31.03.1982
Sameinað þing: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3468 í B-deild Alþingistíðinda. (3009)

243. mál, steinullarverksmiðja í Þorlákshöfn

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég er eiginlega búinn að segja alveg nóg í þessu máli, ég talaði hér einn klukkutíma í kvöld, en ég vildi spyrja hæstv. forseta að því, hvort hæstv. iðnrh. sé orðinn þreyttur á að fylgjast með iðnaðarmálum, hvort það væri ekki hægt að fá hann til að hlusta á röksemdir andstæðinganna, og kanna hvort hann sé einhvers staðar nærri. Ekki fyrir það að ég trúi því, að hann fari að hlusta á neinar röksemdir þannig að hann fari að taka mark á þeim í þessum efnum. Þetta hefur verið ákveðið af allt öðrum mönnum fyrir lifandi löngu, eins og ég sagði í kvöld.

Ágætur maður, hv. þm. Ingólfur Guðnason, flutti hér ræðu áðan sem var svolítið skrýtin, þar sem hann hélt því fram um okkur Sunnlendinga, að við vildum fá verksmiðjuna til okkar hvort sem okkar niðurstaða væri rétt eða röng, og lét að því liggja, að einhver niðurstaða hjá sérfræðingum hefði sýnt að okkar niðurstaða væri röng. Það kemur auðvitað alls ekki til mála. Hvað sögðu sérfræðingarnir í lokin? Þeir töldu upp í hvaða röð væri best að setja verksmiðjuna niður, og ævinlega var þá Sauðárkrókur aftastur. (Gripið fram í: Nei.) Það vissum við. Það er ósköp klárt mál.

En í ræðu hv. þm. Ingólfs Guðnasonar nefndi hann að við hefðum möguleika á að framleiða einingahús. Þau hafa lengst af verið framleidd á Siglufirði. Hann sagði við við hefðum íþróttakennaraskóla á Laugarvatni. Að vísu er hann íþróttahúslaus og hefur ekki fengist peningur í það. Ég veit að hv. þm. Stefán Guðmundsson kannast vel við það mál. Það er enn þá verið að nota sömu laugina og ég synti í þegar ég var að byrja í menntaskóla fyrir 33 árum, minnir mig. Þar er sami pollurinn, 12 metra langur, á sama tíma og 50 metra laugar eru komnar í annan hvern bæ í landinu. Íþróttahúsin fyrir norðan eru þannig að það eru varla nema 500 metrar á milli þeirra sumra á meðan íþróttakennaraskóli landsmanna býr við þann kost að hafa ekkert íþróttahús. Ferðamannamóttöku, pylsusölu og slíkt ætlum við ekki að taka inn í þessar umr. Það fer vel inn á milli, eins og tómatsósan á hamborgurunum, en það kemur málinu ekkert við. Það er verið að tala hér um allt annað. Og við höfum áreiðanlega ekki miklar tekjur af því.

Svo kemur það núna að auðugustu fiskimiðin séu út af Suðurlandi. Ég þykist þekkja það miklu betur en þessi ágæti þm., búinn að vera þarna meira og minna til sjós síðan 1949 á hverju einasta ári. Það er alger misskilningur, því miður, að þetta séu auðugustu fiskimið landsins. Þarna gengur að vísu hrygningarstofninn fram hjá í mars og apríl, en aðra tíma ársins er sannarlega ekki um auðugan garð að gresja. Því miður er það þannig. Við þurfum að sækja okkar fisk langt. Allt svona tal ætti að geyma til síðari tíma og menn ættu að lesa sér til áður en þeir flytja svona ræðu. Ég vil eindregið mælast til þess að ágætur þm. eins og Ingólfur Guðnason er láti sig ekki henda að tala um það sem hann hefur ekki hugmynd um.

