31.03.1982
Sameinað þing: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3428 í B-deild Alþingistíðinda. (2999)

243. mál, steinullarverksmiðja í Þorlákshöfn

Flm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 472 flytjum við þm. Suðurlands till. til þál. um að Alþingi álykti að fela ríkisstj. að ganga nú þegar til samninga við Jarðefnaiðnað hf. um byggingu steinullarverksmiðju í Þorlákshöfn á grundvelli laga nr. 61/1981. Í grg. till. eru rakin nokkur atriði sem eru ástæðan fyrir flutningi hennar. Ég vil samt við þessa umr. benda á nokkur fleiri í því sambandi og rekja staðreyndir málsins.

Fyrirtækið Jarðefnaiðnaður hf., sem samkv. till. er gert ráð fyrir að hafi forustu um byggingu steinullarverksmiðju, var stofnað á árinu 1974. Þá þegar og reyndar ári fyrr höfðu hafist umræður um byggingu steinullarverksmiðju í Þorlákshöfn. Hinn 5. maí 1974 kom Vilhjálmur Lúðvíksson á fund hjá Jarðefnaiðnaði, ræddi um hagnýtingu sunnlenskra jarðefna og bar fram tillögu um byggingu 15 þús. tonna steinullarverksmiðju. Síðan hefur Jarðefnaiðnaður unnið að undirbúningi þessa máls. Hefur það verið gert bæði með markaðsathugunum, sérstaklega erlendis, og með tæknilegum undirbúningi. Félagið komst fljótlega að þeirri niðurstöðu, að rétt mundi að hafa samstarf við norska fyrirtækið Elkem og sænska fyrirtækið Jungers við tæknilegan undirbúning verksins, og hefur því samstarfi verið haldið áfram fram til þessa.

Það er langt mál ef rekja ætti alla sögu þessa steinullarverksmiðjumáls. Ég ætla ekki að gera það en tel þó nauðsynlegt að drepa á örfá atriði.

Hinn 27. júní 1979 barst Jarðefnaiðnaði bréf frá iðnrn. sem ég tel nauðsynlegt að lesa, en þar er skýrt frá því, að iðnrn. taki að sér forustu um staðarval verksmiðjunnar. Bréfið hljóðar svo, með leyfi forseta, málefnið er framkvæmdarathugun steinullarverksmiðju:

„Nú er að mestu lokið þeim þáttum steinullaráætlunarinnar sem unnir voru sameiginlega fyrir bæjarstjórn Sauðárkróks og Jarðefnaiðnað. Skýrsla um bræðsluprófanir er væntanleg innan skamms. Skýrsla Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins um Ameríkumarkað er ókomin, en mun liggja fyrir von bráðar. Talsvert efni er fyrir hendi um Ameríkumarkaðinn. Skýrsla um breska markaðinn liggur fyrir, sömuleiðis um innanlandsmarkaðinn. Skýrsla um bræðsluofna er að koma út.

Stofn- og rekstrarkostnaðaráætlun sú, sem verið er að vinna að, yrði of kostnaðarsöm og umfangsmikil ef gera ætti hana fyrir tvo staði, m.a. vegna þess að ekki liggja fyrir grundvallartölur um starfsemisaðstöðuna frá áhugaaðilum á þeim stöðum sem um hefur verið rætt. Gert er ráð fyrir að gerð verði ein áætlun og hún miðuð við staðsetningu á fyrir fram gefnum stað til hægðarauka. Mun fylgja skilgreining á þeim þáttum sem staðbundnir eru. Staðarval mun rætt þegar stofn- og rekstrarkostnaðaráætlun liggur fyrir í ágúst.

Brýnt er að áætlunin komist í hendur eins aðila og á það ekki síst við vegna fyrirsjáanlegra samskipta við hugsanlega erlenda kaupendur á steinullarafurðum og vegna ákvörðunar um staðarval. Iðnrn. hefur því í hyggju að taka frumkvæðið um frekari kannanir og fylgja áætluninni eftir þar til að staðarvali kemur og ákveðið verður um framkvæmdaraðila, ef niðurstöður stofn- og rekstrarkostnaðaráætlunar gefa tilefni til slíks.

