01.04.1982
Efri deild: 62. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3477 í B-deild Alþingistíðinda. (3030)

258. mál, Viðlagatrygging Íslands

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég tala hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 52/1975, um Viðlagatryggingu Íslands. Frv. er samið af nefnd sem ég skipaði 25. apríl 1980. Tilgangur nefndarstarfsins var „að kanna möguleika á því að tryggja þjóðina fyrir áföllum af meiri háttar náttúruhamförum“ eins og segir í skipunarbréfi nefndarinnar. Verkefni nefndarinnar var jafnframt endurskoðun á lögum nr. 52/ 1975, um Viðlagatryggingu Íslands. Í nefndinni áttu sæti þeir Guðmundur Hjartarson bankastjóri, Pétur Stefánsson verkfræðingur, Þorleifur Einarsson jarðfræðingur og Ásgeir Ólafsson forstjóri, sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar.

Sú nefnd, sem vann að undirbúningi gildandi laga um Viðlagatryggingu Íslands, aflaði þá ýmissa upplýsinga um tryggingar af þessum toga í öðrum löndum. Niðurstaðan varð sú að leggja fram lagafrv. um Viðlagatryggingu Íslands þar sem gert er ráð fyrir víðtækari tryggingu gagnvart tjóni en nokkurs staðar annars staðar. Hér er því stigið nýtt skref í þessum efnum og gerð tillaga um víðtækari útfærslu á starfsemi Viðlagatryggingar Íslands. Frv. byggir þó á sömu grundvallarreglum og lög um Viðlagatryggingu, þ.e. að þau mannvirki og verðmæti, sem tryggð verði, skuli tryggð samkv. viðurkenndum almennum vátryggingarvenjum og innan þess ramma sem lög nr. 20/1954, um vátryggingarsamninga, marka.

Í frv. þessu, sem er 10 greinar, er gert ráð fyrir nokkrum veigamiklum breytingum á lögum um Viðlagatryggingu Íslands.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að auk þeirra mannvirkja, sem hingað til hafa fallið undir lögin um Viðlagatryggingu Íslands, komi fleiri mannvirki. Munar þar mest um þau mannvirki sem talin eru upp í b-lið 1. gr. frv. eða 5. gr. laganna, þ.e. hitaveitur, vatnsveitur, skolpveitur, hafnarmannvirki, brýr, raforkuvirki, þar með talin: Hegningarlög. 3478 dreifikerfi, stíflur og veitumannvirki, sími og önnur fjarskiptakerfi, þar með talin dreifikerfi hljóðvarps, sjónvarps og flugþjónustu.

Í 2. gr. frv. er fjallað um með hvaða hætti eigi að ákveða vátryggingarfjárhæðir. Segir þar að varðandi þau verðmæti, sem talin eru í 5. gr., skuli miða við sömu fjárhæð og brunatrygging nemur á hverjum tíma, að því er varðar ræktað land og lóðir á að miða við þá fjárhæð, sem skráð er hjá Fasteignamati ríkisins á hverjum tíma, og að því er varðar þau mannvirki, sem talin eru upp í b-lið 5. gr. og ég las upp áðan, skal miðað við áætlað endurbyggingarverð mannvirkjanna.

Í 3. gr. er fjallað um það, með hvaða hætti verði varið eigin áhættu vátryggðs, og byggt á þeirri meginreglu að vátryggjandi beri sjálfur 5% af hverju tjóni, þó eigi lægri fjárhæð en tilgreind er í 3. gr., þ.e. 5 þús. kr. sem lágmarksfjárhæð að því er varðar a-lið 5. gr., en 50 þús. kr. að því er varðar b-lið 5. gr., þ.e. þau stóru og miklu mannvirki sem ég gerði grein fyrir.

