31.03.1982
Sameinað þing: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3420 í B-deild Alþingistíðinda. (2992)

246. mál, viðauki við vegáætlun 1981--1984

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég vildi í örfáum orðum lýsa ánægju með að þessi till. til þál. um viðauka við vegáætlun fyrir árin 1981–1984 skuli fram komin. Um þetta er held ég engum blöðum að fletta né nokkur að velkjast í vafa um að þeir þrír vegir eða vegakaflar, sem hér eru til sögunnar nefndir, eru sérstæðir fyrir ýmissa hluta sakir. Það er sömuleiðis að ég held ekki á neinn hallað þó fullyrt sé að réttlætanlegt sé í hvívetna að nokkrar sérreglur gildi um þessa vegi.

Ég vildi líka við þetta tækifæri, þegar þessi till. væri hér til umr., minna á að haustið 1980 flutti einn af þm. Alþfl., Gunnar Már Kristófersson, till. til þál. um athugun á endurbótum á veginum undir Ólafsvíkurenni. Þessi till. var svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta kanna hvernig best verði hagað endurbótum á veginum undir Ólafsvíkurenni, þannig að komið verði í veg fyrir hættu af grjóthruni og snjóflóðum.“

Þessi till. náði að vísu ekki fram að ganga, en hins vegar hefur hún nú efnislega náð fram að ganga og réttmæti hennar verið viðurkennt með till. sem hér er nú til umr.

Það er öllum ljóst, sem fylgst hafa með fréttum, bæði í fyrravetur og í vetur, að ástand vegarins fyrir Ólafsvíkurenni hefur verið gjörsamlega óviðunandi. Hann hefur hvað eftir annað lokast, ýmist vegna þess að þar hafa fallið snjóskriður eða aurskriður, fyrir utan að allir, sem eiga um þennan veg, einkanlega að vetrarlagi og haustlagi þegar skiptist á frost og þíða eða úrkoma er mikil, eru í beinni lífshættu meðan þeir aka þarna undir.

Því hefur verið lýst hér allítarlega af hæstv. samgrh., hvernig þarna háttar til, og skal ég ekki fjölyrða um það, en áreiðanlegt er að það er guðs mildi einni fyrir að þakka að þarna hafa ekki orðið slys.

Ég vildi sem sagt aðeins með þessum fáu orðum lýsa ánægju með að þessi till. skuli nú fram komin. Þingheimur fær væntanlega að heyra hér á eftir hvernig samgrh. hyggst afla fjár til þessara framkvæmda, en aðalatriðið er að sjálfsögðu að í þessar framkvæmdir verði ráðist, þarna verði byrjað sem fyrst, vegna þess að samgöngur milli þessara tveggja þéttbýlisstaða yst á Snæfellsnesi eru auðvitað mjög mikilvægar. Þarna fara um miklir flutningar og það ástand, sem íbúarnir á utanverðu Snæfellsnesi hafa orðið við að búa í þessum efnum, hefur verið og er gjörsamlega óþolandi og því afar brýnt að úrbætur nái fram að ganga hið allra fyrsta.