgreiðslugjald takmarkast þó við þá vöruflokka sem tollfrjálsir eru samkv. 1. gr. tollskrárlaga og jafnframt eru undanþegnir sérstöku tímabundnu vörugjaldi samkv. 1. gr. vörugjaldslaga. Sama gildir um vörur sem tollar hafa verið felldir niður af, m.a. samkv. 12. tölul. 3. gr. tollskrárlaga. Aðföng, sem njóta tollfríðinda samkv. ákvæðum fríverslunarsamninga EFTA og Efnahagsbandalagsins, eru undanþegin tollafgreiðslugjaldi fyrst um sinn, meðan ekki er lagt krónutölugjald samkv. lögum um tollafgreiðslugjald á svonefndar fríverslunarvörur, en það verður ekki fyrr en að nokkrum vikum liðnum, eins og áður hefur komið fram. Ráðuneytið hefur einnig ákveðið, að meðan ekki er lagt neitt tollafgreiðslugjald á innfluttar iðnaðarvörur frá EFTA og Efnahagsbandalaginu verði ekki lagt neitt tollafgreiðslugjald á þau aðföng iðnaðar sem flutt eru inn frá löndum EFTA og Efnahagsbandalagsins, þótt aðföngin flokkist ekki undir svonefndar fríverslunarvörur, enda séu þessi aðföng tollfrjáls og án vörugjalds af einhverjum öðrum ástæðum.

Annar liður fsp. er svohljóðandi: „Hvað er gert ráð fyrir að tollafgreiðslugjald á aðföng til iðnaðar gefi ríkissjóði mikið í tekjur á þessu ári?“ — Ég verð að gefa það svar við þessari spurningu, að engar tölulegar upplýsingar eru fyrirliggjandi um það sérstaklega hverjar tekjur tollafgreiðslugjald á aðföngum til iðnaðar muni gefa ríkissjóði á þessu ári. En ég vek á því athygli, sem er ljóst af lögunum um tollafgreiðslugjald, að á aðföng til iðnaðar, sem eru tollfrjáls af öðrum ástæðum, er ekki lagt 1% tollafgreiðslugjald. Þau eru sem sagt undanþegin þessu sérstaka eina prósentugjaldi, en á aðföngin leggst hins vegar lágt krónutölugjald, eins og fram kom hér á undan í svari mínu, og þó ekki fyrst um sinn á aðföng til iðnaðar sem keypt eru frá Efnahagsbandalags- og EFTA-löndum. Mér sýnist því auðvelt að fullyrða að hér verði um heldur smávaxna upphæð að ræða.