Það hefur verið nokkur vikurútflutningur frá Þorlákshöfn, hann er að benda okkur á hann, en eftirspurnin á vikri hefur ekki verið meiri en svo að það er sami skammturinn sem er verið að nudda í útlendinga fyrir litinn prís á hverju ári. Það er ekki mikill hagur af því, rétt stendur undir sér og búið, er sáralítið magn og veitir fáum vinnu, aðallega þeim sem keyra vikurinn, örfáum mönnum. (Gripið fram í: Er það ekki vinna líka?) Jú, en það er ekki mikil vinna við það og alls ekki hægt að nefna það í sama orðinu.

Ég er undrandi á því að vera að tína svona lagað til. Ég kann ekki við að nota það orð sem maður nefnir oftast í sambandi við svona smámuni, af því að þetta er virðuleg stofnun. Og blómarækt í Hveragerði. Hér komu einhverjir Hollendingar um árið og ætluðu að setja upp ylræktarver í Hveragerði og framleiða í stórum stíl. Ég þekki ekki plöntur, það ætti hæstv. iðnrh. að þekkja betur, 60 blaðsíður eru í einni skýrslunni frá honum um plöntur og sveppi á Austurlandi eða eitthvað svoleiðis. Það kom í ljós þegar búið var að athuga málið að það ætti að kaupa lampana af Philips í Eindhoven og það átti að nota heita vatnið hérna hjá okkur í Hveragerði. Þrátt fyrir ákaflega lágt orkuverð þótti mönnum ekki viðlit að fara út í fyrirtækið vegna þess að það bar sig ekki. Við erum ekki eins og þeir þarna á Norðurlandi að vilja fá eitthvert fyrirtæki hvort sem það ber sig eða ekki. Alls ekki. (Gripið fram í: Höfum við beðið um það?) Við erum með sárafá fyrirtæki á Suðurlandi sem eru á ríkisframfæri, en þau eru á öðrum hverjum firði þarna fyrir norðan, því miður. Ég vildi að þau bæru sig öll.

Svona er hægt að telja upp. Sykurverksmiðja með 29% afkastavexti. Ég ætla að vona að sykurverksmiðja geti starfað hér á landi, en miðað við það sykurverð, sem er á heimsmarkaðinum núna, er ástandið þannig að ætlað er að kílókið af sykri framleitt í sykurverksmiðju í Hveragerði, miðað við það orkuverð sem ráðh. ætlar að selja okkur orkuna á, þegar hann gefur Svissurum hana, það kosti eitthvað nálægt 6 kr. hér, en það kostar 3 kr. frá útlöngum. Það gefur ekki 29% afkastavexti nema maður reikni eins og sérfræðingar iðnrn. Þá er hægt að fá allan fjandann út.

Stærsta mjólkurbú á Norðurlöndum. Hvernig er með það? Það mætti spyrja hv. þm. Þórarin Sigurjónsson að því, hvernig er með stærsta mjólkurbú á Norðurlöndum. Það er verið að taka skóflustungu uppi í holtum núna um daginn hérna í Reykjavík og hæstv. landbrh. gerði það með bestu skóflu ráðuneytisins. Og hvaða skóflustunga var þetta? Þetta var fyrsta holan, svo kemur önnur, svo kemur stór gryfja og mikið hús ofan á. Og hvað á að gera þar? Mestallt af því, sem hingað til hefur verið gert í mjólkurbúinu á Selfossi. Þetta er iðnaðarstefnan. Nú má ekki einu sinni koma við með mjólkina á Selfoss. Mjólkurbilstjórarnir eiga í framtíðinni að vinka þar sem mjólkurbúið var og svo á að vinna þetta allt í Reykjavík. Að þessu standa, því miður, forustumenn bænda á Suðurlandi. Drottinn minn! Kjötvinnslan hjá SS er að fá stórhýsi yfir sig hérna í Reykjavík. Hvað ætli við glötum mörgum atvinnutækifærum á Suðurlandi með slíkri stefnu?

