30.03.1982
Sameinað þing: 71. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3346 í B-deild Alþingistíðinda. (2966)

246. mál, viðauki við vegáætlun 1981--1984

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég hygg að það hafi verið samhljóða álit flestra ef ekki allra þm. að þeir þrír vegir, sem nefndir eru í þessari till. til þál., séu hættulegustu vegirnir á landinu, þó að þeir séu margir fleiri þar sem engan veginn er nægilegt umferðaröryggi. Ég ætla ekki á þessu stigi að fara í meting um hvernig eigi að skipta því fjármagni. Þetta er sameiginleg ákvörðun, sem Alþingi tekur, og skiptingin er vitaskuld komin undir því, með hvaða hætti eigi að standa að framkvæmdum. Það er búið að gera allmargar kannanir á framkvæmdum við suma þessa vegi, og það er jafnframt það sem hér hefur orðið ofan á. Ég ætla ekki að endurtaka það, sem hæstv. ráðh. hefur lýst, að hugmyndin um jarðgöng um Óshlíð eða frá Seljadal að Ósi mundi kosta miklu meira fjármagn en þyrfti til vegaframkvæmda. Við vitum að þó að við séum að vinna að undirbúningi langtímaáætlunar um vegagerð vítt og breitt um landið er ákveðin skipting á milli hinna einstöku kjördæma og eftir því sem ákveðnar einstakar framkvæmdir í kjördæmi verða dýrari verður biðin lengri við aðrar framkvæmdir. Hér er því um mikið matsatriði að ræða.

Ég ætla ekki, eins og ég sagði í upphafi, að fara að ræða skiptinguna í þessari þáltill. Henni verður vísað til nefndar. Við þm. höfum í höndunum skýrslur um undirbúning að rannsóknum á þessum framkvæmdum við alla þessa þrjá vegi, og það verður að ráðast hvað verður talið skynsamlegt að fara í fyrst til að hraða sem mest framkvæmdum við þessa vegi alla og þá um leið að hraða því að auka öryggi vegfarenda um þessa vegi.

Ég tek undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að hætta á veginum um Óshlíð er mjög mikil. Hins vegar er ekki alltaf hægt að leggja til grundvallar fréttir um það sem kemur fyrir. Það er oft og tíðum ekki talið fréttnæmt grjóthrun á Óshlíð. Hins vegar er fréttamennskan kannske meiri annars staðar frá, eins og gerist og gengur, en um það deilum við ekki að brýn er þörf á framkvæmdum bæði við veginn um Ólafsvíkurenni og eins við Ólafsfjarðarveg. Það er líka skiljanlegt að þegar áform eru uppi eins og um jarðgöng um Ólafsfjarðarmúla, þá er ekki reiknað með öðru en lítils háttar hönnun á þessu ári því að undirbúningurinn tekur langan tíma. Ef á að fara út í jarðgangarannsóknir á Óshlíð er sjáanlegt að það mun líða þó nokkur tími þar til í þessar framkvæmdir verði farið. Á meðan bíður sama hættan vegfarenda um þennan erfiða veg sem og hina. Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta, en tel rétt að sú nefnd, sem fær málið til meðferðar, kynni sér mjög ítarlega þau gögn, sem fyrir liggja, og óskir manna, bæði heimamanna og annarra, í þessum efnum, áður en hún skilar áliti, þó að hún verði vitaskuld að hafa hraðan á.

En það er annað, sem ég vildi gera hér að umræðuefni, en það er fjárútvegun til vegagerðar, þessara sem annarra framkvæmda. Í upphafi þessarar tillögu segir að „Alþingi ályktar að á árinu skuli aflað 10 millj. kr. viðbótarfjár til vegáætlunar á árinu 1982“. Síðan kemur hvernig þessu fjármagni skuli skipt á þá þrjá vegi sem hér hafa verið til umr. Í grg. er ekki minnst einu orði á þá fjármögnun sem hefur komið til vegamála frá Framkvæmdastofnun ríkisins, en ráðh. gat þess lítillega í ræðu sinni að tillaga hefði verið flutt í Framkvæmdastofnun um aukið fjármagn til vegagerðar á undanförnum árum, og samkv. gildandi vegáætlun má verja 30 millj. kr. til framkvæmda af því fjármagni sem Framkvæmdastofnunin hefur lánað og heitir að lána áfram.

