01.04.1982
Neðri deild: 60. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3506 í B-deild Alþingistíðinda. (3059)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þetta frv., eins og menn sjá, var borið fram í hv. Ed. og hefur þar fengið afgreiðslu og er nú til 1. umr. hér í hv. Nd.

Það frv., sem hér liggur fyrir, á sér að sjálfsögðu mjög langan aðdraganda. Það hefur í raun og veru tekið mörg ár að fjalla um þetta mál og iðulega hafa legið fyrir þinginu frv. um Sinfóníuhljómsveit, en þau hafa ekki náð fram að ganga og oft staðið þannig á að þau hafa verið mjög lítið rædd. Nú hefur þetta frv. verið lagt fram að nýju og gengið í gegnum hv. Ed. Þó að nokkrar breytingar hafi verið gerðar á frv. frá því að það var lagt fram í upphafi hv. Ed. eru þær breytingar ekki á þann veg, að þær breyti neinu um heildarstefnu þessa frv., og þær breytingar, sem orðið hafa, má fremur telja til bóta en hitt.

Ég vil taka það fram strax í upphafi, að ég legg ákaflega mikið upp úr því, að þetta mál verði nú afgreitt, að hv. Alþingi sjái sér fært að afgreiða nú og gera að lögum frv. til l. um Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Eins og sjálfsagt flestir eða allir vita er Sinfóníuhljómsveitin orðin býsna gróið og gamalt fyrirtæki. Stofndagur hennar er talinn vera í marsmánuði 1950. Hér er því alls ekki um að ræða mál sem menn kannast ekki við eða viðfangsefni sem við höfum ekki glimt við alllengi, síður en svo. Í raun og veru er Sinfóníuhljómsveitin að verða með eldri menningarstofnunum og á þegar að baki 32 ára sögu.

Hinu er ekki að leyna, að það hefur stundum verið nokkuð erfitt að reka hljómsveitina, grundvöllur hennar hefur verið á margan hátt mjög erfiður. Upphaflega stóðu að rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar fyrst og fremst Ríkisútvarpið og Reykjavíkurborg, og Þjóðleikhúsið lagði þar nokkuð í púkkið. Ríkið kom reyndar ekki inn í þetta mál eða fór ekki að leggja neitt að ráði fram beint úr ríkissjóði fyrr en allmörgum árum síðar. En síðar fór þetta meira að festast. Jafnvel þó að ekki væru nein ákveðin lög um þetta, heldur aðeins samkomulag á milli þeirra aðila sem tóku að sér reksturinn, fór smám saman að festast í sessi hvernig reka skyldi hljómsveitina og hverjir skyldu bera kostnaðinn við hana. Þá kom að sjálfsögðu fljótlega að því, að ríkissjóður tók að sér mjög stóran hluta þessa rekstrar, sem sýnist fullkomlega eðlilegt. En Sinfóníuhljómsveitin á sér sem sagt orðið langa sögu og full ástæða til að koma henni í fast horf og búa henni lagagrundvöll.

Eins og fram kemur í 1. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir að Sinfóníuhljómsveitin verði sjálfstæð stofnun, eins og þar stendur, með sérstakan fjárhag. Má segja að vissu leyti að það sé nýtt að ákveða það, vegna þess að hljómsveitin hefur verið í mjög nánum tengslum við Ríkisútvarpið. Ríkisútvarpið hefur séð um reksturinn að verulegu leyti og haft með að gera skrifstofuhald fyrir hljómsveitina, en í sjálfu sér er það ekki heppilegt skipulag.

Í 2. gr. er gerð grein fyrir því, hvert skuli vera markmið Sinfóníuhljómsveitarinnar. Kemur þar fram að það sé að auðga tónmenningu Íslendinga, efla þekkingu og áhuga á æðri tónlist og gefa landsmönnum kost á að njóta hennar, m.a. með tónleikahaldi sem víðast um landið og með tónlistarflutningi í útvarp. Þetta er í raun og veru sá tilgangur sem alltaf hefur verið í meginatriðum í sambandi við Sinfóníuhljómsveitina og að því leyti til ekkert nýtt í því efni. Ég vil þó leggja mikla áherslu á að Sinfóníuhljómsveitin hefur mikinn og ákveðinn menningartilgang, sem ég held að flestir muni verða á einu máli um að sé nauðsynlegt að halda uppi í okkar þjóðlífi, eins og gerist með öðrum þjóðum sem eru á svipuðu menningarstigi og Íslendingar, þjóðum sem við viljum miða okkur við.

