31.03.1982
Sameinað þing: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3424 í B-deild Alþingistíðinda. (2995)

246. mál, viðauki við vegáætlun 1981--1984

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég þakka góðar undirtektir undir þessa till. Að vísu var hv. þm. Karvel Pálmasyni dálítið erfitt um tungutak þegar hann þakkaði till., og kannske er það skiljanlegt.

Út af því, sem hv. þm. hafa sagt, að ekki hafi verið við þá rætt um þessar framkvæmdir, þá er það út af fyrir sig rétt. Ég ræddi þær ekki við Vestfjarðaþm., ekki við Vesturlandsþm. og ekki við þm. Norðurl. e. Það var satt að segja af ásettu ráði gert. Ég hafði ekki mikil afskipti af því, hvernig Vegagerðin skipti þessu fjármagni. Ég tjáði Vegagerðinni að ég óskaði eftir að framkvæmdir byrjuðu á þeim vegum báðum sem mætti hefja framkvæmdir við, en ég léti hana alveg eina um hvar hún teldi framkvæmdir mikilvægari. Mér hefði að sjálfsögðu verið ljúft að fá þetta fé allt saman í Óshlíðina, en ég tel mér ekki heimilt að beita áhrifum mínum til þess að farið sé á annan veg í þessar mikilvægu framkvæmdir en faglegt mat Vegagerðarinnar dæmir rétt. Þess vegna taldi ég ekki ástæðu til að fara út af fyrir sig að fjalla um framkvæmdir þessar við þm. viðkomandi kjördæma, enda ljóst að þm. fá nú tækifæri til að fjalla um þær. Ef þeir óska að breyta eða eru ásáttir um að breyta því sem hér er lagt til, þá hef ég út af fyrir sig ekkert við það að athuga. Ég held að ég hafi að vísu ekki sagt að upplýsingar hafi verið sendar öllum þm., en a.m.k. sagði ég að ég taldi að allir þm. hefðu fengið upplýsingar um þessi verk. En það er alveg rétt, að ég óskaði ekki eftir því við Vegagerðina beinlínis að þm. væru sendar skýrslurnar. Ég tjáði Vegagerðinni aðspurður að ég teldi sjálfsagt að þm. viðkomandi kjördæma fengju allar upplýsingar um þessar framkvæmdir. Mér þykir vænt um að heyra á hv. þm. Skúla Alexanderssyni að þær upplýsingar mun hann hafa fengið.

Um slysatíðnina var dálítið rætt í fyrri hluta þessarar umr. Að vísu er hv. þm. Karvel Pálmason ekki viðstaddur, en mér þykir þó rétt að fara nokkrum orðum um slysatíðnina.

Slysatíðni er að mati Vegagerðarinnar á fjögurra ári tímabili talin fjórfalt meðaltal í Óshlíð en þrefalt í Ólafsvíkurenninu. En þetta segir alls ekki alla söguna, heldur er einnig fróðlegt að líta á hvernig slysatíðni hefur breyst með árunum. T.d. kemur í ljós að í Ólafsvíkurenni var slysatíðni 3.55 á móti um það bil 2 reyndar 1979, en hækkar síðan upp í 11.03 árið 1980. Það er gífurleg aukning í slysatíðni í Ólafsvíkurenninu þarna á milli ára og miklu meiri aukning satt að segja en verður í Óshlíðinni, þar sem hún er nokkru meiri 1980 en í Ólafsvíkurenni, þ.e. 12.55 á móti 11.03 slys á km á móti 1.7 sem er landsmeðaltalið. En það, sem mun þó sérstaklega hafa ráðið tillögum Vegagerðarinnar um meiri framkvæmdir í Ólafsvíkurenninu, er sú staðreynd, sem kom fram hjá hv. 1. þm. Vesturl., að nú í vetur hafa aurskriður orðið ákaflega miklar á þessum vegi og af þeim ástæðum ekki talið unnt að fresta framkvæmdum þar. Þetta er, eins og ég sagði, faglegt mat Vegagerðarinnar og á það hef ég ekki reynt að hafa hin minnstu áhrif og tel ekki rétt þegar svo er ástatt eins og um þá vegi sem hér um ræðir.

Mér er fyllilega ljóst að fjármagnið, sem nú fæst, er ekki mikið, allt of lítið að sjálfsögðu, og hefði viljað hafa það miklu meira. Hins vegar er nokkur vandi á höndum þar sem vegáætlun er í gildi og verður ekki, sem betur fer, endurskoðuð í ár. Því varð að útvega fjármagn fyrir utan aðra fjáröflun til vegagerðarinnar.

