01.04.1982
Neðri deild: 60. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3515 í B-deild Alþingistíðinda. (3062)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég lít ekki svo á að hér hafi verið neitt málþóf né heldur að þeir hv. þm., sem tekið hafa til máls um þetta frv., síst af öllu sá hv. þm. sem var að ljúka máli sínu, séu að tala gegn þessu frv. Ég tel m.a. að þær athugasemdir, sem fram komu hjá hv. 6. þm. Norðurl. e., séu á engan hátt óeðlilegar. Við erum að ræða hér mikilsvert mál og mér finnst ekkert óeðlilegt þó að hv. þm. komi að sínum athugasemdum og sjónarmiðum við 1. umr. Þess vegna er fjarri mér að líta svo á, þó að hv. 6. þm. Norðurl. e. hafi fundið eitt og annað að þessu frv. og starfsemi hljómsveitarinnar fyrr og síðar, eða skilja orð hans svo, að hann hafi verið að tala gegn frv. né því, að lögfestar yrðu reglur um starfsemi Sinfóníuhljómsveitarinnar. Hins vegar get ég ekki neitað því, að mér þótti sumt af því, sem hv. þm. hafi fram að færa sem athugasemdir, ekki nægjanlega vel grundvallað. En það er önnur saga.

Ég held t.d. að það sé ekki ástæða til að gera mikið veður út af því, þó að Sinfóníuhljómsveitin heiti þarna Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ég held að það sé ekki rétt að hún standi ekki undir nafni sem slík. Hitt er auðvitað allt annað mál, að því fer fjarri að Sinfóníuhljómsveitin hafi haft og hafi e.t.v. á næstunni fulla möguleika á að fara mjög títt í hljómleikaferðir. Ég vil samt benda hv. 6. þm. Norðurl. e. á að í 10. gr. er lögð ákveðin skylda á hljómsveitina um ferðalög og ætlast til að hún verji til þess tilteknu fjármagni sem hún hefur yfir að ráða, skemmtanaskattstekjum hljómsveitarinnar. Ég hlýt sem sagt að geta orðið hv. 6. þm. Norðurl. e. sammála um að það væri mjög æskilegt að hljómsveitin færi oftar um landið en hún gerir. En við verðum að líta þarna raunsætt á. Það er kostnaðarsamt og við verðum auðvitað að horfa á þá hlið málsins líka. Við skulum vona að Sinfóníuhljómsveitin fái aðstöðu til þess síðar og þróunin fari í þá átt að hún geti oftar farið í hljómleikaferðir um landið.

Ég vil líka taka undir það, sem hv. þm. var að nefna, að ég hefði kannske átt að leggja hér fram yfirlit yfir tónleikaferðirnar þannig að hægt væri að ganga úr skugga um hvort sá grunur hv. þm. væri réttur, að dregið hafi verið úr þeim ferðum. Ég skal fúslega viðurkenna að ég hef ekki kannað þetta mál og veit ekki hvort slíkur samanburður er fyrir hendi. Hins vegar held ég að það sé hægt að afla gagna af þessu tagi ef gengið verður í það: Mér finnst alveg sjálfsagt að menntmn., sem trúlega fær málið til meðferðar, afli slíkra gagna og kynni sér hvort reyndin sé að tónleikaferðum hljómsveitarinnar hafi fækkað fremur en hitt. Ég held að það sé hægt að ganga úr skugga um þetta.

Svo er sú gagnrýni að það sé óeðlilegt að Ríkisútvarpið greiði 25% af kostnaði. Mér er ljóst að þetta mál má ræða aftur og fram. Vissulega væri mjög eðlilegt og ekkert eðlilegra kannske en ríkið tæki á sig þennan hluta Ríkisútvarpsins, og ég get vel ímyndað mér að það fari í þá átt þó síðar verði. Hins vegar vil ég benda mönnum á það alveg í fullri vinsemd, að það væri ekki greiði við sinfóníuhljómsveitarmálið núna og lögfesting á starfsreglum hljómsveitarinnar ef ætti nú að kippa Ríkisútvarpinu þarna út. Það er sama og drepa málið. Á þetta vil ég benda. Ég fullyrði að Alþingi og reyndar ríkisstj. séu ekki á þessari stundu við því búin að taka að sér nú að greiða hlut Ríkisútvarpsins í þessu tilfelli. Ég vona því satt að segja að menn líti raunhæft á þetta mál, en ekki eingöngu út frá því sem kann að sýnast eðlilegt og rökrétt ef þannig er lítið á.

Ég vil minna á að hlutur Ríkisútvarpsins hefur minnkað frá því sem verið hefur. Ríkisútvarpið stendur nú undir 28% af kostnaði, en þarna er gert ráð fyrir að minnka þennan hlut í 25%. Ég vil líka benda á það, sem ég benti á áður og kom reyndar fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns áðan, að það verður ekki sagt, ef málin eru gerð reikningslega upp, að Ríkisútvarpið tapi á þessum viðskiptum. Hvort það græðir vil ég ekki fullyrða, en ég held að tap það, sem Ríkisútvarpið verður fyrir, sé ekki sýnilegt. Kannske átta menn sig ekki á því, í hverju þetta er fólgið, en þetta er fyrst og fremst fólgið í því, að Ríkisútvarpið útvarpar sem dagskrá hljómleikum beint. Hitt kemur líka til, að Ríkisútvarpið fær á segulbönd til geymslu allan þorrann af hljómleikum hljómsveitarinnar og margs konar verkum, sem spiluð eru inn á plötur og bönd, og getur geymt og gripið til hvenær sem á þarf að halda, þannig að mjög mikið af þeirri tónlist, sem útvarpið notar og skýtur inn í ýmsa þætti, er komið frá Sinfóníuhljómsveitinni (Gripið fram í.) Já, það er áreiðanlega talsvert mikið. Þetta er eins konar plötubanki eða segulbandsbanki sem kemur útvarpinu að miklu haldi.

