31.03.1982
Sameinað þing: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3406 í B-deild Alþingistíðinda. (2982)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Þessi umr. hefur nú staðið alllengi og ég reyndar þegar haldið alllanga ræðu um það mál sem hér er á dagskrá. Ég skal því ekki lengja þessa umr. að ráði, en það eru þó nokkur atriði sem ég tel nauðsynlegt að gera að umræðuefni að sérstaklega gefnu tilefni manna hér í dag.

Ég vil sérstaklega gera að umtalsefni ræðu sem hv. 12. þm. Reykv., Guðmundur G. Þórarinsson, — sem ég sé reyndar ekki í salnum hér nú — hélt í dag og er í mjög svipuðum dúr og hann hefur haldið hér oft áður. Hann gerir það gjarnan í þeim ræðum, sem hann heldur hér um orku- og atvinnumál, að nefna Kanada sem sérstakt fordæmi til að varast, og hefur þá uppi tölulegan samanburð á nýtingu á orku á íbúa, ber síðan saman við þjóðarframleiðslu á íbúa og reyndar ýmis fleiri atriði sem lesa má um í skýrslum sem OECD gefur út á hverju ári. Auðvitað er þessi samanburður út í hött, og það að líkja stefnu Sjálfstfl. sérstaklega við þá stefnu, sem höfð sé uppi í Kanada, er fásinna. Auðvitað einfaldar þessi hv. þm. hlutina mjög mikið, eins og honum er mjög tamt að gera. Það er alls ekki víst að sú röksemdafærsla standist að segja sem svo, að Kanada sé ekki betur á vegi statt fjárhagslega vegna stefnu sinnar í orkunýtingarmálum. Það má jafnvel alveg eins spyrja: Hvernig væri Kanada á vegi statt varðandi þjóðarframleiðslu á mann ef orkunýtingin væri ekki svona mikil? En þetta eru ýkjur hjá hv. þm. Sannleikurinn er sá, að ef maður skoðar þessar tölur svolítið ofan í kjölinn, sem hann er að flytja okkur um fátækt Kanada, eins og hann orðar það sjálfur, þá er Kanada nokkurn veginn í miðjunni af þeim löndum sem OECD gefur út skýrslur um. Miðað við þjóðarframleiðslu á mann eru fremst Sviss, Danmörk, Svíþjóð og Þýskaland í þeirri röð. Ísland er áttunda í röðinni, Kanada er númer tólf, nokkurn veginn í miðjunni, en fyrir neðan koma ýmis lönd sem við viljum ekki nefna fátæk lönd, eins og Austurríki, Finnland og Bretland. Þessar fullyrðingar, sem hér eru endurteknar hvað eftir annað, að Kanada sé svo fátækt land að við þurfum að varast þá stefnu sem þar sé haldið uppi, eru að sjálfsögðu rangar og standast engan veginn. Þessi samanburður er líka yfirborðslegur að mörgu leyti vegna þess að Kanada hefur í ýmsum atriðum farið allt öðruvísi að í sínum orkunýtingarmálum heldur en við höfum gert og allt öðruvísi en nokkrum manni dettur í hug að gera hér á landi. Þar má nefna t.d. að í Kanada hefur virkjunarrétturinn oft verið seldur til fyrirtækja sem eiga virkjanirnar og byggja stóriðjufyrirtækin einnig. Í mörgum tilvikum eru því virkjanirnar og stóriðjufyrirtækin í Kanada á sömu hendi og þá oft um útlenda aðila að ræða. Þessi samanburður er því alveg út í hött. Það hefur engum manni dottið í hug að hér yrði virkjunarréttur í höndum annarra en Íslendinga.

Í mörgum tilvikum líta menn nefnilega á virkjanir og stóriðjufyrirtæki sem eitt og sama fyrirtækið. — Af því að ég sé að hv. 12. þm. Reykv. er genginn í salinn vil ég ítreka það, að í mörgum tilvikum eru það útlendingar sem eiga virkjanirnar og eiga einnig og reka stóriðjufyrirtækin. Það er stefna sem engum hefur dottið í hug að boða hér á landi. Við höfum haft þá ákveðnu stefnu, að Íslendingar eigi virkjanafyrirtækin, byggi þau og reki, en við höfum hins vegar talið rétt að orka sé seld stóriðjufyrirtækjum eða orkufrekum iðnaðarfyrirtækjum, og við höfum ekki gert það að neinu trúaratriði að útlendingar megi ekki eiga þátt í þeim fyrirtækjum.

Ég held ég verði að ítreka það sem ég sagði hér í gær, vegna þess að hv. 12. þm. Reykv. var þá ekki hér í salnum, og leiðrétta þann misskilning sem hann er haldinn og heldur fram, ég vona ekki af ásettu ráði, þegar hann vill kalla stefnu Sjálfstfl. í þessum málum orkusölustefnu. Það er áróðursbragð. Sjálfstfl. hefur bæði í orði og á borði haft uppi stefnu sem gerir ráð fyrir margvíslegu formi á aðild okkar Íslendinga að slíkum fyrirtækjum. Ég rifjaði það upp, að á árinu 1979 samþykkti landsfundur Sjálfstfl. að stefnt yrði að virkari þátttöku innlendra aðila í stóriðjufyrirtækjum. Og þetta er í fyrsta sinn sem ég sé orðin „virk þátttaka“ eða virkari þátttaka Íslendinga. Það var ekki fyrr en löngu síðar að hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson fór að prédika þá stefnu, að virk íslensk yfirráð ættu að vera yfir þessum fyrirtækjum. Kannske hefur hann bara verið búinn að lesa þetta í landsfundarstefnuskrá sjálfstæðismanna frá 1979. Þessi stefna var ítrekuð á landsfundi Sjálfstfl. á s.l. hausti. Í samþykkt fundarins segir, með leyfi forseta:

