31.03.1982
Sameinað þing: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3390 í B-deild Alþingistíðinda. (2979)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í tilefni af ræðu hv. 4. þm. Vestf. Ég h jó eftir því í hans máli, að hann taldi að ég hefði lýst því hér yfir, að ef orkustefnu Sjálfstfl. yrði fylgt yrði hér á landi einhvers konar villimannaþjóðfélag. Ég held að þm. hafi misheyrst. Ég mun hafa sagt í þessari ræðu að ég óttaðist að ef orkustefnu Sjálfstfl. yrði fylgt yrði hér á landi einhvers konar vinnumannaþjóðfélag og á því geri ég auðvitað nokkurn mun. (Gripið fram í.) Já, það er ábyggilega misheyrn, vegna þess að ég sagði vinnumannaþjóðfélag. (ÞK: Við skulum hafa það sem réttara er.) Þakka þér fyrir. Það, sem ég átti við, var að ég hef alla tíð óttast það sem ég hef kallað orkusölustefnu Sjálfstfl. og mér hefur fundist koma mjög skýrt fram í ræðum þm. Sjálfstfl., stefnu þeirra og framkvæmdum á undanförnum árum. Nú finnst mér þm. Sjálfstfl. nokkuð vera farnir að draga hér í land og telja að þetta sé alls ekki þeirra stefna — og það er vel. En það, sem ég átti við með þessu, var að ef þessi stefna, orkusölustefna Sjálfstfl., kæmist í framkvæmd, þ.e. að orkunýtingarfyrirtæki hér á landi yrðu alfarið í eigu erlendra aðila, þá mundu Íslendingar fyrst og fremst njóta vinnu hjá slíkum aðilum en ekki hafa full yfirráð, virk yfirráð, eins og við framsóknarmenn gjarnan köllum þetta, yfir slíkum fyrirtækjum, þeir mundu vinna hjá þessum fjölþjóðafyrirtækjum og verða þar af leiðandi nokkurs konar vinnumannaþjóð. Það er það sem ég átti við með þessu orðalagi.

Þm. talaði um að ég hefði vitnað til Kanada. Það er alveg rétt. Þær tölur sem ég hef skoðað varðandi þessi mál, orkunýtingu og orkunýtingarstefnu, í Kanada benda til þess, að við hljótum að fara mjög gætilega þegar komið er að þessari orkusölustefnu Sjálfstfl. Þær tölur, sem ég hef nú undir höndum — af því að þetta bar nú á góma aftur — eru frá 1979. Samkv. þeim bendir allt til að Kanadamenn muni nota mesta orku allra þjóða í veröldinni á íbúa eða sem svarar árið 1979 um 9.16 ígildum olíutonna á ári á íbúa. Aðrar tölur eru t.d. Danmörk með um 4.23 olíutonn á íbúa á ári, Frakkland 3.75, Vestur-Þýskaland 4.6 o.s.frv. Ísland er með 5.8. Kanadamenn nota miklu meiri orku en Bandaríkjamenn sem nota um 8.7 olíutonn á ári á íbúa. Kanadamenn hafa náð það langt í nýtingu sinna orkulinda nú þegar, að þeir eru sennilega með allra mestu orkunotkun á íbúa allra þjóða. Svo langt hafa þeir náð í orkunýtingu sinni og nýtingu ýmiss konar hráefna og auðlinda sem þeir hafa.

