30.03.1982
Sameinað þing: 70. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3336 í B-deild Alþingistíðinda. (2958)

361. mál, tollafgreiðslugjald á aðföng til iðnaðar

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það er stundum sagt að sókn sé besta vörnin. Hæstv. ráðh. hefur greinilega ætlast til þess að ná betri stöðu í þessu máli með því að sækja fast á og benda á að þm. hafi ekki vitað hvað þeir voru að gera þegar þeir samþykktu ákveðin lög. En ég held að það skilji allir, sem eitthvað hafa um þessi mál fjallað, að hér er verið að ræða um iðnaðinn, sem hefur ákveðna sérstöðu, og til þeirrar sérstöðu átti að taka sérstakt tillit við þær efnahagsaðgerðir sem hæstv. ríkisstj. efndi til nú um daginn. Það verður að skoða þetta mál í því ljósi sem nú skal nefnt.

Í fyrsta lagi hefur hæstv. ríkisstj., sérstaklega hæstv. fjmrh. og þeir sem hafa farið með fjármálastjórnina, gjörsamlega svikist um að fara eftir því sem hv. Alþingi bauð þeim að gera vorið 1979, þegar vísað var til ríkisstj. lagafrv., sem flutt var af fulltrúum allra stjórnmálaflokka, um að gera breytingar á tollskrárlögum svo að aðföng til iðnaðar yrðu ekki aðflutningsgjaldsskyld. Þetta liggur fyrir. Eftir þessu hefur ekki verið farið. Hæstv. iðnrh. hefur haft þessa stefnu á sínum snærum, boðað hana þrisvar á Alþingi í þáltill. Ekkert gerist hjá hæstv. fjmrh. Þvert á móti grípur hæstv. fjmrh. tækifærið, þegar hann vorið 1980 neyðist til að lýsa yfir stuðningi við tollkrít vegna þess að hæstv. forsrh. sagði hér á hv. Alþingi að þá um haustið, haustið 1980, mundi koma frv. um tollkrít fram á Alþingi, — þá grípur hæstv. ráðh. tækifærið loks þegar það mál er komið í eindaga og ákveðin nefnd hefur skilað skýrslu til hæstv. ráðh., nefnd sem hann sjálfur skipaði um tollkrítarmálin. Í þeirri nefndarskýrslu er gert ráð fyrir að hæstv. ráðh. komi með lagafrv. inn á Alþingi fyrir s.l. áramót. Hvað gerir hæstv. ráðh., hvað gerir hæstv. fjmrh. annað en það sem honum einum mundi hafa dottið í hug? Hann leggur á sérstakt gjald, tollafgreiðslugjald, undir því yfirskini að bráðum komi tollkrítarfrv„ en það á að koma á næsta ári.

Herra forseti. Mér þótti vera ærin ástæða til þess, að þetta kæmi fram í þessum umr. hér, til þess að undirstrika hvaða stöðu hæstv. ríkisstj. lítur á í sambandi við iðnaðinn og hvernig hæstv. fjmrh. notfærir sér einhverjar framtíðarspekúlasjónir til þess að heimta sífellt meira fé af atvinnuvegunum.