31.03.1982
Sameinað þing: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3456 í B-deild Alþingistíðinda. (3003)

243. mál, steinullarverksmiðja í Þorlákshöfn

Páll Pétursson:

Herra forseti. Till. sú til þál., sem hér liggur fyrir til umr., er nokkuð óvanaleg. Þetta er óvanalegur málatilbúnaður. Í fyrravor settum við lög um steinullarverksmiðju og ríkisstj. var falið að velja samstarfsaðila um verksmiðjuna. Þá var gengið út frá því, að það yrði ákvörðun ríkisstj. sem réði hvar verksmiðjan risi. En nú hafa þm. og þ. á m. stjórnarliðar seilst inn á verksvið ríkisstj. og ætla Alþingi að taka ákvörðun um málið.

Það er raunar líka óvanalegur aðdragandi og undirbúningur að þessu máli og ekki að öllu leyti heppilegur. Með vitund ríkisvaldsins hafa tveir áhugaaðilar verið hafðir í gangi við sama verkefnið með vitund og vilja ráðuneytisins. Hæstv. fyrrv. iðnrh., Gunnar Thoroddsen, lýsti yfir á iðnþróunardegi fyrir nokkrum árum norður á Sauðárkróki, að hann teldi rétt að reisa steinullarverksmiðju á Sauðárkróki. Menn þar fyrir norðan hafa síðan unnið grandalausir að þessu verkefni og töldu, að þeir hefðu vilja iðnrn. til að vinna þetta verk, og höfðu á hverjum tíma náið samráð við iðnrn. Ég ætla ekki að rekja þá breytingu sem varð á afstöðu ráðuneytisins þegar gögn þeirra voru framseld Jarðefnaiðnaði hf., en á Sauðárkróki komust menn að því fyrir nokkuð löngu, að útflutningur væri hæpinn eða jafnvel vonlaus, og þá breyttu þeir stefnunni og tóku ákvörðun um að reisa heldur litla verksmiðju. Það var ekki fyrr en fyrir fáum mánuðum að Sunnlendingar sáu að þeir voru að gera skakkt með því að stilla upp á útflutning og ákváðu að minnka verksmiðjuna. Þetta er annað kjarnaatriðið í málinu. Sauðkræklingar voru með litla verksmiðju og stíluðu á innanlandsmarkað en ekki á útflutning. Sunnlendingar voru alltaf að gera gælur við útflutninginn og höguðu sínum undirbúningi samkv. því.

Hitt kjarnaatriði málsins er náttúrlega byggðasjónarmiðið. Það er fábreytt atvinnulíf á Sauðárkróki og þetta er eini iðnþróunarkostur sem menn koma auga á af þessari stærð sem henti því byggðarlagi. Það kemur margt annað en steinull til greina í Þorlákshöfn. Það má alls ekki skilja orð mín svo að ég sé að hafa á móti uppbyggingu atvinnulífs á Suðurlandi, það er síður en svo. En ef menn líta hlutlaust á þetta komast þeir að raun um að möguleikarnir eru fjölbreyttari þrátt fyrir allt hér fyrir sunnan, enda er það engin tilviljun að í undirbúningi eru verksmiðjur af ýmsum gerðum hér fyrir sunnan.

Hagkvæmni er svipuð á Sauðárkróki og í Þorlákshöfn, en hagkvæmnin er mest í Reykjavík. Ég tel fráleitt að reisa þessa verksmiðju í Reykjavík, jafnvel þó hagkvæmnin sé þar mest. Og það er sannarlega gott að menn hafa fjárhagslega hagkvæmni ekki eina að leiðarljósi, heldur líta á önnur sjónarmið, byggðasjónarmið o.fl. Við höfum nú rætt hér lengi dags um virkjanamál þar sem sífellt er hamrað á því, hvernig fjárhagsleg hagkvæmni náist mest, og hún sett ofar öllu, gjörsamlega ofar öllu öðru.

Ég vil ekki efna til deilna um þessa tillögu. Mér finnst hún óþörf. Það er seilst hér inn á verksvið ríkisstj. Hún er röng að því leyti, að ég tel að réttara sé að þessi verksmiðja rísi á Sauðárkróki. Þess vegna vil ég leyfa mér, herra forseti, ásamt félögum mínum að leggja fram skriflega brtt. Meðflm. mínir eru Ingvar Gíslason, Pálmi Jónsson, Stefán Valgeirsson, Stefán Guðmundsson, Lárus Jónsson, Ragnar Arnalds, Soffía Guðmundsdóttir, Ingólfur Guðnason, Árni Gunnarsson, Guðmundur Bjarnason, Eyjólfur Konráð Jónsson og Halldór Blöndal.

Brtt. er á þá leið, að í stað orðanna „Jarðefnaiðnað hf. um byggingu steinullarverksmiðju í Þorlákshöfn“ komi: Steinullarfélagið hf. um byggingu steinullarverksmiðju á Sauðárkróki og að fyrirsögn breytist samkv. því.

Ég vona að brtt. fái stuðning Alþingis, og jafnframt vona ég að menn sameinist um að efla atvinnulíf á Suðurlandi með öðrum verksmiðjum sem þar komi til með að rísa.