Í 3. gr., sem er mjög mikilvæg grein, er frá því greint hverjir skuli standa að rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar. Þar eru taldir upp fjórir aðilar og þau hlutföll sem ætlað er að hver leggi fram. Gert er ráð fyrir að ríkissjóður leggi fram sem rekstraraðili 56%, Ríkisútvarpið 25%, borgarsjóður Reykjavíkur 18% og bæjarsjóður Seltjarnarness 1%. Síðan er gert ráð fyrir að fleiri sveitarfélög gætu komið inn sem rekstraraðilar ef þau kysu og þá með heimild ráðuneytisins.

Ég veit ekki hvort ástæða er til að fara mjög mörgum orðum um þessa 3. gr., en eins og menn sjá eru aðalrekstraraðilarnir þeir aðilar sem langlengst hafa staðið að rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar, þ.e. Ríkisútvarpið, ríkissjóður og borgarsjóður Reykjavíkur. Síðan kemur bæjarsjóður Seltjarnarness þarna inn með dálítið framlag. Það á sér að vísu nokkra sögu, að bæjarsjóður Seltjarnarness er meðal þeirra sem reka munu Sinfóníuhljómsveitina. Það var á vissu árabili mjög mikið að því unnið að fá önnur bæjarfélög og sveitarfélög í grennd við höfuðborgina til að taka nokkurn þátt í rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar, en þegar á reyndi tókst það ekki. T.d. vildu Kópavogskaupstaður, Hafnarfjörður eða Mosfellssveit ekki vera þarna með. Hins vegar var samþykkt í bæjarstjórn Seltjarnarness að leggja fram nokkuð úr bæjarsjóði til að reka Sinfóníuhljómsveitina. Seltjarnarnes hafði þannig að þessu leyti sérstöðu meðal sveitarfélaganna í grennd við höfuðborgina. Þessa þykir mér rétt að minnast og geta sérstaklega. En höfuðatriðið er sem sagt þetta: að ríkissjóður mundi þarna taka á sig 56% af rekstri sveitarinnar, Ríkisútvarp 25%, borgarsjóður 18% og bæjarsjóður Seltjarnarness 1%. Þetta eru þau hlutföll sem ætlað er að gildi um rekstur hljómsveitarinnar.

Ég tel að það sé mjög brýnt og mikilvægt að þetta samkomulag, sem ég vil meina að sé, verði lögfest. Í raun og veru byggist þessi 3. gr. á samkomulagi sem orðið hefur á milli þeirra aðila sem þarna eru taldir upp, og er mjög brýnt að þetta samkomulag geti náð lögfestingu.

Ég held að ef menn skoða þetta mál ítarlega muni menn komast að raun um að þetta er ekki óeðlileg skipting á rekstrarframlögum. Það er að sjálfsögðu fullkomlega eðlilegt að ríkissjóður leggi verulega til í þessu efni, og ég held að það sé einnig auðvelt að sannfæra menn um að Ríkisútvarpið hefur ekki tapað á að leggja fram fé til Sinfóníuhljómsveitarinnar, heldur skilar það sér aftur í dagskrá og dagskrárefni sem Ríkisútvarpið hefur yfir að ráða í gegnum aðild sína að rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar. Hefur reyndar verið sýnt fram á að það sé síður en svo að Ríkisútvarpið leggi þar neitt til aukalega, heldur fái það framlag sitt endurgreitt með vissum hætti. Borgarsjóður Reykjavikur hefur fallist á að greiða 18% til hljómsveitarinnar. E.t.v. geta þó verið uppi mismunandi sjónarmið um hvort borgarsjóður Reykjavíkur eigi yfirleitt að taka þátt í rekstri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. En ég er á þeirri skoðun, að það sé mjög eðlilegt, ekki síst þegar litið er á þetta mál í sögulegu ljósi, því að það verður að segjast sem er, að forráðamenn Reykjavíkurborgar á sinni tíð áttu verulegan þátt í því, að Sinfóníuhljómsveitin varð til. Borgarsjóður Reykjavíkur er þannig sögulega mjög bundinn þessu fyrirtæki, að ekki sé meira sagt, auk þess sem augljóst er að það eru umfram allt borgarar hér í Reykjavík sem hafa aðstöðu til að njóta tónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar.

