31.03.1982
Sameinað þing: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3421 í B-deild Alþingistíðinda. (2993)

246. mál, viðauki við vegáætlun 1981--1984

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég fagna þeirri till. sem hér er til umr., þ.e. till. til þál. um viðauka við vegáætlun fyrir árin 1981–1984. Ég lít svo á, að með samþykkt þessarar þáltill. sé verið að staðfesta að framkvæmdir við vegagerð undir Enni verði hafnar í ár ásamt nokkrum framkvæmdum í Óshlíð og rannsóknum í Ólafsfjarðarmúla, þar með verði byrjað að vinna samkv. yfirlýsingu hæstv. samgrh. er hann lagði fram við afgreiðslu vegáætlunar á s.l. vori um framkvæmdir við Ó-vegina svokölluðu, Ólafsvíkurenni, Óshlíð og Ólafsfjarðarmúla, og að þessum verkefnum verði sinnt sem sérstökum verkefnum innan stofnbrauta. Ég fagna því, að Vegagerð ríkisins hefur rannsakað vegstæði og aðstæður til framkvæmda á þessum stöðum, þótt það sé misjafnt á veg komið sem eðlilegt er eftir umfangi og aðstæðum.

Hæstv. samgrh. sagði í framsöguræðu sinni um þessa till., að skýrsla um kannanir Vegagerðarinnar og áætlanir hefði verið send þm. þeirra kjördæma, sem viðkomandi Ó-vegir væru í, og þm. hefðu fengið allar upplýsingar um þau mál. Þetta er rangt a.m.k. hvað mig varðar, og ég hef þær upplýsingar reyndar frá fleiri þm. Vesturlands að sama sé gagnvart þeim. Ég hef engar upplýsingar fengið nema með því að sækja mér þær sjálfur til Vegagerðar ríkisins. Þar fékk ég skýrslu um Ennið eftir að hafa óskað eftir henni og einnig allar upplýsingar sem ég hef þar beðið um. Hitt hefur ekki gerst, að upplýsingar hafi verið bornar fram né skýrslur í einu eða neinu formi sendar mér um þetta mál.

Kannske er það rétt í sambandi við þetta að fram komi að ég taldi mér skylt að benda Vegagerðinni á þá menn vestur þar sem hefðu mesta reynslu og kunnugleika á leiðinni undir Enni í fjörunni og kynnu nokkur skil á sjávargangi, sandroki, skriðuföllum og snjóflóðum á þeirri leið meðan hún var farin á bilum. Þessir menn eru Ársæll Jónsson vitavörður á Hellissandi, sem bjó á Sveinsstöðum utan við Enni í nokkur ár, og Rögnvaldur Ólafsson framkvæmdastjóri á Hellissandi. Báðir þessir menn þurftu mjög að ferðast undir Enni sökum starfa sinna og tel ég trúlegt að þeir séu þeir bilstjórar sem flestar ferðir hafa farið undir Enni, þ.e. fjöruleiðina. Vegagerðin taldi ekki ástæðu til að leita upplýsinga hjá þeim Ársæli og Rögnvaldi. Þetta skiptir kannske ekki máli í þessu stóra máli. Vegagerðin hefur sjálfsagt fengið fullnægjandi upplýsingar um aðstæður undir Enni frá öðrum en þessum mönnum.

Sú fullyrðing hæstv. ráðh., að þm. hafi verið sendar skýrslur og þeir látnir fylgjast með könnunum og undirbúningi þessarar framkvæmdar, er ekki rétt. Kannske hefur það verið álitinn óþarfi líkt og að leita upplýsinga til þeirra manna sem ég hef hér nefnt.

Það kom fram í framsöguræðu hæstv. samgrh., að forsenda vegagerðar um Ólafsvíkurenni væri að bæta samgöngur á milli byggðanna í Neshreppi utan Ennis, Hellissands og Rifs, og Ólafsvíkur. Ekki vil ég gera lítið úr þeirri þörf að þær samgöngur séu góðar. Við fyrir utan Enni þurfum margt að sækja til Ólafsvíkur, m.a. læknisþjónustu, og Ólafsvíkingar sækja ýmislegt til okkar líka. T.d. er flugvöllurinn okkar megin. Gagnvart íbúum Neshrepps, þeim á Hellissandi og Rifi, eru samgönguslit við Ólafsvík vond, en þau eru ekki nema hluti af vandamálinu. Um leið og Ennisvegur lokast gerist það allt of oft að samgönguslit verða einnig í hina áttina með ófæran veg fyrir Jökul, þannig að engar leiðir eru til að komast neitt ef nauðsyn kallar að.