Nýlega flutti forstjóri stofnunarinnar tillögu um að stórauka þessi framlög til vegagerðar. Það er veruleg fjárvöntun til vegagerðarinnar árið 1982 til að halda framkvæmdamagni nokkurn veginn óbreyttu frá því sem ætlað var á s.l. ári. Sömuleiðis var haft í huga að fé vantaði til framkvæmda við þessa vegi á þessu ári. Því var í þessari tillögu ætlað að Byggðasjóður tæki erlent lán að upphæð 20 millj. kr. sem hann tæki að sér að greiða bæði vexti og afborganir af. M.ö.o.: hér var um 20 millj. kr. gjafafé á þessu ári að ræða til þessara tilteknu verkefna og til að fylla í þann ramma sem reiknað var með til að halda framkvæmdamagni vega nokkurn veginn óbreyttu. Auk þess voru í þessari tillögu um 7 millj. til vegaframkvæmda þannig að heildarframlög til vegaframkvæmda, sem Byggðasjóður fjármagnaði ýmist með lánum eða framlögum, færu upp í 57 millj. kr. Um þetta var fullkomin samstaða í stjórn Byggðasjóðs á milli fulltrúa frá öllum þingflokkum þannig að tillaga forstjóra var um leið orðin tillaga allra stjórnarmanna. Það hefur komið greinilega fram í stjórn þeirrar stofnunar, að hún telur mikilvægi vegamála vera svo brýnt að hún vill gjarnan draga úr öðrum lánveitingum til að auka verulega hlutdeild sína í vegamálum og öðrum samgöngumálum.

Auk þessara 57 millj. til vegamála eru ætlaðar 13 millj. kr. lánveitingar til annarra þátta samgöngumála og þá sérstaklega í hafnarframkvæmdum. Á þessu sést að Byggðasjóður er að stefna að því að fara í stórvaxandi mæli yfir í vegaframkvæmdir til að styrkja og renna styrkari stoðum undir þá stefnu sem verið er að marka í vegagerð í langtímaáætlun. Ég tel að þetta sé mjög mikils virði og ég met mjög mikils þá forustu, sem forstjóri Framkvæmdastofnunar ríkisins hafði upprunalega í þessu máli, og þann áhuga, sem hann hefur enn. Ekki síður met ég þann mikla áhuga sem allir stjórnarmenn í Framkvæmdastofnuninni hafa sýnt í þessu máli. Því þykir mér undarlegt að það skuli koma hér fram að Alþingi álykti að á árinu skuli afla 10 millj. kr. viðbótarfjár til vegáætlunar á árinu 1982. Ætlar hæstv. samgrh. þá að fá þessar 10 millj. annars staðar að láni? Verður þá um 10 millj. kr. aukningu að ræða til annarra framkvæmda? Mér finnst margt benda til þess, þegar þetta orðalag er haft, og því vil ég spyrja um það, því að ég efast ekki um að stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins geti bent á ýmis önnur verkefni og það væri á margan hátt okkur öllum mjög kærkomið: Er það ásetningur hæstv. samgrh. að fá þessar 10 millj. að láni til viðbótar í samræmi við yfirlýsingu sem hann gaf hér á hv. Alþingi við afgreiðslu vegáætlunar og er prentuð á þessu þskj.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, en ég tel að það sé nauðsynlegt að fá fram hvort þessu sé þannig farið, þó að ég sakni þessarar upphæðar í lánsfjáráætluninni. En það getur vel verið að hún eigi eftir að koma þar fram því að þar hefur ýmislegt gerst hjá hæstv. ríkisstj. Ég mundi ekki tala mikið um það þó að 10 millj. kr. tillaga skyti upp kollinum í öllum þeim frumskógi sem sú áætlun nær yfir.