Þess er vænst, að þér skiljið aðstöðu rn. og séuð samþykkir þessum framgangi málsins.“

Eins og fram kemur í þessu bréfi voru á þessum tíma orðnir tveir aðilar sem áhuga höfðu á byggingu steinullarverksmiðju, en Steinullarfélagið á Sauðárkróki hafði þá unnið að þessu máli um nokkurn tíma einnig. En ástæðan fyrir því, að ég las þetta bréf hér, er fyrst og fremst sú, að við hjá Jarðefnaiðnaði gátum ekki skilið það á annan hátt en þann, að iðnrn. ætlaði sér að taka ákvörðun um hvaða aðill það yrði sem byggði steinullarverksmiðju. Ég verð því að viðurkenna að ummæli iðnrh. komu mér dálítið á óvart í sjónvarpsviðtali nú fyrir tæpum hálfum mánuði, en í því viðtali sagði hann, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég vil aðeins bæta því hér við, að ríkið er ekki forgönguaðili í þessu steinullarmáli. Það eru áhugaaðilarnir. Lögin um steinullarverksmiðju, sem samþykkt voru á þinginu s.l. vor, kveða á um að ríkinu sé heimilt að vera með sem minnihlutaaðili í svona fyrirtæki og taka þátt í því, þannig að það er út af fyrir sig enginn sem hefur bannað aðilum að fara af stað með svona fyrirtæki. En báðir telja sig þurfa að hafa þarna tilstyrk ríkisins. Og ríkið kemur inn í myndina.“

Eins og ég sagði skildum við hjá Jarðefnaiðnaði hið fyrrgreinda bréf þannig, að iðnrn. ætlaði sér að taka ákvörðun um staðarval, og það skýrir gang málsins og afstöðu Jarðefnaiðnaðar og vinnubrögð fram að þessum tíma. Sama viðhorf virtist felast í lögunum. Að vísu er þar aðeins um heimild að ræða fyrir ríkið að vera hluthafi allt að 40%. En í lögunum eru einnig ákvæði um annan stuðning við byggingu verksmiðjunnar, sem við teljum nauðsynlegt að þeir njóti sem a.m.k. á jafnréttisgrundvelli ættu þá að reisa verksmiðjuna.

Eftir lagasetninguna á Alþingi á s.l. vori um steinullarverksmiðju fól iðnrn. þeim Herði Jónssyni og Vilhjálmi Lúðvíkssyni að kanna málið betur, óska frekari gagna frá áhugaaðilum og leita að niðurstöðu til þess að auðvelda ríkisstj. afgreiðslu málsins. Það væri einnig hægt að ræða ýmislegt um það sem kom fram meðan sú athugun stóð, en ég ætla aðeins að binda mig við niðurstöðurnar af þessari athugun sem er það síðasta sem gert hefur verið á því sviði.

Á fundi, sem við nokkrir fulltrúar frá Jarðefnaiðnaði áttum í iðnrn. fyrir áramótin með iðnrh., fulltrúum hans og þeim Herði Jónssyni og Vilhjálmi Lúðvíkssyni, sagði ég að í grundvallaratriðum hefðu þeir Hörður Jónsson og Vilhjálmur Lúðvíksson orðið sammála Jarðefnaiðnaði í niðurstöðum sínum í bréfi sem þeir sendu iðnrh. 17. des. s.l. Þeir væru sammála okkur um það, að sú tækni, sem Jarðefnaiðnaður hefði byggt á í áætlunum sínum, væri sú eina sem kæmi til greina, þeir væru sammála um að byggja skyldi bæði á innlendum og erlendum markaði og þeir vísuðu í það álit steinullarnefndarinnar, sem starfaði um eins árs skeið, að frá hagkvæmnisjónarmiði væri Sauðárkrókur síðri en Þorlákshöfn. Þessari túlkun minni á niðurstöðunum var ekki andmælt á þessum fundi.

