01.04.1982
Efri deild: 62. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3486 í B-deild Alþingistíðinda. (3040)

202. mál, birting laga

Frsm. minni hl. (Jón Helgason):

Herra forseti. Frsm. meiri hl. allshn. hefur gert grein fyrir efni þessa frv., sem við í minni hl. n., Stefán Guðmundsson, Soffía Guðmundsdóttir og ég gátum ekki orðið sammála meiri hl. um.

Í nál. á þskj. 558 kemur það fram, að nm. eru allir sammála um að nauðsynlegt og sjálfsagt sé að ríkisstj. kynni almenningi vel setningu brbl., en í grg. fyrir frv. kemur fram hvert sé tilefni þess, að þetta frv. sé flutt, þ.e. að komið hafi í ljós að þeirra mati einhver mistök við útgáfu einna brbl. 14. janúar s.l. Í umræðum hér á Alþingi kom það fram, að lögin höfðu verið send fjölmiðlum. en það hafði ekki verið nefnd fréttatilkynning.

Það, sem sérstaklega veldur því, að minni hl. n. getur ekki lagt til að þetta frv. verði samþykkt, er það álit okkar, að það sé ekki eðlilegt að meint mistök einu sinni séu grundvöllur að lagasetningu á Alþingi. Það er alveg ótrúleg lagasetningargleði að telja að það þurfi að hlaupa til og setja lög á Alþingi þó að einhver smávægileg mistök séu að mati flm. í framkvæmd í einstökum tilvikum. Mér finnst alveg furðuleg, sérstaklega hjá Sjálfstfl., sú lagasetningargleði sem kemur fram í þessu nál. (Gripið fram í: Af hverju frekar hjá honum?) Já, það er dálítið merkileg þessi athugasemd hv. 11 . landsk. þm., að hann skuli ekki sjá það eða ekki finnast það neitt í ósamræmi við stefnu þá, sem Sjálfstfl. boðaði í orði, að segja: Ef einhvers staðar verða á einhver mistök setjum við lög um það. — Það er þetta sem við í minni hl. n. erum á móti og því leggjum við til að frv. verði vísað til ríkisstj.