4. gr. fjallar um árleg iðgjöld til vátryggingarinnar. Þar er gert ráð fyrir að verðmæti, sem tryggð eru samkvæmt a-lið, beri iðgjöld sem eru 0.25%, en verðmæti, sem tryggð eru samkv. b-lið, beri 0.20 0/00

Hér er um að ræða þau meginákvæði sem við er miðað að breyta samkvæmt frv. þessu. þó segir í 3. málsgr. 4. gr.: „Nú er hrein eign stofnunarinnar meiri en 2 0/00 af áætluðum vátryggingarfjárhæðum í lok árs og skal þá lækka iðgjöld um helming. Verði hrein eign meiri en 30/00 áætluðum vátryggingarfjárhæðum í lok árs skal innheimta iðgjalda falla niður. Fari eignin niður fyrir 20/00 af áætluðum vátryggingarfjárhæðum í lok árs skal hefja innheimtu fullra iðgjalda að nýju. Fari hrein eign niður fyrir 10/00 af áætluðum vátryggingarfjárhæðum í lok árs er stjórn stofnunarinnar heimilt að innheimta iðgjöld, sbr. 1. mgr., með 100% álagi þar til 20/00 markinu er náð.“

Ég vil þessu næst vekja sérstaka athygli á 8. gr. frv., en þar er gert ráð fyrir að stjórn Viðlagatryggingar Íslands verði heimilt að veita fé til rannsókna og til að styrkja framkvæmdir sem ætlað er að varna tjóni af völdum náttúruhamfara. Enn fremur er stjórninni heimilt að veita styrki til björgunarsveita vegna starfsemi sem viðurkennd er af Almannavörnum ríkisins. Síðari málsgr. þessarar greinar er flutt að beiðni fjvn. Í athugasemdum um þessa grein segir: „Hér er lagt til að stjórn stofnunarinnar verði heimilt að verja nokkru fé til rannsókna á eðli náttúruhamfara með það í huga að unnt verði að koma við fyrirbyggjandi aðgerðum, enn fremur að henni sé heimilt að veita styrki til björgunarstarfsemi sem Almannavarnir ríkisins viðurkenni. Verður að telja Viðlagatryggingu réttan vettvang til slíkra styrkja, þar sem starfsemi slíkra björgunarsveita hefur þegar sannað gildi sitt og ómótmælt er að tryggingabætur geta farið eftir því, hversu öflug og skipulögð þessi starfsemi er.“

10. gr frv. fjallar um gildistöku þess ef að lögum verður. Þar er miðað við að lögin öðlist gildi frá og með 1. janúar 1983, þar sem ljóst er að hér er um að ræða mikið og flókið verkefni sem tekur tíma að undirbúa.

Meðan nefndin var að störfum var fjallað um ýmsa þætti, ýmiss konar mannvirki sem hugsanlega ætti að taka undir starfsemi Viðlagatryggingarinnar. M.a. bárust nefndinni erindi og ábendingar um að æskilegt væri að tjón af völdum ofviðra yrðu tekin inn í 4. gr. laganna. Eins og hv. þm. muna var þetta mál nokkuð rætt á síðasta þingi, vegna ofviðris sem geisaði hér í febrúarmánuði 1981. Þá var um það rætt að taka inn í viðlagatrygginguna ákvæði um foktryggingu. Þetta mál var rætt mjög ítarlega í nefndinni, sem undirbjó frv. þetta, og í nefndarálitinu segir: „Komið hefur í ljós í þau skipti sem meiri háttar ofviðri hafa gengið yfir einstaka landshluta, að þeir eru ávallt margir sem ekki hafa hagnýtt sér þá tryggingarvernd sem fáanleg er hjá tryggingarfélögunum gegn slíku tjóni. Menn hafa í mörg ár, a.m.k. frá 1960, átt þess kost að kaupa sérstaka foktryggingu, auk þess heimilistryggingu og húseigendatryggingu, en allar þessar tryggingar bæta tjón af völdum ofveðurs. Nefndarmenn telja æskilegast að hinn almenni vátryggingarmarkaður annist þessar tryggingar, einkum þegar þess er gætt, að þótt um geti verið að ræða mörg minni háttar tjón í sama veðrinu er það undantekning að um sé að ræða svonefnd „katastrófutjón,“ þ.e. tjón af þeirri stærðargráðu sem Viðlagatryggingin er fyrst og fremst stofnuð til að mæta. Reynist það hins vegarvilji Alþingis, „segir áfram í nefndarálitinu, „að stofnunin bæti einnig tjón af völdum ofviðra, leggur nefndin til að sjálfsáhætta hinna tryggðu verði helmingi hærri þegar um slík tjón er að ræða. Nefndin telur að eigendur húseigna og lausafjár geti í flestum tilvikum komið í veg fyrir slíkt tjón með fyrirbyggjandi aðgerðum og eðlilegu viðhaldi eigna.“

