31.03.1982
Sameinað þing: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3416 í B-deild Alþingistíðinda. (2986)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég hef eins og aðrir hv. þm. í tvo daga hlýtt á þessar umr. og eins og eðlilegt er hafa þær mjög snúist um Blönduvirkjun, það

gífurlega þýðingarmikla mál, sem því miður horfir nú ekki eins vel um og við hefðum víst flestir viljað.

Því miður hefur það komið hér fram, að hæstv. ráðh., sem um málið hafa talað, eru ekki sammála. Það er raunar ekkert nýtt að ráðh. í þessari hæstv. ríkisstj. séu ósammála.

Hæstv. landbrh. lauk máli sínu á því, að hann kvaðst vænta þess, að góður einhugur gæti skapast um framkvæmdir sem hafnar verða á grundvelli samningsins sem undirskrifaður hefur verið, hygg ég að hann hafi sagt orðrétt. Aftur á móti hefur hæstv. iðnrh. nú í þessum umr. þrívegis undirstrikað að ekkert væri ákveðið um virkjun Blöndu. Ég man ekki nákvæmlega orðalag hans í gær, en það er áreiðanlega rétt túlkað í dagblöðum, t.d. Tímanum, að hann hafi gert því skóna að frá Blönduvirkjun yrði horfið, en í dag sagði hann: Það hefur ekki verið settur neinn lokapunktur. — Ef ekki skapast sæmilegur friður verður verulegum hagsmunum stofnað í hættu og það er sleginn varnagli í þáltill.

Hæstv. iðnrh. segir sem sagt hér enn í dag að það sé alls ekki ákveðið að virkja Blöndu. Það er eina virkjunin sem hægt er að ráðast í á næstu mánuðum og misserum því önnur er ekki undirbúin. Hann heldur dyrunum sem sagt enn þá opnum, ætlar sér e.t.v. að hverfa frá Blönduvirkjun. Það er sú stóra hætta. Ég efast um að þessi hæstv. ráðh. hafi nokkurn tíma ætlað sér að ráðast í Blönduvirkjun. Ýmislegt bendir til þess, að hann hafi haldið þannig á málum beinlínis viljandi að koma í veg fyrir að Blanda yrði virkjuð. Það er þetta sem eftir stendur í þessum umr., því miður. Hitt er líka staðreynd og líka því miður, að óeining er heima í héraði og raunar takast menn þar á með óhugnanlega mikilli hörku. Skal ég ekki hafa um það fleiri orð.

Ég hef áður sagt hér fyrir alllöngu úr þessum leðurstól, að ég vildi helst að engan mann þyrfti að kúga í þessu máli, svo augljóst hagsmunamál sem þetta er hinum norðlensku byggðum og landinu öllu. Ég held að enn þá sé hægt að komast hjá því að kúga nokkurn mann. En þegar hæstv. ráðh. segir hér orðrétt að Bólstaðarhliðarhreppi verði „gefinn kostur á að skrifa undir samninginn“ er það auðvitað enn ein ögrunin. Mætti ekki segja að það yrði rætt við mennina? Er það ekki lágmarkskurteisi, ef hæstv. iðnrh. ætlar sér að leiða málið farsællega til lykta? Ég hefði haldið það. Það var auðvitað bæði ögrun og hótun fólgin í því að segja: Blanda verður virkjuð ef það verður 400 gígalítra lón og valkostur 1, annars verður farið annað. — Málið var opnað bæði með ögrun og hótun, en menn gera slíkt ekki í samskiptum heilbrigðs fólks ef þeir ætla að ná samkomulagi og einingu. Því miður hefur þannig verið á þessu máli haldið.

Ég hygg að það væri gott að menn slíðruðu sverðin og síðan yrði ræðst saman aftur og þá auðvitað á grundvelli 220 gígalítra miðlunarlóns, sem kannske er hagstæðasti kosturinn þegar allt kemur til alls vegna þess að aðstæður eru mikið breyttar. Það er enginn orkufrekur iðnaður það langt kominn í undirbúningi og raunar ekkert verið í því gert sem útheimti stærra lón á fyrstu rekstrarárum Blönduvirkjunar. Það er enginn kominn til með að sannfæra mig um að einmitt þessi b-liður, sem þegar hefur verið samið um við fimm hreppa, sé ekki einmitt heppilegasta endanlega lausnin, 220 gígalítrar, þegar miðlunarlón koma annars staðar. Ég held að það væri heppilegt að skoða það allt frá grunni. Það er líka engin ástæða til annars en að leyfa hreppsnefnd Bólstaðarhlíðarhrepps að skýra sín sjónarmið. Allar hafa hreppsnefndirnar sett fram mismunandi sjónarmið, mismunandi kröfur, komið þeim fram sumum, gert mismunandi athugasemdir, og þessir samningar hafa verið lengi í deiglunni, sjálfsagt ekki að öllu leyti vel orðaðir þegar verið er að sætta óteljandi sjónarmið. En það hefur þó náðst, að ekki er krafist lengur stærra miðlunarlóns en 220 gígalítra. Ég leyfi mér raunar að skýra þessa liði, þennan b-lið og þá undirliði sem vísað er til, þannig að ríkisvaldið hafi ekki heimild til að stækka þetta lón nema með samþykki heimamanna. Ég held að ef það vildi gefa þá skýlausu yfirlýsingu væri málið leyst. Þá mundi Bólstaðarhlíðarhreppur líka koma og skrifa undir og landverndarmenn, náttúrverndarmenn, mundu vel við una.

Ég held að það sé hægt að leysa þetta mál á einum degi ef vilji er fyrir hendi. Það er verið að reyna að koma í veg fyrir lausn málsins og það hefur hæstv. iðnrh. verið að gera allan tímann. Hann lýsir yfir nú í dag, að það hafi ekki verið settur neinn lokapunktur. Það eru hans lokaorð: Það er enginn lokapunktur. Ég ætla að halda þessu áfram. — Það er þetta sem eftir stendur í umr.

Ég vænti þess, að hæstv. landbrh. hafi rétt fyrir sér, þ.e. að framkvæmdir verði hafnar og það verði gengið að því að ná heildarsamkomulagi, þær verði hafnar á grundvelli þessa samnings, miðað við 220 gígalítra, það verði náð allsherjarsamkomulagi og hafnað verði kenningum hæstv. iðnrh. um að það hafi enginn punktur verið settur og það sé hægt að vitna til varnaglans sem sleginn er í þáltill., eins og hann sagði.