Hvað tæknina varðar hafði Jarðefnaiðnaður, eins og ég sagði áður, byggt á samstarfi við Elkem og Jungers. Steinullarfélagið hafði verið í samstarfi við franska fyrirtækið St. Gobain með allt aðra tækni og lagt fram áætlanir byggðar á þeim grundvelli á s.l. ári. Jarðefnaiðnaður hf. hafði talið, að fyrir tækni St. Gobain væri ekki grundvöllur hér, og lýst vantrú sinni á því. Þetta álit Jarðefnaiðnaðar var rækilega staðfest í lokaniðurstöðum Harðar Jónssonar og Vilhjálms Lúðvíkssonar.

Ég verð að viðurkenna það, að ef niðurstaðan hefði orðið sú, að tækni St. Gobain hefði verið sú eina sem ætti að nota, þá hefði ég talið það algera fjarstæðu og ekki koma til greina hjá Jarðefnaiðnaði að fara fram á það við ríkið, að það semdi við Jarðefnaiðnað um byggingu steinullarverksmiðju sem byggði á þeirri aðferð með samstarfi við St. Gobain. Á það hefur verið bent, að Steinullarfélagið hf. hafi einnig haft sambandi við Elkem og Jungers. Ég efast ekkert um að það er rétt, því að vafalaust hafa þeir byggt á athugunum þá niðurstöðu, sem þeir komust að um tækni þeirra sem þeir sögðu frá í skýrslu sinni á s.l. sumri að væri lélegri og dýrari og vart sé ástæða að taka hana upp. Ég hlýt því að láta í ljós undrun mína, ef ríkisstj. vill nú frekar fara að semja við þann aðila sem hefur lýst vantrú sinni á þeirri tækni sem sérfræðingar iðnrn. telja að ein komi til greina. Er það vænlegra til árangurs fyrir afkomu fyrirtækisins?

Um möguleika á útflutningi á steinull hafa verið nokkuð skiptar skoðanir. Vissulega er það rétt, að um þessar mundir er ekki sérstaklega bjart yfir útflutningi á íslenskum iðnaðarvörum, einkum þó á þeirri framleiðslu sem fyrst og fremst byggist á orku, eins og áli, kísiljárni og kísilgúr. Jarðefnaiðnaður hefur þó fengið tilboð frá breskum fyrirtækjum um kaup á steinull á því verði sem gerir rekstur verksmiðjunnar hagkvæman, eins og fram kemur í skýrslu þeirra Harðar Jónssonar og Vilhjálms Lúðvíkssonar. Þar er talin besta afkoman að reka verksmiðju sem byggi bæði á innlendum og erlendum markaði. Þetta verð er einnig í samræmi við álit bresks markaðssérfræðings sem Jarðefnaiðnaður fékk til að kanna þessi mál. Sænskur maður, sem Iðnþróunarsjóður hefur fengið til að athuga þetta, hefur bent á að möguleikar geti verið á að flytja hálfunna steinull, ef svo má segja, til Þýskalands þar sem henni megi þjappa meira saman og flutningskostnaður geti því orðið lægri. Hann hefur hins vegar minni trú á breska markaðnum, en mun væntanlega athuga hann betur.