Herra forseti. Ég nenni ekki að eltast við þetta. Svona ræður eru ágætar ef maður væri í einhverju skammastuði hér, en því fer fjarri. Ég harma að hér á hinu háa Alþingi skuli geta komið svona brtt. Hugsið ykkur! Hvernig lesum við till. hér? Tillögugreinin er yfirleitt mjög stutt, um kjarna málsins, en þessi kjarni málsins er studdur af grg. Ef við breytum þessu eina orði í till. og lesum svo grg. á eftir kemur fram að hún er öll um að það sé auðvitað skynsamlegast að reisa þessa verksmiðju á Suðurlandi. Guð minn góður! Hvað verður eftir? Við getum notað öfugan rökstuðning fyrir till., gerið ykkur grein fyrir því. Þetta megum við ekki gera. Biðjist afsökunar og dragið till. til baka. Þið getið þó greitt atkv. frekar á móti okkar till., en þetta er hneyksli. Þess eru engin dæmi að menn hafi hagað sér svona hér fyrr. Menn eru að vísu farnir að taka oft upp óþægilega og leiðinlega nýja siði, en þetta er kórónan á öllu saman. Þarna eru menn að bíta höfuðið af skömminni.

Það hafa verið fluttar ræður hér af norðanmönnum og þær hafa verið ósköp vandræðalegar. Satt að segja yrði ég vandræðalegur í framan ef ég ætti að standa fyrir því að mæla með svona löguðu fyrirtæki fyrir norðan, mjög vandræðalegur. Maður mundi fara heldur hjá sér í stólnum og reyna að fela sig og snúa sér undan eins og þeir hafa gert, — meira að segja sjálfur Eyjólfur Konráð Jónsson sem hefur ævinlega verið liðugur í talfærunum.

Hv. þm. Stefán Guðmundsson og norðanmaður var að tala um verksmiðju utan stór-Reykjavíkursvæðisins. Hann og margir aðrir hafa fallið í þá gryfju að nágrenni Þorlákshafnar er ekki hluti af atvinnumarkaði stór-Reykjavíkursvæðisins, ekkert nálægt því. (Gripið fram í.) Við höfum goldið þess, Sunnlendingar, að vera í nálægð Reykjavíkur. Við vorum skildir eftir þegar byggðastefna þeirra vestan- norðan- og austanmanna byrjaði og hefur gengið á allan þennan tíma, í meira en 10 ár. Við höfðum tapað á byggðastefnunni og það er kominn tími til að snúa henni í aðrar áttir. Fyrr verður þessu landi ekki stjórnað almennilega en þeir menn, sem standa fyrir byggðastefnu af þessu tagi, í eina átt, hafa verið settir til hliðar í íslenskum þjóðmálum.

Hv. þm. Stefán Guðmundsson nefndi það einnig, að að sjálfsögðu hlyti að verða notuð sú mikla tæknilega undirbúningsvinna sem lagt hefur verið í. Hvaða undirbúningsvinna skyldi það vera? Skyldi það vera undirbúningsvinna norðanmanna sem alltaf hafa stefnt að verksmiðju sem ekki er talið mögulegt að reisa, sem er óhagkvæm, notar olíu? Nei, það er ekki þeirra tæknilega undirbúningsvinna sem á að nota. Það er undirbúningsvinna Jarðefnaiðnaðar sem þeir ætla að nota. Alveg á sama hátt og þessi brtt. er við mikla vinnu sem lögð hefur verið í þessa þáltill. af okkar hálfu ætla þeir að nota vinnu Jarðefnaiðnaðar hf. fyrir sína verksmiðju. Þeir ætla að taka verksmiðju sem þeir eru búnir að úthúða allan tímann, af því að þeir urðu að hlaupa frá sinni verksmiðju. Þeir hafa sem sagt hlaupið frá borði af sínu eigin skipi yfir í okkar myndarlegu fleytu, sem ævinlega hefur haft hinn rétta kúrs sem verður sá endanlegi, og hafa hugsað sér að gera uppreisn um borð. Þetta er þokkalegt.

