31.03.1982
Sameinað þing: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3419 í B-deild Alþingistíðinda. (2988)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir dálítið einkennilegt að heyra hæstv. ráðh. halda því fram, að ég vilji kollvarpa þessum samningi. Ég vitnaði einmitt til þess, að inn í þennan samning er komið ákvæði um 220 gígalítra lón, og ég sagði að mín lögskýring væri raunar sú, að ég teldi að ríkið væri við það bundið um aldur og ævi ef í það færi og bændur vildu ekki samþykkja stærra lón. Ég vil einmitt halda mig við þennan samning. Norðlenskir bændur og sveitarstjórnarmenn hafa vissulega náð verulegum árangri, þrátt fyrir allar þær aðfarir sem þeir hafa verið beittir, og skal ég ekkert fara út í það því að ég veit ekki til þess, að skuldugum bændum hafi verið hótað eða eitthvað í þá áttina. En ég veit hvað hefur gerst opinberlega, og það er einmitt það sem ég er að segja, að þarna hefur náðst svo mikill árangur að það er ábyggilega örstutt í land að ná heildarsamkomulagi ef menn vildu það. En ég veit hvað hefur gerst opinberlega, og það er einmitt það sem ég er að segja, að þarna hefur náðst svo mikill árangur að það er ábyggilega örstutt í land að ná heildarsamkomulagi ef menn vildu það. En þá kemur hæstv. ráðh. hér og segir að síðasta hreppnum skuli „gefinn kostur á að skrifa undir samninginn“. Hann á ekki einu sinni að fá að ræða um einstök atriði. síðustu hrepparnir komu einmitt inn atriðinu í b-lið. Áður voru aðrir búnir að semja. Auðvitað glöddust íbúar hinna hreppanna yfir því, að það kom þarna eitt atriði, sem öllum var til hagsbóta, til viðbótar hinum. Það er ekkert verið að gagnrýna einn eða neinn sveitarstjórnarmann, síst þá sem hafa komið inn þeim ákvæðum sem ég er hér að hæla.

Svo er það hitt, að ég hafi haldið því fram að það hafi ekki verið settur neinn lokapunktur. Það var hæstv. ráðh. sjálfur sem sagði þetta orðrétt. Hann sagði einu sinni í gær og tvisvar í dag að málinu væri alls ekki lokið, hann ætlaði að halda því gangandi áfram. Hvað á maður að ætla? Er það ekki til að hindra að framkvæmdir geti hafist að ljúka ekki málinu og samningunum? Það er hægt að ljúka þessu. Stjórnarformaður Landsvirkjunar, Jóhannes Nordal, var hér nefndur. Ef hann væri sendur norður og hann hefði alræðisvald til að ljúka samningum efast ég ekki um að hann mundi gera það á einum eða tveimur dögum, ef t.d. Landsvirkjun yrði strax falið að hafa framkvæmdir með höndum og ljúka þessum samningum, — maður sem kann að umgangast fólk og vill ná árangri, vill ná sáttum, vill sýna sanngirni, vill ekki níðast á fólki og ekki heldur níðast á landi að óþörfu. Dr. Jóhannes Nordal mundi auðvitað ná þessum samningum ef hann réði gangi mála. Ég efast ekki um það eitt einasta augnablik.

Ég vona að hæstv. iðnrh. taki þá afstöðu, sem hæstv. landbrh. tók, að framkvæmdir verði hafnar á grundvelli samningsins sem undirskrifaður hefur verið. Ég sagði það líka í minni fyrri ræðu. Samt segir hæstv. ráðh. að ég hafi verið á móti samningunum. Ég tók undir það sem hæstv. landbrh. sagði, að það ætti að hefja þessar framkvæmdir og ganga til þess að semja endanlega við Bólstaðarhlíðarhrepp og ræða jafnframt við landverndarmenn og náttúruverndarmenn. Svona einfalt er málið.

Það hefur aldrei verið mín skoðun að það ætti að virk ja á Íslandi eða byggja stóriðjuver til þess að níðast á fólki eða landinu. Það er til að bæta landið og til að bæta mannlífið. Við eigum auðvitað að leita samninga og samkomulags. Þegar það liggur fyrir, að allar líkur a.m.k. benda til þess, að uppistöðulón, sem er einungis 220 gígalítrar, geti orðið jafnhagstæð virkjun, ef ekki hagstæðari en hin stærri sem veldur þessum deilum, því þá í ósköpunum ekki að fara inn á þá leið? Ég get ekki skilið það öðruvísi en svo, að sá sem ræður, hæstv. iðnrh., hafi engan áhuga á að semja. Þess vegna segir hann þrisvar í þessum umr. að málinu sé alls ekki lokið, það hafi ekki skapast sæmilegur friður, — sem hann einn getur skapað, hann hefur valdið, — og ef hann ekki skapist verði verulegum hagsmunum stofnað í hættu o.s.frv., og við þessu öllu saman sé sleginn sá varnagli, að það verði hætt við virkjunina. Þetta eru hans orð, en ekki mín.