Um verksmiðjustærð hefur e.t.v. gætt nokkurs misskilnings. Eins og fram kemur í fskj. með þessari þáltill. gerði Jarðefnaiðnaður á s.l. sumri tillögur um tvær stærðir af verksmiðju og gerði áætlun um rekstur þeirra. Að mati okkar hefur stærri verksmiðjan marga kosti. En þó hér séu sett upp þessi dæmi er vitanlega hægt að fara milliveg. En bræðsluofninn er nokkuð fastur kostnaðarliður í verksmiðju, af hvaða stærð sem hún er innan þessara marka. Verð hans er lítt breytilegt miðað við stærð. Hins vegar getur verið nokkur munur e.t.v, á því frá hvaða fyrirtækjum hann er keyptur, enda þótt um sömu gerð sé að ræða, þ.e. með sömu tækni. Í stærri verksmiðjunni er hins vegar hægt að koma við meiri hagræðingu þannig að launakostnaður verður lægri á hvert framleitt tonn, svo að þrátt fyrir nokkurn mismun á stofnkostnaði verður miklu minni munur á rekstrarkostnaði, eins og fram kemur í skýrslu Harðar Jónssonar og Vilhjálms Lúðvíkssonar. Þeir segja þar að arðsemi stærri verksmiðjunnar sé ekki alveg óviðunandi jafnvel þótt erlendi markaðurinn bregðist alveg. En það, sem er þó aðalatriðið frá sjónarmiði Jarðefnaiðnaðar, er að ekki sé um alla framtíð verið að útiloka það, að framleiðsla á steinull geti orðið útflutningsiðnaður. Það er augljós kostur að geta farið af stað með nýjan iðnað sem getur byggt bæði á innlendum og erlendum markaði. Ef byggð væri verksmiðja sem þannig væri sett að hún hefði enga möguleika á útflutningi, þá væri verið að koma í veg fyrir það a.m.k. um ófyrirsjáanlega framtíð, að íslenskt hráefni mætti nota til þessarar útflutningsframleiðslu, en það er einmitt meginkosturinn við þessa vinnslu, að hráefnið er alveg við verksmiðjuvegginn í Þorlákshöfn. Benda má á það, að hráefnisverð á basaltsandinum þ.e. kostnaðurinn við að koma honum inn í verksmiðjuna, er áætlaður 10 kr. á tonn. Það var þó talin varfærin áætlun þannig að kostnaðurinn ætti ekki að verða meiri. En hliðstætt hráefnisverð í Svíþjóð, sem að vísu er mulið berg sem þeir nota, er 80–190 kr. á tonn. Þarna er því um að ræða framleiðslu þar sem Svíar — sem við ættum að keppa við á erlendum markaði því að þeir eru vaxandi útflytjendur á steinull til Bretlands — verða að greiða allt að 19 sinnum hærra hráefnisverð en við þurfum að gera. Ætli það séu margir iðnaðarkostir sem við eigum völ á hér í landinu þar sem við þurfum aðeins að greiða 1/19 af hráefniskostnaðarverðinu miðað við keppinauta okkar annars staðar? Það er tíka athyglisvert, að steinullarfyrirtækið Dansk Rockwool hefur spurst fyrir um möguleika á að kaupa basalt héðan frá okkur. En þeirri framleiðslu hentar ekki sandur. Sjá menn ekki hversu gífurlegur aðstöðumunur það er að þurfa að sækja grjót frá Íslandi til Danmerkur, mylja það fyrst hér og flytja það síðan í skipum og skipa upp, í staðinn fyrir að geta mokað þessu svo að segja beint úr námunni í bræðsluofninn? Mér finnst það alveg furðulegt, ef menn vilja ekki a.m.k. halda opnum möguleikunum til slíkrar framleiðslu, til að nota slíka möguleika sem íslensk hráefni bjóða. Varla trúa menn því, að eini möguleikinn, sem við höfum til að nota okkar innlendu orku til útflutningsframleiðslu, sé að sækja súrál og önnur hráefni hálfa leið um hnöttinn.

Eins og ég sagði áðan benda þeir Hörður Jónsson og Vilhjálmur Lúðvíksson á að frá hreinu arðsemisjónarmiði sé Þorlákshöfn heppilegri staður. Menn greinir hins vegar á um það, hversu sá mismunur sé mikill. Mismunurinn hefur verið reiknaður niður með því að byggja á hugmyndum um flutningskostnað frá Skipaútgerð ríkisins. En í niðurlagi bréfs frá Skipaútgerð ríkisins, dags. 8. jan. á þessu ári, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það eru því horfur á að flutningsgeta útgerðarinnar aukist það mikið, að unnt verði að anna umræddum flutningum þó til útflutnings komi. Á þessu stigi getur útgerðin þó ekki skuldbundið sig að þessu leyti vegna óvissu um aðra flutninga og vegna þess að stjórnvöld hafa ekki mótað stefnu útgerðarinnar svo langt fram í tímann.“