Nei, herra forseti, ég á varla orð yfir þetta. Alltaf og sífellt glymur það í eyrum manna að atvinnukostir sunnanlands séu miklu betri en fyrir norðan og miklu fleiri, eins og hv. þm. Ingólfur Guðnason var að nefna. Ég er margsinnis búinn að spyrja fylgjendur þessarar norðantillögu að því, hverjir þessir kostir eru. Hverjir eru þeir? Leggið þá á borðið. Segið okkur það. Það getur enginn sagt. (Gripið fram í: Ég lagði þá á borðið hjá þér áðan.) Já, hérna. Crysanthemum-græðlingar í Hveragerði. Þeir eru ekki arðbærir, því miður. Og var það fleira? Nei. Það eru innantóm orð eða þá einhverjar skýjaborgir sem ekki hafa verið til nema rétt á pappírnum. Það kemur ekki í staðinn fyrir það sem við höfum verið að berjast fyrir í mörg undanfarin ár og höfum haft á réttu að standa. Það þýðir ekkert að vera að veifa þessu. Ég var að tala um þetta áðan.

Ég vil benda hæstv. iðnrh. á, og ég ætla að biðja hann að gera undantekningu og hlusta núna, að arðsemi steinullarverksmiðju, sem hér hefur verið nefnd á Sauðárkróki, þessarar litlu, er auðvitað talin meiri ef hún getur flutt eitthvað út. Það fer ekkert á milli mála. Ég er sannfærður um að það verður þyngra að ýmsu leyti að eiga við innanlandsmarkað. Menn eru íhaldssamir og breyta ekki gjarnan strax um, en það kemur ef menn fá góða og ódýra einangrun. En þegar réttir úr kreppunni í Evrópu og menn eru að fara að endureinangra næstum því alla Evrópu, — hún er illa einangruð, menn hafa bara ekki efni á því núna í stórum stíl, — þá verður mest tækifærið að flytja út. Þá getum við boðið ódýra steinull með ódýrum flutningi í tómarýminu margnefnda sem er í skipum sem fara til Evrópu. Skipin okkar fara tóm út og koma full heim af alls konar drasli. Arðsemin af þessari minni verksmiðju fyrir norðan er tíu komma eitthvað prósent.

Hver skyldi vera arðsemin af kísilmálmverksmiðjunni stóru ef markaður er sæmilegur og ef einhver vill kaupa það og ef einhver vill borga sæmilegan gjaldeyri fyrir það? Þrjú ef eru þarna í röð og þau eru sjö á þeirri verksmiðju og ekkert færri en í sambandi við steinull. Samt á að fara út í þetta verkefni. Vitið það hvað það kostar? Það er risavaxin tala, 747 millj. nýjar. Ég ætla að vona að það gangi allt vel þó þar sé ekkert rafmagn. En arðsemi þeirrar verksmiðju, sem gefin er upp í því mikla plaggi, — einhvers staðar í skjalabunkanum finnst sá miði þar sem talað er um arðsemina þar — hún er líka eitthvað svipað þessu, 10 og eitthvað. Steinullarverksmiðjan hjá okkur fyrir sunnan stendur svipað og ekkert lakar en þetta. Lakasta talan er einhver brot úr prósentu minni, en eðlileg tala er að mínu mati hærri. Hún er hærri. Arðsemi steinullarverksmiðju í Þorlákshöfn er meiri en á kísilmálmverksmiðjunni á Reyðarfirði. Og þar hafið þið það.