Hv. þm. Matthías Bjarnason spurði: Hvaðan kemur fjármagnið? Ég hygg að hann viti það mætavel. Staðreyndin er sú, að ég hef átt ítarlegar viðræður við hv. þm. Sverri Hermannsson, forstjóra Framkvæmdastofnunar, og hef fylgst með þeim tillögum sem þar liggja frammi. Ég ræddi við hv. þm. og forstjóra um hvort honum sýndist koma til greina að ráðstafað yrði einhverju af því fé, sem Framkvæmdastofnunin hyggst leggja til vega nú, í byrjunarframkvæmdir við þessa svonefndu Ó-vegi. Ég get getið þess, að í þingflokki Framsfl. hefur þessi hugmynd verið rædd og hlotið þar fullkominn stuðning, og ég veit ekki betur en svo hafi einnig verið í öðrum þingflokkum. Hér er því um að ræða 10 millj. kr. af því sem Framkvæmdastofnunin af góðvild sinni, skulum við segja, leggur til vegamála og síst er mitt að vanþakka. Það geri ég ekki. Hugmyndin er sú, að þessi till. fylgi nokkurn veginn þeirri samþykkt sem gerð verður, vona ég, í stjórn Framkvæmdastofnunar. Þetta þarf að fylgjast að.

Ég ætlaði mér að vísu að svara nokkru því sem kom fram hjá hv. þm. Karvel Pálmasyni um kosti við Óshlíðina, þ.e. jarðgöng annars vegar og skurði ofan vegar og vegþekjur hins vegar, en ég skal hafa það stutt þar sem hann er ekki viðstaddur. Þó þykir mér rétt að fram komi í þingtíðindum ákveðin atriði um það.

Ég mun hafa upplýst í minni framsögu að göngin yrðu 4.3 km á lengd og þau yrðu einbreið, þ.e. fyrir eina bifreið, og eru þó áætluð kosta 140 millj. kr. Þarna er talið að þurfi verulegan blástur til að hreinsa loft úr göngunum. Að vísu segir Vegagerðin að ef hægt væri að losna við blástur mundi kostnaður lækka nokkuð, en gegn því er eindregið lagst í svo löngum göngum. En ein meginástæðan fyrir því, að Vegagerðin telur þá lausn of dýra, er sú, að göngin eru, eins og ég sagði, einbreið og mundu að mati Vegagerðarinnar ekki nægja fyrir þá umferð, sem þarna er, nema í tiltölulega fá ár, áætlað um 10 ár, en þá verði umferðarþungi, sérstaklega á sumrin, orðinn svo mikill að einbreið göng yrðu til verulegs trafala. Kostnaðurinn við tvöföld göng er miklu meiri en þarna er metið. Satt að segja held ég að sé nokkur óskhyggja að bergið sé miklu betra en Vegagerðin telur. Auk borana í Breiðadalsheiði hefur verið skoðað berg miklu neðar í hlíðum, m.a. í Óshlíðinni, og bendir allt til þess, að það sé ákaflega sprungið. Ég hef út af fyrir sig ekkert á móti því ef þm. Vestfjarða komast að þeirri niðurstöðu, að þeir vilji fresta framkvæmdum jafnvel eitthvað til að kanna ítarlega göng, en boranir í því skyni yrðu mjög kostnaðarsamar. Það er víða um djúpboranir að ræða á þessari leið, og ég óttast að það kynni að taka töluverðan tíma og meira en eitt sumar. Hitt er rétt, sem kom fram hjá hv. þm., að það er áhyggjuefni að framkvæmdir á Óshlíðinni mundu mjög tefja þar umferð og að sjálfsögðu ljóst að þegar vegþekja er byggð á tiltölulega mjóum vegi í mjög brattri hlíð er erfitt að koma umferðinni fram hjá. Þetta veldur áhyggjum og hefur satt að segja ekki verið nægilega skoðað og vandamálið ekki leyst.

Ég hygg, að ég hafi svarað því út af fyrir sig sem fram hefur komið þegar í umr., og læt þetta nægja. Ég vona að till. þessi komi fljótlega til hv. fjvn. og þm. fái þar sem og þm. þeirra kjördæma, sem eiga hlut að máli, tækifæri til að ræða við Vegagerðina og skoða vandlega allar þær forsendur sem til grundvallar eru lagðar. Eins og ég hef áður sagt: Ef sú niðurstaða verður af þeirri athugun að breyta eigi einhverju um framkvæmdaröðun hef ég að sjálfsögðu ekkert við það að athuga. Till. er lögð hér fram eins og Vegagerðin leggur til og er byggt á faglegu mati.