14.10.1981
Neðri deild: 3. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (30)

2. mál, Listskreytingasjóður ríkisins

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er út af fyrir sig ánægjulegt að hæstv. menntmrh. skuli endurflytja nú frv. sitt um Listskreytingasjóð ríkisins. Á hinn bóginn mun það tefja fyrir afgreiðslu málsins að sú nefnd, sem Alþingi fól ríkisstj. að skipa á s. l. vori til að kanna starfskilyrði myndlistarmanna, hefur enn ekki verið skipuð. Hef ég raunar flutt um það fsp. á sérstöku þskj. og skal þess vegna ekki ræða það mál nánar hér. En ég vil vekja athygli á því, að sú till. er miklu víðtækari og tekur yfir meira svið en það frv. sem hér er lagt fram, og erfitt er að hugsa sér hvernig sömu menn og lögðu þá ályktun fram geta nú tekið sérstakan þátt út úr að óathuguðu máli.

Ég sem sagt harma að þessi nefnd skuli ekki hafa verið skipuð og þá óhjákvæmilegu töf sem málið í heild hlýtur að verða fyrir af þeim sökum. Ég geri mér á hinn bóginn vonir um að í menntmn. náist samstaða um að setja fram ákveðnar till. fyrir fjárlagaafgreiðslu þannig að hægt verði að gera ráð fyrir fjármagni til listskreytingar í fjárlögum næsta árs og síðan verði sami háttur hafður á um þetta mál og um Framkvæmdasjóð aldraðra, að nánari útfærsla á hugmyndunum bíði þess tíma að nauðsynlegur undirbúningur og athuganir hafi farið fram.

Eins og hv. 6. þm. Reykv. drap á áðan eru mörg álitamál í þessum efnum og mikil spurning hvort frv. til laga um Listskreytingasjóð ríkisins sé fullnægjandi, hvort ekki þurfi að fara þar miklu ítarlegar út í ýmsa þætti, eins og t. d. um það, hvort ekki sé ástæða til, að slíkur sjóður, ef af honum yrði, sinnti þjóðlegri listskreytingu í ríkum mæli. Ég vil nefna í því sambandi að það hafa einkum verið einstaklingar sem hafa sýnt lofsvert framtak í þeim efnum, og minni ég þar sérstaklega á Ragnar í Smára sem hefur lyft grettistaki varðandi þau atriði.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Við munum að sjálfsögðu fjalla um þetta frv. í menntmn. og ræða ítarlega með hvaða hætti starfsgrundvelli fyrir myndlistarmenn verði best fyrir komið. Ég harma hins vegar að ekki skuli hafa verið farið að vilja Alþingis um skipun nefndar til að kanna starfskilyrði myndlistarmanna. Ég harma þá töf sem óhjákvæmilega er af þeim sökum.

Ég vil svo rétt segja það til gamans, að á myndlistarþingi í vor, þar sem ég var staddur, mætti ráðuneytisstjóri menntmrn. fyrir hönd menntmrh. Hann fór þar mörgum orðum um hið lofsverða framtak sem núv. hæstv. menntmrh. hefur sýnt í þessum málum, og skal ég ekki lasta það. En það vakti athygli mína á hinn bóginn, að ráðuneytisstjóranum þótti það ekki heyra til tíðinda né fréttaefnis á þessari ráðstefnu að Alþingi skyldi hafa samþykkt sérstaka ályktun um málið. Það þótti mér eftirtektarvert, og veit ég ekki hvort hann var þar einn í ráðum.