01.04.1982
Efri deild: 62. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3486 í B-deild Alþingistíðinda. (3039)

202. mál, birting laga

Frm. meiri hl. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Allshn. varð ekki sammála um afstöðu til þessa frv. um breytingu á lögum um birtingu laga og stjórnvaldaerinda. Við, sem skipum meiri hl. n., en það eru auk mín hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, Egill Jónsson og Salome Þorkelsdóttir, leggjum til að frv. verði samþykkt. Minni hl. n. leggur hins vegar til að frv. verði vísað til ríkisstj.

Í skemmstu máli að segja gerir þetta frv. ráð fyrir því, að við 1. gr. laga um birtingu laga og stjórnvaldaerinda skuli bætast ein setning, með leyfi forseta, sem er þannig hljóðandi: „Brbl. skal auk þess kynna með fréttatilkynningum til hljóðvarps, sjónvarps og dagblaða.“

Ég ætla ekki að fara að endurtaka hér eða rifja upp hvert tilefni flutnings þessa frv. var. Það er öllum hv. þm. mætavel kunnugt.

Tilgangur okkar flm. með flutningi frv. er eingöngu að tryggja það betur en verið hefur, að almenningi verði ljóst og hann hafi ævinlega möguleika til að vita þegar út eru gefin brbl. Það hlýtur að teljast eðlilegt í því fjölmiðlaþjóðfélagi sem við lifum nú í og ef hugsað er til þeirrar þýðingar sem ríkisfjölmiðlarnir og dagblöðin hafa fyrir alla þjóðina, að útgáfa brbl. sé einnig kynnt þar, en ekki aðeins í Stjórnartíðindum. Þau eru aðeins send til áskrifenda, og virðist vera með höppum og glöppum hvort þau berast til fjölmiðla eða hvort efni þeirra vekur þá athygli sem leiði til þess, að efnisatriði þar séu birt. Þar virðist happa- og glappaaðferðin, því miður, hafa ráðið.

Sú eina hugsun, sem er að baki flutningi þessa frv., er að tryggja enn frekar rétt almennings, réttinn til að vita og réttinn til að fylgjast með og fá að heyra um ákvarðanir réttkjörinna yfirvalda. Sá réttur, rétturinn að vita, ætti auðvitað að vera staðfestur í stjórnarskrá og verður það vonandi eftir endurskoðun stjórnarskrárinnar sem fram hlýtur að fara áður en mjög langt um líður.

Ég skil það satt að segja ekki, ef hv. þdm. geta ekki fallist á þessa litlu breytingu til að tryggja enn frekar hagsmuni almennings og réttinn til að vita, en leggja til að þessu máli verði vísað til ríkisstj., sem allir vita að er bara kurteisisleg leið til að drepa mál til að þurfa ekki að fella það. Um leið og þessu máli hefur verið vísað til ríkisstj. gerist auðvitað ekkert í því frekar nú, en verði sú niðurstaða munum við flm. þessa frv. auðvitað flytja þetta mál aftur á næsta þingi. Ég trúi því satt að segja ekki fyrr en á verður tekið, að menn treysti sér ekki til að samþykkja þessa litlu breytingu sem varðar einungis hagsmuni almennings og tryggir betur en verið hefur að allri þjóðinni birtist vitneskja um útgáfu brbl.