Í frv. er m.ö.o. ekki tekin inn þessi foktrygging. Ég hef talið rétt að fallast á sjónarmið nefndarinnar í þessu efni vegna þess að mér varð kunnugt um þetta sjónarmið á s.l. hausti. Þá skrifaði ég tryggingafélögunum og Sambandi ísl. tryggingafélaga og óskaði eftir að þau gerðu sérstakt átak til að auglýsa þær foktryggingar sem völ er á á vegum hinna almennu tryggingafélaga. Það gerðu tryggingafélögin og mér er kunnugt um að það var nokkuð um að fólk sneri sér til þeirra af þessu tilefni. Ég held að það sé rétt að miða við það, að þessi tryggingastarfsemi verði almennt hjá hinum almennu tryggingafélögum í landinu, þar sem Viðlagatrygging Íslands hefur allt annað og miklu víðtækara hlutverk en getur falist í því að tryggja tjón af þeim toga sem oftast er um að ræða hér þegar óveður gengur yfir.

Viðlagatryggingin byggist á þeirri tryggingalegu forsendu, að hún er hrein eignatrygging og bætir aðeins það beina tjón sem verður á hinum tryggðu eignum. Það er auðvitað ljóst, að margs konar óbeint tjón hlýst af því, þegar byggingar eða tæki brenna eða farast og rekstur fyrirtækja raskast, framleiðsla minnkar eða leggst niður og fólk missir atvinnuna. Nefndinni, sem undirbjó frv., var ljóst að viðlagatryggingin verður að þróast stig af stigi og sníða sér stakk eftir vexti. Taldi nefndin því ekki tímabært að leggja til að viðlagtryggingin tæki að sér að bæta óbeint tjón. „Rétt þykir því að undirstrika," segir í nefndarálitinu, „að svonefnd rekstrarstöðvunartrygging getur innifalið bætur vegna tjóna af völdum náttúruhamfara. Þessa tryggingu geta fyrirtæki, stofnanir og aðrir, sem hafa einhvers konar rekstur með höndum, fengið keypta hjá flestum íslensku vátryggingarfélaganna.“

Nokkru eftir að nefndin tók til starfa kom til umræðu að nefndin léti gera kort sem sýndu hvar á landinu væri helst hætta á náttúruhamförum er valdið gætu eignatjóni. Töldu nefndarmenn að slíkt kort gæti gefið betri yfirsýn yfir hættusvæðin en löng lýsing í rituðu máli. Það varð því úr að Þorleifur Einarsson jarðfræðingur, einn nefndarmanna, tók að sér þetta verk ásamt Guðmundi Ó. Ingvarssyni landfræðingi. Þau kort, sem hér er um að ræða, eru birt með þskj. Það er að vísu, því miður, svarthvít prentun þannig að þau skila sér ekki sem skyldi. En hér er í fyrsta lagi um að ræða yfirlitskort yfir eldstöðvar og hraun sem runnið hafa á nútíma. Í öðru lagi er um að ræða yfirlit fyrir hraun og eldstöðvar sem orðið hafa til og verið virk eftir landnám. Í þriðja lagi er yfirlit yfir eldstöðvar og meiri háttar gjóskufall á Íslandi. Í fjórða lagi er um að ræða yfirlit yfir jarðskjálftasvæði. Á því korti sést glöggt hvar þau svæði liggja helst þar sem jarðskjálftasvæðin eru flokkuð annars vegar eftir sterkum jarðskjálftum og hins vegar vægum jarðskjálftum. Og í fimmta lagi er um að ræða kort yfir jökulhlaupa- og flóðahættu sem sýnir annars vegar jökulhlaup og flóð í ám og hins vegar eldstöðvar í jöklum.