Ef maður síðan skoðar þjóðarframleiðslu á mann þetta ár, þá kemur í ljós að þjóðarframleiðsla á mann í Kanada er 9 580 dollarar. Í Danmörku er hún hins vegar 12 940, í Frakklandi 10 680, á Íslandi 10 980 0. s. frv. Ég ætla ekki að lesa meira. Það kemur í ljós að þjóðarframleiðsla á mann í Kanada er tiltölulega lág miðað við þau lönd sem við viljum miða okkur við enda þótt þeir séu komnir svona langt í sinni orkunýtingu. Þess vegna hef ég verið að segja hér í ræðum að þetta er ekki einhlítt. Það er ekki einhlítt að halda hér langar ræður um mikla orkunýtingu og nauðsyn þess, að Íslendingar virki sín fallvötn og sínar orkulindir hið hraðasta, vegna þess að það er engan veginn sama hvernig að þessu er síðan staðið. Ef menn fara að þessu svipað og Kanadamenn sem svona langt hafa náð í sinni orkunýtingu, en eru staddir þannig að erlend fjölþjóðafyrirtæki eiga þau atvinnufyrirtæki sem orkuna nýta, þá er ekki víst að það bæti okkar lífskjör eða auki þjóðartekjur og þjóðarframleiðslu. Það er það sem ég hef verið að segja.

Orkusölustefna Kanadamanna og sjálfstæðismanna hér á Íslandi má ekki ráða þegar við höldum áfram með orkunýtingu okkar hér. Þetta er algert meginmál, vegna þess að sú stefna leiðir til litillar þjóðarframleiðslu á íbúa, hún leiðir þess vegna til lægri lífskjara og hún leiðir til þess, að á Íslandi verður vinnumannaþjóð. Ísland gæti með slíku móti, svo lítið land og fámennt en með svo mikla orkunýtingarmöguleika, orðið nokkurs konar hálfnýlenda erlendra fjölþjóðafyrirtækja. Þetta er auðvitað algert meginmál. Þess vegna hafa framsóknarmenn lagt áherslu á það sem þeir hafa kallað „virk yfirráð“ yfir þessum orkunýtingarfyrirtækjum. Ég vil bara rifja það hér upp til þess að forðast allan misskilning í tilefni af orðum hv. 4. þm. Vestf., að hér er um algert meginmál að ræða.

Hitt er annað, að mér finnst að sjálfstæðismenn séu nokkuð að hverfa frá þessari orkusölustefnu sinni núna. Þeir eru farnir að slá talsvert meira úr og i, og mér fannst af ræðu hv. 4. þm. Vestf., Þorvalds Garðars, núna áðan að hann teldi að Íslendingar ættu að eiga eins mikið og mögulega væri hægt í þessum fyrirtækjum. Ég er satt að segja mjög glaður að heyra þetta þó að ég sé ekki alveg viss um að við, ég og hv. þm. Þorvaldur Garðar, yrðum sammála um það, hversu mikið Íslendingar gætu átt. Það er kannske eftir að ná frekara samkomulagi um það.

Við framsóknarmenn höfum lagt megináherslu á meirihlutaeign, þó að hún geti myndast á nokkrum árafjölda, en síðan virkum yfirráðum, þar sem við leggjum áherslu á að yfirráð Íslendinga yfir þessum fyrirtækjum eru ekki næg þó að um meirihlutaeign sé að ræða, heldur verða að koma til yfirráð Íslendinga sjálfra og full þátttaka í markaðsmálum, tæknimálum og öðru slíku.

Ég vil sérstaklega benda á það í þessu sambandi, að miklar umr. hafa orðið um álverið í Straumsvík, sem í rauninni er fyrirtæki sem mér hefur fundist fullnægja alveg þeim skilyrðum sem sjálfstæðismenn hafa sett fram í sinni orkusölustefnu. Ég er alveg viss um að verðlagning álversins í Straumsvík á hráefnum til ÍSALs er of há. Ég er alveg viss um það eftir að hafa skoðað þau mál. Ég er alveg viss um að með slíkri verðlagningu kemst álverið hjá skattgreiðslum hér í þeim mæli sem eðlilegt væri ef fyrirtækið greiddi skatta miðað við sína afkomu. Í mínum huga er enginn vafi um þetta. Ég er líka alveg viss um að fjölþjóðafyrirtæki eins og álverið í Straumsvík heldur marga stjórnarfundi um það, hvernig hægt sé að komast af með sem minnstar skattgreiðslur, og það er eðlilegt. Það er auðvitað gert með því að flytja fjármagnið til á milli landa, þannig að það endi þar sem skattgreiðslur eru fyrirtækinu hagstæðastar, líklega í þessu tilviki í Sviss. Út af fyrir sig er ekkert óeðlilegt við það. En þarna hvílir ábyrgð á okkur Íslendingum að fylgjast með og veita aðhald.