Það verður hver og einn að meta hversu mikið er hægt að byggja á slíkum hugmyndum. Ég mun ekki ræða það hér frekar þar sem það verður vafalaust athugað af þeirri nefnd sem fær þessa till. til meðferðar.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns hefur Jarðefnaiðnaður hf. unnið lengi að undirbúningi þessa máls. Félagið leitaði fljótt stuðnings ríkisins við undirbúningsathuganir og fékk aðstoð við það m.a. með sérstökum samningi við Iðntæknistofnun Íslands á árinu 1977. En það var alltaf vilji Jarðefnaiðnaðar að reyna að koma þessum atvinnurekstri af stað með framtaki Sunnlendinga sjálfra og þeirra sem þá vildu styðja til þess. Þetta kom fram í samþykkt hluthafafundar Jarðefnaiðnaðar sem haldinn var á Selfossi 29. mars 1981, eftir að staðarvalsnefndin hafði skilað áliti sínu og áður en frv. um steinullarverksmiðju var lagt fram hér á Alþingi. Þessi samþykkt var þannig:

„Fundurinn samþykkir að hefja nú þegar söfnun almenns hlutafjár meðal allra einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélaga á Suðurlandi til að reisa og reka steinullarverksmiðju í Þorlákshöfn með 14–15 þús. tonna framleiðslugetu. Jafnhliða verði leitað hlutabréfaloforða utan félagssvæðisins frá áhugaaðilum, einstaklingum og fyrirtækjum og þá sérstaklega þeim sem hagsmuna eiga að gæta í tengslum við rekstur væntanlegrar verksmiðju. Stefnt skal að því marki, að svo mikið hlutafé safnist að ekki þurfi að koma til meðeign hins opinbera eða erlendra aðila.“

Þessi samþykkt var áréttuð með bókun stjórnar Jarðefnaiðnaðar á fundi 29. þ. m. þar sem segir:

„Stjórn Jarðefnaiðnaðar hf. ítrekar fyrri samþykktir sínar og ályktun hluthafafundar félagsins frá 29. mars 1981 um að stefnt skuli að því marki, að svo mikið hlutafé safnist að ekki þurfi að koma til meðeign hins opinbera í steinullarverksmiðjunni í Þorlákshöfn. Með hliðsjón af þessum samþykktum mun stjórnin haga störfum þannig, að því marki verði náð hið allra fyrsta.“

Það, sem liggur að baki þessum samþykktum, er vilji Sunnlendinga til að verksmiðjan verði sem allra mest þeirra eign og þeir taki ábyrgð á rekstri hennar, enda fái þeir að njóta þeirra ákvæða sem lögin um steinullarverksmiðju frá s.l. vori gera að öðru leyti ráð fyrir í sambandi við byggingu hennar.

Um hlutafjársöfnun er það að segja, að farið var af stað fyrir ári með hlutafjársöfnun í Þorlákshöfn og fengust þar þá hlutafjárloforð sem námu 3 millj. kr. miðað við verðlag á þeim tíma. En vegna óvissunnar um staðarvalið og e.t.v. misskilnings okkar á bréfi iðnrn. sem ég las upp áðan, reyndist þungt fyrir fæti að halda áfram með frekari hlutafjársöfnun fyrr en ákvörðun um staðarval lægi örugglega fyrir.

Öflugur bakhjarl Jarðefnaiðnaðar við fjármögnun á þessari verksmiðju er Iðnþróunarsjóður Suðurlands. Hann var stofnaður fyrir tveimur árum. Í hann leggja sveitarfélög á Suðurlandi 1% af brúttótekjum sínum og er hann ætlaður til iðnaðaruppbyggingar í héraðinu. Hreppsnefnd Ölfushrepps hefur samþykkt að aðstöðugjald af steinullarverksmiðju skuli renna í þennan sjóð. Þannig verður verksmiðjan að sameiginlegri framkvæmd Sunnlendinga.

Ástæðan fyrir því, að Sunnlendingar vilja að steinullarverksmiðjan verði að mestu þeirra eign, er vitanlega sú, að þeir hafa trú á að rekstur hennar geti orðið grundvöllur að frekari iðnaðaruppbyggingu á Suðurlandi vegna þeirrar félagslegu samstöðu sem að baki Jarðefnaiðnaðar býr, en það félag, Jarðefnaiðnaður, er einnig fyrirtæki allra sveitarfélaga á Suðurlandi auk fjölmargra einstaklinga.