Svo merkilegt sem það kann að virðast voru kort af þessum toga ekki til áður en þessi nefnd hóf starfsemi sína. Tel ég ástæðu til að láta það koma fram hér, að ég er nefndinni þakklátur fyrir að hafa látið vinna þessi kort, því að síðan hefur komið í ljós að Almannavarnir og fjölmargir fleiri aðilar hér á landi hafa óskað eftir að fá þau til afnota. En tekið skal fram, áður en lengra er haldið, að allur kostnaður við gerð þessara korta var greiddur af Viðlagatryggingu Íslands.

Í grg. frv. eru ítarlegar skýringar á kortum þessum sem ég tel ekki ástæðu til að fara út í hér. Ég vil geta þess að í grg. um 4. gr. á bls. 13 í þskj. hefur fallið niður skýring á b-lið 4. gr., þ.e. hvaða verðmæti það eru sem tryggð eru með 0.20% iðgjaldi. Þetta mál skýrir sig að öllu leyti sjálft, en ég hefði talið eðlilegt, eins og venja er til, að hafa þetta í grg. engu að síður og tel ástæðu til að geta þess hér. Ég vil einnig biðja hv. þd. velvirðingar á að prófarkalestur á þessu plaggi er ekki sem skyldi. Verður það æ algengara, satt best að segja, að ekki sé vandað til prófarkalesturs eins og þörf er á þegar verið er að leggja hér plögg fyrir Alþingi.

Kostnaðurinn við Viðlagatryggingu Íslands, þess stærri viðlagatryggingu sem hér er gerð till. um, er auðvitað talsverður. Nefndin lagði mikla vinnu í að afla upplýsinga um hugsanlegar vátryggingarfjárhæðir þeirra mannvirkja og verðmæta sem hér bætast við. Leitað var til hinna ýmsu stofnana og aðila með beiðni um upplýsingar. Það kom í ljós, sem nefndarmönnum þótti athyglisvert, að margir aðilar höfðu ekki handbærar tölur um endurbyggingarverð þeirra mannvirkja eða raungildi sem þeir hafa umráð yfir. Aðrir töldu sig geta látið vinna að gagnsöfnun en þyrftu tíma til þess o.s.frv. Tafði þetta mjög störf nefndarinnar.

Niðurstöður af þessari könnun liggja fyrir á bls. 4 í þskj. Þar kemur fram mat á þeim verðmætum sem hér er um að ræða. Talið er að á verðlagi í árslok 1981 nemi hugsanlegar vátryggingarfjárhæðir þeirra mannvirkja, sem hér verið að tala um, 27 milljörðum nýkr. Hitaveitur eru taldar vera verulega stór liður eða 232.6 milljarðar gkr. á því verðlagi sem reiknað er með í töflunni á bls. 4, vatnsveitur 68 milljarðar, skolpveitur 93.1 milljarðar, raforkuvirki (sem ekki hafa verið tryggð) 531.8 milljarðar gkr., sími og önnur fjarskiptakerfi 67.1 milljarðar gkr., hafnarmannvirki 193.1 milljarðar gkr., brýr 92 milljarðar gkr. og ræktað land og lóðir 503.5 milljarðar gkr., samtals 1689 milljarðar gkr. eða 16.9 milljarðar nýkr.

Á verðlagi í árslok 1981 er, eins og ég sagði, talið að samtala þessara verðmæta sé hugsanlega í kringum 27 milljarðar kr.

