30.03.1982
Sameinað þing: 70. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3337 í B-deild Alþingistíðinda. (2959)

361. mál, tollafgreiðslugjald á aðföng til iðnaðar

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég vil rifja það upp vegna ummæla hv. þm. Friðriks Sophussonar, að í ársbyrjun 1981 var tekin ákvörðun um lækkun aðflutningsgjalda á aðföngum til iðnaðar. Þessi ákvörðun er talin hafa lækkað tekjur ríkissjóðs á liðnu ári um 10 millj. kr., 1 milljarð gkr., og á því ári, sem nú er að líða um samsvarandi upphæð að breyttu breytanda. Það er því mesti misskilningur að ekkert hafi verið gert í þessum málum. Hitt er annað mál, að þessi aðflutningsgjaldamál almennt eru mjög flókin og víðtæk og hafa verið til nánari athugunar. Það getur verið uppi ágreiningur um hvað eigi að teljast aðföng til iðnaðar og hvað ekki, og það er ekki útilokað að frekari spor verði stigin í þessa átt. En það er alrangt hjá hv. þm. að ekkert hafi verið gert á þessu sviði.

Hvað tollkrítarmálið snertir, þá er rétt að það hefur nokkuð dregist að frv. yrði lagt fram hér í þinginu. Það er líklega ekki í fyrsta skipti sem dregst að koma frv. fram. Það vill nú stundum gerast og í þessu tilviki hefur þar orðið nokkur dráttur. En ég get huggað hv. þm. með því, að tollkrítarfrv. mun sjá dagsins ljós hér í þinginu áður en vikan er úti.