„Sjálfstfl. telur að ákvarðanir um eignaraðild Íslendinga að iðjuverum svo og samstarfssamningar um önnur atriði eigi að ráðast af eðli hvers máls fyrir sig og aðstæðum á hverjum tíma. Af hans hálfu koma því til greina margvíslegir kostir að þessu leyti.“

Þetta vil ég mjög undirstrika vegna þeirrar ræðu, sem hv. þm. hélt hér áðan, og benda líka á að undir forustu sjálfstæðismanna hafa verið farnar margvíslegar leiðir í þessum efnum. Við höfum farið þá leið og beitt okkur fyrir því, að járnblendiverksmiðjan væri reist að meirihluta í eigu Íslendinga. Við höfum beitt okkur fyrir því, að kísilgúrverksmiðjan væri reist við Mývatn í meirihlutaeigu Íslendinga. Við höfum því haft uppi eftir atvikum og aðstæðum hverju sinni þá stefnu sem við teljum réttasta miðað við það sem verið er að leggja út í á hverjum tíma. Við höfum hins vegar alls ekki verið haldnir þeirri vanmetakennd að telja að útlendingar megi undir engum kringumstæðum koma hér við sögu sem eignaraðilar. Við teljum eðlilegt að lagt sé raunhæft mat á það hverju sinni, í hve ríkum mæli við viljum ganga til samstarfs við útlendinga um eignaraðild að slíkum fyrirtækjum.

Við viljum að ekki sé gengið fram hjá þeirri staðreynd, að hér er um mjög áhættusaman atvinnurekstur að ræða í mörgum tilvikum, eins og dæmin sanna bæði af álverksmiðjunni og járnblendiverksmiðjunni, og við höfum talið nauðsynlegt að dreifa þeirri miklu fjárhagslegu áhættu, sem þarna er á ferðinni, þannig að útlendingar taki þátt í áhættunni einnig, en að við tökum okkar ágóða inn á annan hátt, með sölu orkunnar, sölu margvíslegrar þjónustu til slíkra aðila og þar fram eftir götum. Ég vil sérstaklega ítreka það, að hv. 12. þm. Reykv. fer ekki með rétt mál þegar hann reynir að skýra þá stefnu, sem Sjálfstfl. hefur haft uppi í þessum málum, og gerðir hans í þeim hingað til.

Ég vil aðeins víkja nokkrum orðum að tveimur eða þremur atriðum sem fram komu í ræðu hæstv. iðnrh. Ég gerði í minni ræðu hér í gær að umtalsefni, eins og reyndar hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur gert, hvernig staðið hefur verið að samningum við heimamenn í Norðurlandi vestra. Ég ítreka það sem ég sagði þá, að það hefur verið illa staðið að þeim samningum. Hæstv. iðnrh. hefur gengið að þeim samningum með hótunum og ögrunum sem hafa farið illa í heimamenn og eru ekki leið til þess að ná samningum í jafnviðkvæmu deilumáli og þar um ræðir. Hæstv. iðnrh. reyndi að smeygja sér út úr þessu í ræðu sinni áðan með því að telja að ómaklega hefði verið veist að samningamönnum ríkisins í þessu efni og hér væri um að ræða aðdróttanir í þeirra garð. Nefndi hann þar til sérstaklega stjórnarformann Landsvirkjunar sem verið hefði í þessum samningum. Hæstv. iðnrh. getur ekki snúið sig út úr þessu máli á þennan veg. Það var hæstv. iðnrh. sem gaf tóninn í þessum viðræðum. Hann hefur stjórnað þeim og það hefur ekki verið gert neitt í þessu efni sem hann hefur ekki samþykkt. Það er því alls ekki verið að drótta neinu að samningamönnum ríkisins sem hafa unnið sitt verk í umboði hæstv. ráðh. Það er sá sem verkinu stjórnaði, sá sem gaf fyrirmælin, sem að sjálfsögðu ber höfuðábyrgðina. Það er ekki hægt að skjóta sér á bak við aðra í þeim efnum.

Hæstv. ráðh. vildi meina að ekki hefði komið til tafa hingað til vegna þess að ekki væri búið að taka ákvörðun um nýja virkjun, þessi skortur á ákvörðunum hefði enn ekki orðið til þess að tefja virkjunarframkvæmdir, enda væri sleitulaust unnið að undirbúningi allra þessara virkjana, eins og hæstv. ráðh. komst að orði. Þetta er ekki rétt. Hæstv. ráðh. veit að samhengið í virkjunum á Íslandi er að rofna. Hrauneyjafossvirkjun er að ljúka, og það er engin önnur virkjun tilbúin nú til þess að taka við. Við erum ekki tilbúnir til þess að hefja vinnu við neina aðra virkjun, enda sjáum við að verulegur samdráttur er í fjármögnun raforkuframkvæmda hér á landi á þessu ári og líklegt að svo haldi áfram ef ekki verður breytt um stefnu. Þær tafir, sem orðið hafa á ákvörðunum bæði varðandi næstu virkjanir og þá iðnaðarkosti sem til greina komi að tengja þessum virkjunum, hafa gert það að verkum, að við erum að dragast aftur úr og samhengið í virkjunarframkvæmdum okkar er að rofna.

Herra forseti. Ég vildi gera athugasemdir við þessi atriði sem fram hafa komið í ræðu manna hér í dag. Læt ég svo máli mínu lokið.