4. gr., 5. og trúlega 6. og 7. gr eru mjög mikilvægar greinar allar saman, og e.t.v. eru þær þess eðlis, að eitthvað geti skoðanir manna verið skiptar um efni þeirra. Þessar greinar, 4.–7. gr., fjalla um stjórn hljómsveitarinnar, hvernig unnið skuli að því að stjórna Sinfóníuhljómsveitinni, að sjálfsögðu bæði sem fyrirtæki og einnig sem listrænni stofnun.

Í 4. gr. segir að stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar skuli skipuð fimm mönnum og síðan hverjir tilnefna skuli: einum tilnefndum af Reykjavíkurborg, einum tilnefndum af starfsmannafélagi hljómsveitarinnar, einum tilnefndum af fjmrn. og einum af Ríkisútvarpinu. Menntmrn. skipar síðan formann án tilnefningar. Þetta er fjármálastjórn hljómsveitarinnar.

Í næstu grein á eftir, 5. gr., er fjallað um hvað þessi stjórn á að gera sérstaklega. Það er m.a. að ráða framkvæmdastjóra sem ber ábyrgð á störfum sínum gagnvart stjórninni. Hann skal ráðinn til fjögurra ára í senn, en heimilt að endurráða hann. Samkv. 5, gr. á stjórnin að ákveða verksvið framkvæmdastjórans.

Ef við lítum svo á 6. gr. er vert að hyggja þar að efni málsins. Þar er gert ráð fyrir að stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar ráði fastan hljómsveitarstjóra og aðalhljómsveitarstjóra og skipi verkum með þeim. Þar er einnig gert ráð fyrir því, hversu stór hljómsveitin skuli vera. Ég vil draga athygli manna að 6. gr. að því leyti til, að í henni, eins og hún er nú orðuð, felst nokkur breyting frá því sem áður var. Nú er tekið fram beinum orðum og ákveðið að í hljómsveitinni skuli vera minnst 65 stöðugildi. Þetta er talsvert ákveðnara orðalag en hefur stundum áður verið í frv. sem borin hafa verið upp um þetta efni. Ég vil þess vegna draga athygli manna að því, að þarna er kveðið alveg fast að orði um þetta. Ég vil jafnframt mæla mjög með því við hv. deild, að þessu ákvæði verði ekki breytt, vegna þess að það er viðurkennt að 65 manns í hljómsveit sé lægsta tala sem hugsanleg sé ef hægt á að vera yfirleitt að tala um sinfóníuhljómsveit. 65 manna hljómsveit er sem sagt minnsta stærð sinfóníuhljómsveitar sem um er rætt. Slík hljómsveit á þá að vera fær um að taka að sér að flytja flest sinfónísk verk og meiri háttar verk þó að ekki sé hún stærri, en flestar sinfóníuhljómsveitir eru að sjálfsögðu miklu fjölmennari en þetta. Ég vil draga athygli manna að þessu atriði og eins hinu, að þarna er gert ráð fyrir að ráðinn sé fastur hljómsveitarstjóri og aðalhljómsveitarstjóri og að skipt sé verkum milli þeirra. Þetta er reyndar mjög í samræmi við það skipulag sem verið hefur, að það er einn ákveðinn maður sem leiðir hljómsveitina og er við alla tíð, má segja, en síðan gjarnan er fenginn hljómsveitarstjóri að, einhver sérstakur og vel fær hljómsveitarstjóri erlendur, til að taka að sér að verulegu leyti stjórn á hljómsveitinni.

Ef við lítum svo til 7. gr. er það sama að segja. 7. gr. er að vissu leyti tengd stjórn hljómsveitarinnar því að þar er að finna ákvæðin um svokallaða verkefnavalsnefnd, en verkefnavalsnefnd á að vera stjórn hljómsveitarinnar og hljómsveitarstjórum til aðstoðar við verkefnaval, eins og nafnið bendir til. Þetta er í raun og veru hin listræna stjórn, ef svo má segja, á hljómsveitinni.

Ég vil geta þess, að upp úr því er mikið lagt af þeim, sem einkum hafa fjallað um þetta mál, að þessi skipan geti haldist, að stjórn hljómsveitarinnar verði með þeim hætti sem hér er greint frá. Hinu vil ég þó ekki leyna, að það eru til menn sem gætu hugsað sér aðra skipun, sem sagt að láta líta svo út sem stjórn hljómsveitarinnar væri minni í sniðum og færri sem kæmu þar til verka, þannig að stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar og framkvæmdastjóri réðu þar enn meira en e.t.v. má segja að sé gert ráð fyrir í þessu frv. Ég legg því ákaflega mikið upp úr því við hv. þingdeild og menntmn., sem trúlega fær þetta mál til meðferðar, að þessu skipulagi verði haldið.