Ársiðgjöld fyrir þau verðmæti, sem lagt er til að skyldutryggð verði í þessu frv., til viðbótar því sem þegar er tryggt, mundu nema 5.4 millj. kr. á ári. Samkvæmt reikningum Viðlagatryggingar Íslands fyrir árið 1980, en það er síðasta uppgjör sem nú liggur fyrir, námu iðgjaldatekjur það ár 10.5 millj. kr., en hrein eign Viðlagatryggingar Íslands í árslok 1980 nam 36 millj. kr. Varasjóður Viðlagatryggingar Íslands er í vörslu Seðlabanka Íslands og er ávaxtaður með kaupum á verðtryggðum spariskírteinum ríkissjóðs. Eigið fé í árslok 1981 var áætlað 60 millj. kr.

Ekki er þörf á að geta þess ítarlega hér, en auðvitað hlýtur meginstyrkur og megingrundvöllur starfsemi eins og þeirrar, sem hér er um að ræða, að liggja í því, að Viðlagatryggingin geti keypt endurtryggingu á alþjóðlegum endurtryggingarmarkaði og á þann hátt dreift afleiðingum og þunga hugsanlegra stórtjóna á milli vátryggingarfélaga og á milli landa.

Í tengslum við þetta frv. um Viðlagatryggingu Íslands hafa nokkrar umræður farið fram um stöðu Bjargráðasjóðs. Bent er á að hann eigi að koma til móts við menn þegar svipuð vandamál koma upp og Viðlagatrygging Íslands á að nokkru leyti að taka tillit til. Ég vil af þessu tilefni geta þess, að ríkisstj. hefur nýlega skipað sérstaka nefnd með þremur fulltrúum Búnaðarfélags Íslands og tveimur fulltrúum sínum til þess að fara yfir og endurskoða lögin um Bjargráðasjóð með tilliti til þeirrar tillögu um endurskoðun á lögunum um Viðlagatryggingu Íslands sem hér liggur fyrir.

Ég vil einnig geta þess, herra forseti, að frv., eins og það liggur hér fyrir, er svo að segja óbreytt frá því sem það kom frá nefndinni í öndverðu. Á því hefur aðeins ein breyting verið gerð og hún kemur fram í 8. gr. sem ég gat um hér áðan, að stjórn Viðlagatryggingarinnar verði heimilt að veita styrki til björgunarsveita vegna starfsemi sem viðurkennd er af Almannavörnum ríkisins.

Ég taldi rétt að flytja frv. óbreytt eins og það kom frá nefndinni en ég geri mér ljóst að fjöldamargir aðilar, sem eru ábyrgir fyrir eign og rekstri stórra og þýðingarmikilla mannvirkja hér á landi, hljóta að vilja segja sitt orð um tryggingu af þessu tagi. Ég er þá með í huga aðila eins og Landsvirkjun, Rafmagnsveitur ríkisins, Orkustofnun og fleiri slíka aðila. Vil ég fara fram á það við hv. þingnefnd, sem málið fær til meðferðar, að hún kanni viðhorf þessara aðila sem best.

Það hefur löngum viljað loða við okkur á síðustu árum, eftir að lífskjör þjóðarinnar fóru að batna, einkaneysla jókst stöðugt og velmegun varð meiri en áður, að það hefur verið haft við orð að menn vildu eyða frá degi til dags því sem aflað væri og það væri skortur á framsýni og fyrirhyggju sem einkenndi okkur frekar en annað. Ég held að samþykkt á lögum um Viðlagatryggingu Íslands, af þeim toga sem hér er gerð till. um, gæti orðið til marks um það, að við vildum nokkuð hyggja að framtíðinni og búa okkur í sameiningu undir að mæta þeim áföllum, sem hugsanlega geta komið upp í þessu landi af náttúruhamförum. Ég teldi þess vegna gott ef Alþingi tæki vel í þetta frv. og afgreiddi það á sem bestan hátt.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.