01.04.1982
Neðri deild: 60. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3503 í B-deild Alþingistíðinda. (3049)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Umr. um þetta mál er nú lokið og atkvgr. á að fara fram. Ég vek athygli á því, að í umr. hér í dag hefur verið gerð krafa um að þetta mál fengi frekari meðferð í hv. fjh.- og viðskn. Þessi krafa hefur verið hundsuð af stjórnarliðinu. Á þessu vek ég sérstaka athygli. Hins vegar má segja að það sé í fullu samræmi við vinnubrögð hæstv. ríkisstj. Það þykir engin þörf á því, að mikilvæg mál fái eðlilega meðferð hér í þinginu. Þegar ráðherrar hafa tekið ákvörðun eiga óbreyttir þm. að þegja. Hversu lengi ætla svokallaðir stuðningsmenn þessarar ríkisstj. að láta bjóða sér svona vinnubrögð? Hversu lengi ætla þeir að láta traðka svona á sér? Mér er í sjálfu sér alveg nákvæmlega sama hvernig óbreyttir liðsmenn stjórnarinnar láta fara með sig. En mér er ekki sama hvernig Alþingi er misboðið með hrokafullri framkomu hæstv. ráðh. Sú var tíðin að þessir herrar þóttust láta sér annt um virðingu þingsins og mynduðu meira að segja ríkisstj. til þess að bjarga sóma þess, eins og allir vita, og til þess að það mætti verða fóru þeir auðvitað eftir samvisku sinni, en auðvitað ekki eftir venjulegum leikreglum. Hvar er nú virðing þessara sömu manna fyrir Alþingi og hvar er samviska þeirra? Ég sé ekki betur en þeir séu það sem kallað er samviskulausir, og þeir vanvirða Alþingi hvað eftir annað með framkomu sinni. Ég vildi með þessum orðum vekja athygli á því, hvernig réttmætar kröfur um meðferð mikilvægs máls eru gersamlega hundsaðar af stjórnarliðinu.