Það, sem mér þótti einnig ástæða til að gera aths. við vegna þess, sem fram kom í máli hv. 6. þm. Norðurl. e., er að hann tók svo til orða að ekkert væri gert til að tengja hljómsveitina uppeldisverkefnum — eða hvernig það var orðað. Það, sem hann átti við, var það, skilst mér, að ekki væri gert ráð fyrir að hljómsveitin sinnti neitt börnum og unglingum og tæki þannig að sér að kynna unglingum, skólafólki t.d., tónlist og þá æðri tónlist. Ég held að þarna gæti nokkurs misskilnings. Í síðustu málsgr. 2. gr. er ákvæði sem mér þykir nauðsynlegt að kynna fyrir hv. deild. Þar stendur: „Tengja ber starf hljómsveitarinnar tónlistarkennslu í landinu svo sem kostur er.“ Auðvitað hljómar þetta eins og hvert annað stefnuskráratriði og enginn veit hvort þetta verður framkvæmt. En ég vil benda hv. 6. þm. Norðurl. e. á að þessi setning hefur tiltekna merkingu. Hún hefur þá merkingu að Sinfóníuhljómsveitinni beri að sinna svo sem hægt er beinni tónlistarkynningu fyrir unglinga og fyrir skólafólk. Ég verð að geta þess hér af þessu gefna tilefni, að Sinfóníuhljómsveitin leitast við að gera þetta með ýmsum hætti, m.a. með því að fara í skóla, að sjálfsögðu ekki allur skarinn í einu, en alltaf hluti hljómsveitarmanna, og þetta fellur inn í þeirra starf, auk þess sem skólafólki er tíðum boðið að koma í heimsókn til hljómsveitarinnar og þar er þessu unga fólki kynnt starf hljómsveitarinnar, hvernig hljóðfæraskipan er í hljómsveitinni og hvernig þar er starfað yfirleitt, og menn leiddir inn í þessa heima tónlistarinnar. Þarna er beinlínis gert ráð fyrir að tengja starf hljómsveitar og tónlistakennslu í landinu svo sem kostur er. Ég skal viðurkenna að þetta er stefnumarkandi ákvæði og þetta þarf að framkvæma. En þarna er þetta og það er fullur skilningur á þessu máli hjá þeim sem stjórna hljómsveitinni og unnið hafa að því að semja þetta frv. Vil ég að það komi fram.

Ýmis önnur atriði hafa vafalaust komið fram í máli hv. 6. þm. Norðurl. e. Ég skal ekki fara ítarlega út í þau. Þó tók ég eftir því, að hann var að amast við því sem menn hafa kallað „útlendingahersveitina“ innan hljómsveitarinnar. Ég skal ekki kveða upp neinn ákveðinn dóm um hvort of margir útlendingar séu þar að störfum. Ég held samt sem áður að það þurfi í sjálfu sér ekkert að vera óeðlilegt þó að allverulegur hluti hljómsveitarmanna reki ekki alveg ættir sínar til okkar hv. 6. þm.

Norðurl. e. eða sé okkur náskyldur að þjóðerni. Þetta er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt. Við erum ung og fámenn þjóð og við erum smám saman að byggja upp okkar tónlistarlíf, og það er ekkert óeðlilegt þó að við þurfum að leita til útlendinga um ýmsa aðstoð í þessum efnum. Við skulum athuga hvernig við höfum byggt upp tónlistarlíf okkar á þessari öld. Ef átt hefði að gilda í þeirri stefnu, sem þar hefur ríkt, einhver andúð á útlendingum og að bægja þeim frá ströndum landsins, þá er ég ákaflega hræddur um að orðið hefði lítil þróun hér í tónlistarlífi og ekki eins og hún hefur þó verið. Svo mikið hafa útlendir tónlistarmenn lagt af mörkum til þróunar íslenskri tónlist á þessari öld að það er fremur ástæða til að meta það og þakka það en amast við því. Í listrænum efnum verða menn að setja markið hátt, og til að spila í sinfóníuhljómsveit verður auðvitað að hafa hina bestu og hæfustu menn. Hitt er auðvitað alveg laukrétt, að við þurfum jafnframt að kosta kapps um að mennta okkar eigið fólk, sem hæfileika hefur, til að geta tekið við tónlistarstörfum, þ. á m. í Sinfóníuhljómsveitinni, og sú stefna er alveg áreiðanlega uppi. Ég held að það sé fásinna að ætla að halda því fram, að stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar beiti einhverri útilokunaraðferð gagnvart íslenskum hljómlistarmönnum. Ég held að það sé alveg útilokað að slíkt sé gert, og því mun ég síst af öllu trúa.

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr. Það er mjög mikilvægt að hv. menntmn. fái þetta mál til athugunar og vinni vel að því í umboði hv. deildar. Að sjálfsögðu munu ekki verða nein vandkvæði á að fá allar þær upplýsingar sem hægt er frekast að fá fyrir nefndina til að fá fyllri mynd af þessu máli. Það er að sjálfsögðu opið. En ég legg á það mjög mikla áherslu að nefndin hraði störfum sínum og að möguleiki sé á því að lögfesta frv. áður en þingi lýkur á þessu vori.