Herra forseti. Það er kannske óþarfi að vera að ræða þetta mál miklu frekar, en þarna kom fram ein röng fullyrðing um að hæstv. ríkisstj. hafi komist að niðurstöðu. Ég tel að ríkisstj. hafi ekki komist að niðurstöðu fyrr en hún hefur tekið málið til afgreiðslu í ríkisstj. Það hefur ekki verið gert. Menn verða að gæta sín á orðalaginu. Ég trúi því ekki, að það verði gert fyrr en þessari atkvgr. hefur verið lokið hér í Sþ. Ég vil aðeins benda á það, að þegar verið er að tala um heimildarlögin frá því í fyrra, þá var ríkisstj. heimilað að leggja svona og svona mikla peninga, svona og svona stórt hlutfall af því að reisa steinullarverksmiðju, en það var ekkert sagt hvar hún ætti að vera. Það var eftir, og samkomulagið er ekki um það sem er eftir, úti í blámóðunni. Það stendur hvergi í plagginu. Þið skuluð ekki vera að veifa því ranga tré í þessu máli. Veifið þá frekar engu.

Það er rétt að það hefur kannske ekki verið skynsamlegt hjá mér að vera að tala um hversu miklar framkvæmdir væru á Sauðárkróki. En ég vil fullyrða að ég sagði það ekki í því skyni að öfundast yfir því, hvað vel gengi hjá þeim. Ég tók það meira að segja skýrt fram. Ég óska þessu ágæta verkafólki á Norðurlandi vestra alls góðs og fagna því, að þar eru framfarir. Það var ekki af neinni öfund mælt. Það var aðeins til að sýna að það væri síður en svo nokkur deyfð þar. Við sjáum það af meðallaunum í kjördæminu Norðurlandi vestra. Línurit er til yfir meðallaun í öllum skattumdæmum landsins til margra ára. Þau eru til frá opinberum aðilum sem ég treysti, enda eru það ekki sérfræðingar frá Rannsóknaráði ríkisins. Þau línurit sýna að Norðurland vestra var býsna langt niðri í meðallaunum, seig svo nokkuð áfram, en stefnir nú til himins. Það línurit hækkar. Þeir voru lægstir, en þeir eru það ekki lengur, ekkert nálægt því. Hverjir eru lægstir? Hvar stefnir kúrfan niður? Í skattumdæmi Suðurlands, því miður. Við höfum ekki staðið okkur nógu vel, hv. þm., og engir okkar. Það er sannleikurinn.

Að lokum, herra forseti, ætla ég aðeins að nefna eitt atriði úr ræðu hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, en þar sem hann er farinn ætla ég ekki að segja mikið um það. Hann nefndi að þeir norðanmenn vildu nota tómarýmið í skipunum á leiðinni suður. Til að geta notað það þurfa skipin alltaf að koma við þarna á Króknum og sækja steinullina, og auðvitað er dýrara að vera alltaf með eitthvað í skipinu. Það þyngir það og það eyðir meiri olíu o.s.frv. Þetta hlýtur því að kosta eitthvað. Þeir þurfa að taka þetta um borð og þeir þurfa að taka þetta í land. Þetta hlýtur allt að kosta sitt. En það verð, sem þeir ætla að heimta fyrir, er ákaflega lágt. Það er svo lágt að ég efast um að það geti nokkurn tíma staðið undir kostnaði, því það þarf að hreinsa vel þau skip eftir svona flutning o.s.frv. En það er rétt og það er skynsamlegt að nota sér tómarýni og reyna að semja um lága fragt, fasta fragt. Það er aldrei svo að það hafi ekki verið eitthvað skynsamlegt líka fyrir norðan stundum, en aðalgallinn á þessu er sá, að þessi skip eru bara ekki til. Það er eftir að smíða þau og meira að segja eftir að teikna þau.

Við erum nefnilega að tala um ýmislegt í þessum efnum í býsna lausu lofti. Ég ætla að vona að þessir ágætu norðanmenn komi þó þokkalega niður. Ef hið háa Alþingi leyfir sér nú einu sinni að hugsa um málin frá hagkvæmnisjónarmiði, hvar sé eiginlega helst möguleiki á að reka verksmiðju með sæmilegu lagi og sem næst markaðinum, hráefnið við höndina og orkan við túngarðinn, þá velja menn auðvitað þann kostinn að reisa verksmiðjuna syðra.