01.04.1982
Efri deild: 62. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3485 í B-deild Alþingistíðinda. (3037)

132. mál, framkvæmd eignarnáms

Frsm. minni hl. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Svo sem fram hefur komið hjá hv. 3. þm. Suðurl. varð nefndin ekki sammála um afstöðu til þessa frv. til l. um breyt. á lögum um framkvæmd eignarnáms. Minni hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt. Ásamt mér skipar þann minni hluta hv. þm. Soffía Guðmundsdóttir.

Skemmst er frá því að segja, að frv. sama efnis hafa áður verið lögð fram hér á Alþingi af sömu flm„ en eigi náð fram að ganga. Í fyrra var frv. sama efnis sent að frumkvæði flm. til umsagnar vel flestra oddvita á landinu og þau svör sem bárust voru að yfirgnæfandi hluta jákvæð.

Að þessu sinni var frv. flutt í nokkuð breyttri mynd, þótt efnisákvæði séu hin sömu að mestu, og ekki var talin ástæða til að senda frv. enn á ný svo vítt og breitt til umsagnar sem áður hafði verið gert, heldur var látið nægja að senda það til Sambands ísl. sveitarfélaga, Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda. Tvö síðast nefndu samtökin skiluðu umsögnum til allshn. sem voru neikvæðar, þ.e. lagst var gegn því að frv. yrði lögfest. Í rökstuðningi þeirra aðila, sem raunar er hinn sami hjá báðum og saminn er af lögfræðingi bændasamtakanna, kemur fram sú skoðun, að með lögfestingu þessa frv. væri þegnum þjóðfélagsins mismunað. Ég held hins vegar að það sé ekki réttur skilningur á eðli þessa máls.

Umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga varðandi þetta frv. barst allshn. 2. febr., en þar segir, með leyfi forseta: „Með bréfi, dagsettu 16. des. s.l., sendi allshn. Ed. framangreint frv, til umsagnar sambandsins. Á stjórnarfundi sambandsins 29. f.m. var einróma samþykkt að mæla með lögfestingu frv. Þetta tilkynnist hv. þdn. hér með.“

Undir þetta ritar Magnús E. Guðjónsson -framkvæmdastjóri.

Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga mælir sem sagt eindregið með lögfestingu þessa frv. Finnst okkur, sem skipum minni hl. n., það óneitanlega vega töluvert þungt.

Svo sem fram hefur komið er frv. fyrst og fremst ætlað að breyta aðferðum við ákvörðun eignarnámsbóta í þá átt að afnema óréttlæti sem flm. telja að nú viðgangist, stuðla að eðlilegri þróun byggðar og gera það að meginreglu laga og það er auðvitað mergurinn málsins að ekki skuli taka tillit til verðbreytinga sem rekja megi til tilgangs eignarnámstökunnar. Að þessu leyti er auðvitað í frv. mörkuð ný stefna frá því sem verið hefur þar sem miðað er að því að tryggja einstaklingum sanngjarnt verð fyrir eignir sínar, en tryggja jafnframt mjög ríka hagsmuni samfélagsins.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð, en við, sem skipum minni hl. n., leggjum til að frv. verði samþykkt.