01.04.1982
Neðri deild: 60. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3513 í B-deild Alþingistíðinda. (3061)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég stend aðallega upp til að lýsa yfir eindregnum stuðningi við það frv. sem hér liggur fyrir. Um þetta frv. er mikið búið að fjalla og raunar þegar búið að fjalla um það sameiginlega í hv. menntmn. beggja deilda.

Um þetta frv. efnislega mætti auðvitað ýmislegt segja, og þá vil ég fyrst taka undir það sjónarmið, sem kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni að vitaskuld væri eðlilegast að Sinfóníuhljómsveit Íslands væri rekin fyrir framlag ríkisins. Það held ég að flestir geti verið sammála um. En það er alveg ljóst, eftir að þetta frv. hefur verið flutt eða svipuð frv. á einum fjórum þingum, að um þetta er ekki samkomulag og þess vegna er skiljanlegt að sú nefnd, sem vann að samningu frv., fór ekki þá leið, heldur aðra til að reyna að ná samkomulagi.

Ég vil vekja athygli á því, að Reykjavíkurborg hefur alla tíð reynt að styðja við bakið á Sinfóníuhljómsveit Íslands og borgarfulltrúar voru að mestu sammála um það, a.m.k. voru þeir fáir sem settu sig á móti því, að borgin héldi áfram að leggja fram það rekstrarfé sem hún hefur gert, sem er samkv. þessu frv. 18%. Mun það láta nærri að vera það sem Reykjavíkurborg hefur hingað til greitt. Hvort það sé eðlilegt, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, getum við hins vegar deilt um. Reykvíkingar standa vissulega nærri Sinfóníuhljómsveit Íslands, en ekkert nær en Þjóðleikhúsinu, Þjóðminjasafni eða öðrum þeim menningarstofnunum sem venjulega eru staðsettar í höfuðborg.

Ég vil ekki, þrátt fyrir þá skoðun mína að Sinfóníuhljómsveit Íslands ætti að vera rekin fyrir ríkisframlag, gera það að ásteytingarsteini. Ég mun styðja frv. með þeirri kostnaðarskiptingu sem hér er lögð til. Ég vil hins vegar lýsa nokkurri furðu minni á að nágrannabyggðirnar, bæjarfélögin hér í kring, skuli ekki hafa meiri rausn til að bera en svo, að einungis bæjarsjóður Seltjarnarness treysti sér til að taka þátt í þessum kostnaði. Ég held að það sé alveg ljóst, að auðvitað njóta bæjarbúar hér í kring þessara tónleika ekkert síður en Reykvíkingar, a.m.k. ættu fjarlægðirnar ekkí að há því.

Það er einkennilegt þegar talað er um Sinfóníuhljómsveit Íslands, að þá ræða menn gjarnan um hvað þröngúr hópur sæki tónleika hljómsveitarinnar, tala um að 1000 manns komi hálfsmánaðarlega á tónleika. Vissulega kann það að vera rétt. En ég held að menn geri sér ekki alveg ljóst hver undirstaða starf hljómsveitarinnar er í öllu tónlistar- og jafnvel leikhúslífi í borginni. Menn flykktust ekki þúsundum saman á óperu í Reykjavík ef enginn Sinfóníuhljómsveit væri. Það væri óhugsandi. Ég held að menn verði að hugsa aðeins til þess, að án Sinfóníuhljómsveitar Íslands yrðu engar ballettsýningar, enginn óperuflutningur. Það eru ótalmargar sýningar algjörlega háðar því, að hér sé starfandi sinfóníuhljómsveit. (Gripið fram í.) Vegna spurningar hv. 4. þm. Suðurl. skal það upplýst að tónlistarfólk úr Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur undir óperuflutningi þeim sem nú fer fram í Gamla bíói.

Menn tala líka gjarnan um vinnuskyldu hljómsveitarmanna. Óneitanlega er ekki hægt annað en að skilja það svo að hún sé talin lítil. Ég er undrandi á að það skuli þurfa að benda hv. þm. á að tónlist og tónlistarkunnátta og æfingar fyrir tónleika eru ekki vinna sem hægt er að leysa af hendi á venjulegum vinnutíma eins og aðra vinnu. Ég hélt að menn gerðu sér fyllilega ljóst hvers konar þjálfun þarf til að leika á hljóðfæri. Ég hélt að jafnvel flestir foreldrar, sem eiga börn sem eru að læra tónlist, gerðu sér ljóst hvílík vinna liggur á bak við hverja tónleika hjá hverjum tónlistarmanni. Ef menn telja að vinnuskylda sé lítil ættu menn að endurskoða þá fullyrðingu.

Annað, sem gjarnan ber á góma þegar talað er um Sinfóníuhljómsveit Íslands og starfsmenn hennar, er það uppeldishlutverk sem þeir eiga að inna af hendi í þjóðfélaginu. Ég hlýt að spyrja: Eru þessar kröfur gerðar til annarra fastráðinna starfandi listamanna í landinu? Hefur verið gerð sú krafa til leikara Þjóðleikhússins að þeir annist meira og minna leiklistaruppeldi í landinu? Ég held að til þessara starfsmanna séu gerðar allmiklu meiri kröfur en til flestra annarra fastráðinna listamanna.

Þegar við komum að 3. gr. um kostnaðarskiptinguna, þá sagði hv. 6. þm. Norðurl. e. áðan að honum fyndist óeðlilegt að Ríkisútvarpið greiddi 25% af kostnaði við hljómsveitina. Sannleikurinn er sá, að ég held að Ríkisútvarpið tapi hreinlega ekki á því. Ég er næstum því viss um að ef Ríkisútvarpið ætti að kaupa það efni, sem það fær frá hljómsveitinni, á þeim töxtum sem um það gilda mundi Ríkisútvarpið síður en svo hagnast á þeim skiptum. Það má hins vegar kannske segja að það sé nokkuð óvenjulegt að stofnun eins og Ríkisútvarpið sé beinn aðili að rekstri hljómsveitarinnar, en ég er alveg sannfærð um að Ríkisútvarpið tapar ekki á þeirri þátttöku.

Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið. (Gripið fram í: Þetta er bara málþóf.) Ég skal hætta því málþófi, hv. þm. Meginerindi mitt hingað var þó að lýsa því yfir, að ég er tilbúin að styðja þetta frv. eins og það liggur fyrir og skora á menntmn. hv. deildar að gera það. Ég tel að mikið sé búið að fjalla um þetta frv., það sé búið að ná ákveðnu samkomulagi. Mikill ágreiningur, sem upp færi að koma nú, yrði ekki til annars en að tefja enn einu sinni að frv. nái fram að ganga. Ég tel það satt að segja til vansa fyrir Alþingi Íslendinga ef það getur ekki heiðrað Sinfóníuhljómsveit Íslands í þakkarskyni fyrir 30 ára starf með því að setja nú loksins hljómsveitinni lög til að vinna eftir. Ég vil skora á hv. þm. að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vinna þessu frv. brautargengi. á því eru engir þeir annmarkar sem ættu að gera mönnum það erfitt.