Þegar hv. alþm. heyra þá frétt, að skriða hafi fallið í Enni eða að Ennisvegur sé lokaður, en fréttir af slíku berast hv. þm. miklu sjaldnar en þeir viðburðir eiga sér stað, er það allt of oft svo, að vegurinn fyrir Jökul er þá líka lokaður og byggðirnar í Neshreppi þar með einangraðar, þótt Vegagerðin sjái ekki ástæðu til að geta þess í sínum upplýsingum að svo sé ástatt með Útnesveg. Þessu fylgir einnig það, að ýmsar ferðir eru farnar um Enni sem ekki væru farnar ef upplýsingar væru veittar um Útnesveg og þeim vegi haldið opnum.

Þess er getið í skýrslu Vegagerðar ríkisins um Enni, að kannaðir hafi verið fimm valkostir um þá leið. Í fyrsta lagi er nefnd lagfæring núverandi vegar, sem síðan yrði yfirbyggður með vegþekjum. Þetta er sú leið sem ég hefði talið að væri óskalausn, sérstaklega vegna þess að með henni tel ég að hægt væri að komast næst því að losna við truflanir og hættur af völdum veðurfars, skriðufalla og snjóflóða. Eftir könnun Vegagerðar ríkisins á aðstæðum hafnaði hún þessari leið sökum kostnaðar svo og jarðgöngum. Vegagerðin leggur til að farin verði þriðji valkosturinn, þ.e. fjöruleiðin, sú leið sé ódýrust og óvissuþættir í gerð þess mannvirkis einnig fæstir. Ennisdalsleið og leiðin fyrir Jökul svo og ferjuleið milli Rifs og Ólafsvíkur eru ekki taldar lausnir á þessu vandamáli.

Ég lýsi ánægju minni yfir því að sú ákvörðun hefur verið tekin að fara fjöruleiðina undir Enni. Ég tel að sú leið breyti samgöngum við Neshrepp svo mikið til batnaðar að eftir að vegur kemur undir Enni sé varla um það að ræða að sá vegur lokist lengi svo ekki sé hægt að komast um hann í neyðartilfellum.

Slysahætta á vegi undir Enni vegna hruns getur orðið einhver, en varla nema brot af þeirri hættu sem er á þeim vegi sem nú er. Hitt tel ég vera mikla bjartsýni, að vonast til að vegur undir Enni lokist ekki venjulegri umferð nema í algjörum undantekningartilfellum. Mitt mat er það, að svo geti farið að vegur undir Enni verði nokkuð oft illfær venjulegri umferð vegna sjóroks, ekki aðeins í landátt, heldur jafnframt í þeim áttum þegar hvirfilvindar myndast undir Enni, og það er því miður nokkuð algengt í suðlægum áttum. Einnig er nokkuð víst að snjóflóð og aurskriður geta lokað vegi þar sem áætlað vegstæði er í fjörunni. Einnig verður erfitt að útiloka eitthvert staksteinahrun á veginn. Þá er það sandfok sem var einn erfiðasti þátturinn við að eiga þegar farið var undir Enni fyrrum. Vera má að vegstæðið sjálft dragi úr þessari hættu, en undir Enni eiga sér stað ótrúlega miklir sandbyljir við svipaðar aðstæður og ég nefndi áðan, þegar hvirfilvindar myndast í suðlægum áttum. Ég hef bæði eyðilagt rúður og málningu á bil í einni sandhviðu undir Enni, sem kom yfir eins og hendi væri veifað og alls ekki við henni búist.

Ég taldi mér skylt að láta þetta koma fram hér. Það er ekki sett fram til að draga úr gildi þeirra samgöngubóta sem ég tel að þessi vegur verði, heldur vegna hins, að ég tel ekki rétt að draga upp einhverja glansmynd af þessari vegagerð og að ég tel að með framkvæmd hennar verði vandamál umferðar undir Enni ærin áfram. Það dregur ekki úr þeirri staðreynd, að tilkoma vegar undir Enni leysir brýnasta vandamál þeirrar leiðar. Það er ekki líklegt að þessi vegur lokist þannig að ekki verði hægt að fara hann í neyðartilfellum. Sandrok og sjórok stöðvar ekki umferð í þeim tilfellum. Snjóflóð og skriður verða varla nema í undantekningartilfellum og slíkt getur átt sér stað næstum á hvaða vegi sem er á Íslandi.

Hæstv. samgrh. beitti fyrir sig þeim gamla og góða málshætti um þá till., sem hér er til umr., og um þau verk, sem þar er um fjallað, að hálfnað sé verk þá hafið er. Ég vona að svo sé í sambandi við þessi verk og eins og ég sagði í upphafi máls míns lit ég svo á, að með samþykkt þessarar þáltill. sé verið að staðfesta að framkvæmdir í vegagerð undir Enni verði hafnar í ár og sú leið hafi verið valin að fara með veginn undir Enni.

Ég vænti þess, að hv. alþm. samþykki og veiti þessari till. lið.