Óhætt er að fullyrða að það yrði mikið áfall fyrir þá félagslegu uppbyggingu, sem þarna hefur tekist að ná, ef steinullarverksmiðjunni yrði valinn staður annars staðar en þar sem hagkvæmast er.

En hvað er það þá annað sem hefur áhrif á staðarval? Rætt hefur verið um byggðasjónarmið. Ef hafa á þau í huga teljum við, eins og fram kemur í greinargerðinni, að þau hljóti að mæla með Þorlákshöfn. Öllum er kunnugt um það, að á s.l. ári fluttist hlutfallslega flest fólk burt úr Suðurlandskjördæmi. Ég get fullyrt að fólk, sem alið er upp á Suðurlandi, vill búa þar og ekki þurfa að flytja í burtu. Ástæðan fyrir brottflutningi er fyrst og fremst sú, að það vantar atvinnu handa öllum sem þar vilja vera, og sú vöntun virðist hvergi á landinu vera meiri. Ef litið er á aðstæður er e.t.v. skiljanlegt hvernig á þessu stendur. Undanfarinn áratug hafa orkuframkvæmdir verið í gangi á Suðurlandi og þar hafa margir fengið atvinnu. Það hefur m.a. leitt til þess, að þau atvinnufyrirtæki, sem höllum fæti stóðu, áttu erfitt uppdráttar að keppa við vinnumarkaðinn uppi á hálendinu og hafa sum jafnvel orðið að hætta. Og þá er einnig augljóst að við þær aðstæður var erfiðara að koma nýjum fyrirtækjum af stað. En þegar samdráttur kemur í virkjunarframkvæmdir er ekki annað til að grípa til.

Á þessu tímabili átti sér líka stað mjög mikil atvinnuuppbygging allt í kringum landið. Þá var hafin endurnýjun togaraflotans og uppbygging hraðfrystihúsanna. Þessi uppbygging olli gerbyltingu um allt land. En eins og við vitum eru fáar hafnir á Suðurlandi og fáir staðir sem gátu verið með á því sviði. Það var líka eðlilegt að þegar miklu fjármagni var beint til virkjunarframkvæmda á Suðurlandi yrði þrýstingur frá öðrum landshlutum meiri að fá fjármagn til sín. Nú er orkan, sem hefur verið unnið að því að beisla á Suðurlandi, að mestu leyti flutt burt úr héraðinu og þau gjöld, sem fást af þeirri framleiðslu sem unnin er með sunnlenskri orku, renna ekki til sunnlenskra sveitarfélaga, heldur annarra. Ég held að það sé því ekki til mikils mælst þó Sunnlendingar fari nú fram á að fá aðstoð og stuðning við að byggja eina verksmiðju, sem að stofnkostnaði til er svipuð og togari sem ætti að fara að smíða innanlands í dag.

Það hefur verið bent á það, að Sunnlendingar eigi kost á fleiru, og m.a. hefur verið útbýtt frv. um sykurverksmiðju á borð þm. hér í dag. En ef við horfum 10 ár aftur í tímann, þegar atvinnuuppbyggingin, sem ég var að tala um áðan, hafði hafist víða um land, hvað hefði verið sagt ef við Sunnlendingar hefðum haldið því fram að yrði keyptur togari til Ólafsfjarðar, þá ætti það að vera rök til þess, að á næstu árum eða áratug kæmu ekki togarar til Dalvíkur, Húsavíkur, Þórshafnar eða Raufarhafnar? Ef það eiga að vera rök fyrir því, að ekki megi byggja steinullarverksmiðju í Þorlákshöfn nú, verksmiðju sem kostar svipað og einn nýr togari, af því að það kunni að vera möguleikar einhvern tíma á næstu árum að byggja upp önnur atvinnutækifæri, jafnvel þó að það væru fyrirtæki sem kostuðu á við tvo togara, einhvers staðar annars staðar á Suðurlandi, þá finnst mér að þau rök séu dálítið langsótt. Ég vænti því þess, að hv. atvmn., sem ég óska eftir að fái þetta mál til athugunar, og síðan hv. alþm. sjái, hvað hér er um þjóðhagslega hagkvæmt og sjálfsagt mál að ræða, og veiti því brautargengi.