30.03.1982
Sameinað þing: 71. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3343 í B-deild Alþingistíðinda. (2965)

246. mál, viðauki við vegáætlun 1981--1984

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég fagna því að sjálfsögðu, að þetta mál er nú komið hér á borð þm. og til umr. Ég hygg að það hafi verið svo um fleiri en mig, að menn var farið að lengja eftir því, að það sæi dagsins ljós. Mér er ekki gjarnt að þakka hæstv. ráðherrum mikið, en þó finnst mér ástæða til að þakka það að málið er komið hér til þingsins, enda þótt ég lýsi megnri óánægju minni með tillögur hæstv. ráðh. um skiptingu fjármagnsins og framkvæmdir og einnig óánægju minni með það, að mér vitanlega hafa Vestfjarðaþm. ekki fengið neitt að fylgjast með gangi málsins. Mér vitanlega hefur hæstv. ráðh. ekki á nokkru stigi málsins haft nein samráð eða leyft þm. Vestfjarðakjördæmis að fylgjast með þessu máli. Tel ég það miður, en ekki meira um það.

Það munu nú vera í kringum 10 ár frá því að fyrst var veitt fjárveiting til þess að rannsaka hvað hægt væri að gera til þess að koma í veg fyrir eða a.m.k. minnka þá miklu hættu sem vegfarendum stafar af umferð um Óshlíð. Allan þennan tíma hefur Vegagerðin haft þetta mál til meðferðar. Maður skyldi því ætla að nægur tími hefði gefist til þess að ganga nokkurn veginn úr skugga um það, með hvaða hætti væri tryggast og best að ganga svo frá þessum vegi að sem mestu öryggi væri náð fyrir vegfarendur.

Ég tók eftir því, að hæstv. ráðh. sagði áðan að t.d. á veginum um Ólafsvíkurenni væri þreföld meðalslysatíðni. Í skýrslu Vegagerðarinnar segir að því er varðar Óshlíðina, að meðalslysatíðni síðustu fjögur ár var 7.66. Á árinu 1981 var sjöföld meðalslysatíðni á Óshlíðarvegi, þó ekki nema þreföld á Ólafsvíkurenni. Það kemur mér því spánskt fyrir sjónir, að á þeim veginum, sem sýnir langsamlega mestu slysatíðnina, skuli ekki vera sett mest fjármagn í framkvæmdir. Ég er ekki að öfundast neitt yfir því, að fjármagn sem þetta, 6.9 millj., sé sett í framkvæmdir á Ólafsvíkurenni. Þeir eru vel að því komnir. En ef menn á annað borð leggja til grundvallar slysatíðni og öryggisleysi í umferðinni á vegunum sýnist mér ótvírætt að Óshlið ætti að vera númer eitt í framkvæmdaröð.

Hæstv. ráðh. gat ekkert um slysatíðni á Óshlíð. Það var eina tilfellið. (Sjútvrh.: Jú.) Ekki heyrði ég það, ég bið þá afsökunar. Það var þá eina tilfellið af þessum þremur sem ekki var getið um slysatíðni. Ég heyrði það bæði varðandi Ólafsvíkurenni og Ólafsfjarðarmúla. Sem sagt, slysatíðni á Óshlíðarvegi er miklum mun meiri en á hinum tveimur Ó-vegunum og því full ástæða, að mér finnst, til þess að endurskoða tillögur hæstv. ráðh. um fjármagn til þessara framkvæmda.

Eins og hæstv. ráðh. gat um og hér liggur fyrir er það tillaga Vegagerðarinnar að því er varðar Óshlíð, að ráðist sé í framkvæmdir, breikkun vegarins og búnir til svokallaðir stallar, sem svo er kallað vestra og við þekkjum vel, uppi í hlíð til þess að taka við ofanhruni ásamt öðru. En á þessari framkvæmd er sá galli að því er varðar vegsvæði fyrir utan Seljadal, svæðið milli Seljadals og Bolungarvíkur, að yrði farið í slíkar framkvæmdir þar þýddi það, að ég tel, að lokun vegarins um svo og svo langan tíma, enda er það tekið fram í grg. með till. Ég sé ekki hvernig Vegagerðin ætlar að ráða fram úr því vandamáli, ef á að loka þessum vegi um svo og svo langan tíma, t.d. yfir sumarið. Þarna er ekki um neina aðra leið að fara, nema því aðeins að það verði gerður vegarruðningur yfir heiði og hlýtur því verkefni að fylgja ærinn kostnaður. Ég tel óforsvaranlegt í alla staði að loka af þetta byggðarlag um svo og svo langan tíma meðan á vegaframkvæmdum stendur.

Annað er í þessu sambandi ef farið yrði í þær framkvæmdir sem Vegagerðin leggur til. Nú er ég ekki að tala um svæðið frá Hnífsdal og út í Seljadal, menn eru nokkuð sammála um að þar verði ekki gert annað en farið eftir hugmyndum Vegagerðarinnar varðandi framkvæmdir. En svæðið frá Seljadal út til Bolungarvíkur, út í Óshóla, það er svæði sem menn eru ekki alveg á eitt sáttir um hvernig best verði hagað framkvæmdum á. Það er augljóst að verði farið að tillögum Vegagerðarinnar á þessu svæði, vegurinn breikkaður, auknir þeir stallar eða skerðingar — held ég að sé talað um — í hlíðinni ásamt fleiru, þá fylgir slíkri framkvæmd, að ég held, mikill viðhaldskostnaður ef á annað borð á að halda því við. Við höfum að vísu þá reynslu með þá stalla sem fyrir eru, að þeir eru sjaldnast hreinsaðir, og verði það áfram eins og það hefur verið vex öryggið lítið þó að þetta kæmi til viðbótar. Það hefur margoft verið kvartað yfir því af hálfu þm., að stallar þessir skuli ekki vera hreinsaðir, því að vissulega veita þeir aukið öryggi ef þeim er haldið við, en það hefur því miður ekki verið gert. En kannske vaxa fjármunir til viðhalds ef stallarnir verða fleiri.