Ég er líka alveg viss um að meginhluti íslensku þjóðarinnar er þeirrar skoðunar, að orkuverðið til álversins í Straumsvík sé orðið allt of lágt. Tvöföldun á orkuverðinu er meira að segja ekki næg fyrir okkur. Og það er ekki lítið þegar hugsað er til þess, að tvöföldun orkuverðsins í Straumsvík gæti líklega gefið okkur einhvers staðar á milli 8 og 10 þús. millj. gkr. á ári í tekjur. En hallinn á Landsvirkjun hefur kannske verið 11/2 gamall milljarður, þannig að það mundi gerbreyta allri stöðu okkar orkuvinnslufyrirtækja ef þessi sjálfsagða og eðlilega leiðrétting fæst fram — eða ég vil kannske öllu heldur segja: þegar hún fæst fram, vegna þess að hún verður að fást fram. En ég held að þarna sé dæmi um það, — ég ætla ekki að ræða fortíðina í þessu sambandi, heldur eingöngu afleiðingu þeirra löngu samninga, sem gerðir voru við álverið á sínum tíma, og í því gerbreytta umhverfi og gerbreyttu aðstæðum, sem við nú lifum við, eru þessir samningar óviðunandi.

Ég vil benda á það enn á ný, að þetta er hættan af þeirri orkusölustefnu sem mér finnst að Sjálfstfl. hafi lagt mikla áherslu á, en mér finnst að hann sé dálítið að hverfa frá núna.

Hv. 4. þm. Vestf. gerði skipulagsmál orkumála mjög að umræðuefni. Ég veit að þessi þm. hefur borið skipulagsmál orkumálanna mjög fyrir brjósti og oft fjallað um þau. Ég verð að játa að mér hefur alltaf gengið illa að skilja það, hvernig sjálfstæðismenn vilja skipuleggja orkumálin. Þegar við framsóknarmenn vorum upphaflega með þær hugmyndir að orkuvinnslufyrirtæki væri eitt í landinu sem sæi um meginorkuvinnslu, þá fannst mér sjálfstæðismenn alltaf á móti því. Ég man ekki betur en þeir felldu það í borgarstjórn Reykjavíkur að Landsvirkjun yrði færð út, einmitt á þeirri forsendu að þá höfðu þeir allt aðra stefnu. Þá átti þetta að vera landshlutafyrirtæki. Ef ég skil þennan þm. rétt núna, þá er hann hins vegar kominn — eða Sjálfstfl. — á þá skoðun, að nú skuli þetta vera eitt orkuvinnslufyrirtæki, þó þannig að þeir aðrir, sem áhuga hafa á, gætu virkjað í landshlutunum líka. Ég satt að segja sé ekki hvernig þetta getur verið stefnan. Mér finnst að þeir séu komnir hálfa leið yfir til okkar framsóknarmanna með þessa stefnu sína, eins og kannske stefnuna í orkunýtingu líka, og það er vel, ef þeir stíga þá allt skrefið og koma alla leið. Það má kannske segja um þá að þeir séu á réttri braut. En eins og þessi skipulagsmál eru hjá Sjálfstfl. núna, þá verð ég að játa að ég skil þau ekki almennilega og mér finnst þetta einhvern veginn ekkert skipulag. (Gripið fram í: Það er auðheyrt.) Já, ég hef þetta bara eftir þm., eða eins og ég skildi hann í ræðunni áðan.