Síðan er haldið áfram í frv. að rekja ýmsar heimildir varðandi stjórn og skipulag á hljómsveitinni og þar stendur, eins og sjálfsagt er, að stjórnin leggi fram fjárhagsáætlun og starfsáætlun fyrir fjárveitingaraðila, fyrir Alþingi, á hverju ári með nægilegum fyrirvara o.s.frv.

Í 9. gr. er svo gert ráð fyrir að semja megi við ríkisbókhaldið um að það taki að sér bókhald Sinfóníuhljómsveitarinnar. Hingað til hefur Ríkisútvarpið að langmestu leyti annast þessi störf. Hefur það að sjálfsögðu verið mikill baggi á Ríkisútvarpinu að þurfa að taka að sér slík umfangsmikil störf og margs konar ábyrgð sem því fylgir. Við lögfestingu þessa frv. ef af verður, og með því að veita Sinfóníuhljómsveitinni lagagrundvöll sýnist eðlilegt, eins og gert er ráð fyrir í frv. beinum orðum, að hún verði sjálfstæð söfnun og þá verði önnur skipan á um rekstrarfyrirkomulag eða skrifstofufyrirkomulag en hingað til hefur verið.

Ég vil svo að lokum benda hv. þdm. á 10. gr., þar sem lögð er sú skylda á Sinfóníuhljómsveitina að fara árlegar tónleikaferðir um landið. Þá er gert ráð fyrir að til að kosta þessar ferðir eða þá starfsemi verði notaður sá hluti skemmtanaskatts sem rennur til hljómsveitarinnar, 10%.

Þetta frv. er ekki viðamikið eða margar greinar, en eigi að síður efnismikið og hefur afar mikið gildi fyrir framtíðarskipulag og framtíðarþróun Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Ég ætla ekki að halda því fram eða spá því, að Sinfóníuhljómsveitin yrði ekki til og hún dytti algjörlega út ef þetta frv. yrði ekki að lögum. Það er alls ekki skoðun mín að svo yrði eða að ég leggi málið fram með slíkum rökum. En hitt held ég þó að sé alveg augljóst mál, að það sé kominn meira en tími til að lögfesta reglur um starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem starfað hefur á mjög veikum grunni, ýmsum samningslegum grunni, nú í 32 ár. Ég vil líka geta þess, að Sinfóníuhljómsveitin er frá listrænu sjónarmiði og starfslega mjög myndarlegt fyrirtæki og hefur að mörgu leyti sýnt að hún á sér mikla framtíð. En vissulega yrði það styrkur við þetta starf ef hægt væri að lögfesta og festa enn frekar en orðið er þær reglur sem hljómsveitin starfar eftir.

Þetta mál, eins og ég gat um, var mjög ítarlega rætt í Ed. og af áhuga, að því er mér virtist. Ég hygg að þar hafi málið verið mjög ítarlega rætt og haft samband við fjöldamarga aðila, bæði þá, sem upp eru taldir sem rekstraraðilar, og einnig náttúrlega stjórnendur hljómsveitarinnar og starfsfólk. Mjög ítarleg samráð voru höfð við fulltrúa starfsfólks og ýmsa aðra aðila.

Einnig var gerð á því athugun fyrir tilstilli Ed. hvaða kostnaðarauki mundi fylgja því, ef þetta frv. yrði lögfest. Það kemur reyndar í ljós, að reikna má, samkv. því sem fjárlaga- og hagsýslustofnun gerir ráð fyrir, nokkurn aukinn kostnað hjá ríkissjóði í þessu sambandi, eða um 1.2 millj. kr. á ári. Ég veit ekki hvort ástæða er til að halda því fram, að þarna sé um mikinn kostnaðarauka að ræða. Ég held ekki. Ég held að það sé ekki ástæða til að halda því fram. Hins vegar er gott að fyrir liggur álit frá fjmrn. um hver þessi kostnaðarauki muni verða. Þess vegna vil ég geta hans hér.

Herra forseti. Ég vænti þess, að þetta frv. fái góða og greiða afgreiðslu hér í hv. deild. Að sjálfsögðu er það höfuðósk mín að þetta frv. geti orðið að lögum áður en þingi lýkur, en hins vegar sjálfsagt mál að hv. menntmn., sem ég vænti að fái málið til meðferðar, fái tíma til að fjalla um málið.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en legg til að málinu verði vísað til hv. menntmn. að lokinni þessari umr.