Ég held sem sagt að í ljósi þessa sé nauðsynlegt að sumarið í sumar verði notað til þess að bera saman annars vegar jarðgöng og hins vegar þá leið sem Vegagerðin leggur til á þessu svæði og sjá hver kostnaðarmunur er á því ef hann er einhver. Eins og ég sagði er ég alveg viss um það, að miðað við þessar tillögur, yrði að þeim farið, yrðu það gífurlegir fjármunir sem verja þyrfti í viðhald og spurning hvort það skilar sér ekki betur í annars konar framkvæmdum, t.d. jarðgöngum. Ég tala nú ekki um þegar það kemur til viðbótar, að með jarðgöngum á þessu svæði, sem Vegagerðin talar um, er í raun og veru rutt úr vegi, segir Vegagerðin, svo til allri slysahættu á þessu svæði. Talið er að þær framkvæmdir, sem Vegagerðin leggur til tryggi ekki nema 50% umferðaröryggi þegar þær eru komnar til framkvæmda að fullu, en jarðgöng tryggja svo til eins mikið öryggi og hægt er að fá.

Hæstv. ráðh. gat um það áðan, að slæm reynsla væri af berginu þarna vestra, og vitnaði til þess sem gerðist á Breiðadalsheiði. Það er út af fyrir sig rétt. Þær tiltölulega afmörkuðu og flausturslegu kannanir, sem gerðar voru á Breiðadalsheiði, leiddu ekki sérstaklega góðan árangur í ljós. En mér er tjáð að berglög neðar í hliðinni, niður undir sjó á Óshlíð séu talsvert betri, þéttari en um var að ræða á þeim stað sem athugaður var á Breiðadalsheiði. En allt þetta þarf auðvitað að kanna og ganga úr skugga um hvort ekki er eðlilegra og æskilegra flestra ef ekki allra hluta vegna að fara í þá framkvæmd sem gert er ráð fyrir með jarðgöngum, þó að í augnablikinu teljist hún þetta dýrari, eða það sýni sig, að reikni menn fram viðhald og taki öryggisþáttinn inn í dæmið, þá sé það skynsamlegri framkvæmd.

Ég vildi gjarnan fá vitneskju um, ef hæstv. ráðh. veit eitthvað um það, sem er kannske ekki von að hann viti, hvernig Vegagerðin hyggst ráða fram úr því vandamáli sem hlýtur að verða á veginum við þessar framkvæmdir, ef af þeim verður. (EgJ: Er þm. í vafa um að það verði af þessum framkvæmdum?) Það er engu búið að slá föstu enn að því er varðar leiðina frá Seljadal og út til Bolungarvíkur. Ráðh. talaði a.m.k. þannig, og ég held að menn séu sammála um að það þurfi að skoða aðeins betur. Þess vegna er ég að spyrja hvort það hafi verið kannað af hálfu Vegagerðarinnar, með hvaða hætti menn ætla að leysa úr umferðarvandamálinu á þessu svæði þegar og ef í þessa framkvæmd verður farið.

Varðandi svæðið frá Hnífsdal og út í Seljadal held ég að menn séu á eitt sáttir um það, að þar verði farið að tillögu sem Vegagerðin hefur uppi, og raunar ekki önnur lausn fyrirsjáanleg líklega á því svæði, þannig að engar deilur ættu að geta orðið um það. Og það er auðvitað hægt að fara í þær framkvæmdir af fullum krafti á komandi sumri. Auk þess þarf fjármagn til þess að rannsaka og ganga úr skugga um það, hvort jarðgöng væru ekki heppilegri lausn á hinu svæði vegarins en þær tillögur sem Vegagerðin er nú uppi með.

Ég skal ekki, herra forseti, fara öllu fleiri orðum um þetta mál. En ég taldi rétt nú strax við 1. umr. málsins að vekja athygli á þessum þætti málsins og spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ráðh., hvort honum væri kunnugt um með hvaða hætti Vegagerðin ætlaði að ráða fram úr umferðarvandamálinu ef ráðist verður í þær framkvæmdir sem hér er gert ráð fyrir. Ég er persónulega þeirrar skoðunar, eins og fram hefur komið, að skynsamlegt væri að nota sumarið í sumar til þess að ganga úr skugga um með rannsóknum, borunum og öðru hvort ráðlegt væri að fara í jarðgangagerð. Öllum þeim spurningum, sem þar kunna að koma upp, á að vera hægt að svara með rannsóknum á þessu sumri, þannig að framkvæmdir í þeim þætti málsins ættu að geta legið fyrir og orðið að reynd á árinu 1983, þó að ég leggi höfuðáherslu á það, að í byrjunarframkvæmdir við kaflann frá Hnífsdal að Seljadal verði ráðist, eins og ég geri ráð fyrir að menn séu sammála um, og auk þess komi fjármagn til allra þeirra rannsókna sem nauðsynlegt er talið að gera á hinu svæðinu. Ítreka ég svo að lokum óánægju mína með tillögur hæstv. ráðh. um skiptingu fjárins og að við skyldum ekki, þm. Vestf., fá að fylgjast með hugmyndunum og vinnslu málsins að því er Óshlíð varðar. Ég er ekki að krefjast hinna upplýsinganna.