Þm. gerði að umræðuefni að ég hefði sérstaklega talað um að þessi orkunýtingarfyrirtæki ættu ekki að vera alfarið í ríkiseign. Það er rétt. Ég lagði á það nokkuð mikla áherslu í minni ræðu. Hann lagði síðan út af því, að líklega ætti ég við að Sambandið ætti að eiga þetta allt saman. Það var svona óþarfa lykkja hjá þm., enda veit hann að ég átti ekki við það. Hitt er annað, að ég er þeirrar skoðunar að samvinnufélögin, almenn hlutafélög, almenningshlutafélög og einstaklingar eigi að koma inn í eignaraðild að þessum orkunýtingarfyrirtækjum. Ég skal í örstuttu máli gera grein fyrir hvað ég á við með því.

Ríkisstj. hefur markað stefnu um hraða í orkunýtingu. Hún hefur markað þá stefnu, að á næstu 12 árum skuli verða virkjaðar þær virkjanir sem heimildar var leitað til að virkja með lögum frá síðasta þingi, það eru miklar framkvæmdir, en jafnframt að um aldamót skuli orkureikningurinn hafa verið jafnaður, en það þýðir að orkufrekur iðnaður skuli hafa þrefaldast um aldamót, eða að orkufrekur iðnaður, sem nú nýtir um 2000 gwst. eða 2 terawattstundir á ári, skuli um aldamót nýta um 6 terawattstundir á ári. Hér er um glettilega mikla breytingu á íslensku þjóðfélagi að ræða vegna þess að það er líklegt, að ef þetta mark næst, þá muni um 40–50% af útflutningstekjum Íslendinga vera frá orkufrekum iðnaði um aldamót. Þarna er um feiknalegar breytingar að ræða. Ef svo fer að íslenska ríkið verði meginaðili, meirihlutaeignaraðili í öllum þessu fyrirtækjum fram til aldamóta, þá stöndum við hér frammi fyrir þjóðfélagi þar sem um helmingur eða meira en það af öllum útflutningsverðmætunum er frá fyrirtækjum sem að meirihluta eru í ríkiseign. Ég játa að það er mér mikið umhugsunarefni. Þess vegna er það sem framsóknarmenn hafa hvað eftir annað sagt að inn í þessa eignaraðild verði að koma einstaklingar, samvinnufélög og hlutafélög. Það er viðtekin staðreynd, að frelsi einstaklings og frelsi almennings í lýðræðisþjóðfélagi byggist á því, að jafnvægi sé sem mest í dreifingu fjármagns í þjóðfélaginu og dreifingu valds. Ég hygg, að ef við stefnum í þjóðfélagsuppbyggingu á þennan hátt, þar sem íslenska ríkið sjálft á gífurlegan hluta af atvinnufyrirtækjunum um aldamót, þá muni það beinlínis hafa áhrif á rekstur annarra aðila og frelsi þeirra í þjóðfélaginu. Ég ætla ekki að fara frekar út í þær vangaveltur, en það er þetta, það er þessi framtíðarsýn, sem er í huga framsóknarmanna þegar þeir segja: Þetta verður að færast út. Skothentar yfirlýsingar frá 4. þm. Vestf. um að hér séu framsóknarmenn eingöngu að tala um Sambandið, eru alveg út í hött í þessu sambandi. Við erum að tala um framtíðarsýn íslenska þjóðfélagsins, hvernig íslenska þjóðfélagið verður upp byggt, hvers konar þjóðfélag það verður um aldamót, hvers konar lýðræði við viljum hafa hér. Það er þess vegna sem við erum að fara inn á þetta svið.

Ég ætla svo ekki að lengja umr. frekar í þessu sambandi nú, en að gefnu tilefni vegna ummæla hv. 4. þm. Vestf. sá ég ástæðu til að leggja þessi orð inn í umr.