01.04.1982
Efri deild: 62. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3483 í B-deild Alþingistíðinda. (3034)

93. mál, atvinnuréttindi útlendinga

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. félmn. hefur tekið þetta frv. til meðferðar og mælir með samþykkt þess.

Frv. þetta er niðurstaða nefndarstarfs. 18. mars 1980 skipaði félmrh. nefnd til að kanna gildandi lög og reglur um kjör og aðbúnað farandverkáfólks, þar með talið erlent verkafólk, og gera tillögur til úrbóta í þeim efnum.

Helstu breytingar, sem frv. þetta felur í sér, eru þær, að gert ráð fyrir að skilyrði þess, að atvinnuleyfi megi veita útlendingi samkvæmt lögunum, sé, auk að fyrir liggi umsögn verkalýðsfélags á staðnum í hlutaðeigandi starfsgrein, að við umsókn liggi fyrir undirskrifaður ráðningarsamningur milli atvinnurekanda og viðkomandi starfsmanns til tiltekins tíma eða verkefnis. Þessi ráðningarsamningur verður að tryggja erlendum starfsmanni laun og önnur starfskjör til jafns við heimamenn ásamt tilvísun til þess kjarasamnings sem um starfið gildir. Í ráðningarsamningi skulu vera ýmsar upplýsingar sem varða starfskjör útlendings hér á landi, m.a. um ferðakostnað og heimflutning, ákvæði um húsnæði og hvernig með skuli fara þegar atvinna kann að falla niður af óviðráðanlegum ástæðum.

Ákvæði frv. um fyrirliggjandi ráðningarsamning og dreifingu vinnumáladeildar félmrn. á upplýsingum erlendis, er varða öll helstu atriði starfskjara á Íslandi, eru hvort tveggja nýmæli í lögum þessum, til þess fallin að tryggja betur en nú er að ráðningu erlends starfsfólks fylgi allar tiltækar upplýsingar um aðbúnað og starfskjör á Íslandi og aðilar hafi kynnt sér þær til hlítar áður en gengið er frá ráðningu. Ýmis önnur nýmæli eru leidd af þessari kerfisbreytingu.

Ég vil láta þess getið, að þessu frv. fylgdi sérálit frá einum nm. sem undirbjó frv., Þorsteini Pálssyni framkvæmdastjóra. Í hans séráliti kom fram fyrst og fremst að hann vildi að endurskoðun gildandi laga leiddi ekki til of mikillar skriffinnsku, sem annaðhvort mundi hefta með óeðlilegum hætti möguleika á ráðningu útlendinga eða vera dauður bókstafur, eins og sagði í séráliti þessa nm. Taldi hann að með því móti mundi endurskoðun laganna ekki ná tilgangi sínum, en það sé megingalli frv., eins og það var lagt fram, að mælt sé fyrir um óraunhæfa skriffinnsku. Sérálitið miðar að því að gera framkvæmd leyfisveitinganna einfaldari í sniðum án þess að draga úr því öryggi útlendingum til handa sem eðlilegt mætti telja að lögin veittu og beita mætti með lögum.

Frv. var breytt nokkuð í meðferð Nd. til móts við þau sjónarmið sem fram komu í séráliti Þorsteins Pálssonar. Hv, félmn. Ed. þótti rétt að kveðja á sinn fund formann þeirrar nefndar sem samdi frv., Arnmund Backman aðstoðarmann ráðh., og jafnframt Þorstein Pálsson og skýrðu þeir sjónarmið sín á fundi nefndarinnar. Sumir nm., m.a. ég, töldu að það færi vel á því að ganga nokkuð lengra til móts við sjónarmið sem fram komu í séráliti Þorsteins Pálssonar en samkomulag var um í hv. Nd., en ekki voru allir á þeirri skoðun í nefndinni. Aðrir töldu að nú þegar væri nægilega langt gengið til móts við þau sjónarmið sem fram höfðu komið frá Þorsteini Pálssyni. Það varð því niðurstaðan hjá nm. í hv. félmn. Ed. að mæla með frv. óbreyttu eins og samkomulag hafði orðið um í hv. Nd.

Þessi afgreiðsla nefndarinnar er að mínu viti ekki óeðlileg. Í raun og veru hefur ekki verið um efniságreining að ræða varðandi þau mál sem sérstaklega voru rædd og ágreiningi ollu, heldur eru það frekar formsatriði en efnisatriði sem um er deilt. Allir aðilar hafa viljað stefna að því sama með þessari löggjöf þó að verið hafi lítið eitt skiptar skoðanir um með hverjum hætti það yrði best gert.