01.04.1982
Neðri deild: 60. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3505 í B-deild Alþingistíðinda. (3057)

203. mál, Innheimtustofnun sveitarfélaga

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég tala hér fyrir litlu frv„ sem hefur hlotið meðferð í hv. Ed., um breytingu á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54 frá 1971.

Frv. gerir ráð fyrir að Innheimtustofnunin geti tekið að sér gegn greiðslu hvers konar innheimtur fyrir einstök sveitarfélög, einkum þó innheimtu á sveitarsjóðsskuldum manna sem fluttir eru brott úr sveitarfélagi. Þá geti stofnunin enn fremur, að beiðni ráðuneyta, með sama hætti tekið að sér innheimtu meðlagsskulda erlendra ríkisborgara búsettra hér á landi og meðlög sem greidd eru erlendis vegna íslenskra ríkisborgara.

Þær breytingar, sem hér er um að ræða, eru fluttar m.a. að ósk dómsmrn. sem óskaði eftir að tekin verði upp í lögin heimild til handa Innheimtustofnunni til að annast innheimtu á meðlögum greiddum erlendis fyrir íslenska ríkisborgara. Stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga hefur einróma samþykkt fyrir sitt leyti að framangreind breyting verði gerð á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. félmn.