01.04.1982
Neðri deild: 60. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3526 í B-deild Alþingistíðinda. (3065)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég skal tala hér stutt mál og vil einungis lýsa stuðningi við þetta frv. og því, að ég er sem menntmn.-maður reiðubúinn að taka þátt í og stuðla að afgreiðslu þess eins og það hefur komið frá Ed., þó ekki væri nema af þeirri ástæðu að þetta mun vera fimmta þingið sem þetta frv. í lítið breyttri mynd er lagt fyrir. Það hefur verið lagt fram af þremur ríkisstjórnum og manni þykir kominn tími til að slík grundvallarlög, sem svo má kalla, séu sett um þessa stofnun.

Eins og rækilega hefur verið undirstrikað af mörgum hv. ræðumönnum í þessari umr. er það staðreynd, að í tónlistarlífi hér er feikileg gróska. Það má segja að það sé meiri gróska hér í tónlitstarlífi en í nokkurri annarri listgrein. Þetta á sér efalítið margar orsakir. Ein er sú, að það er orðið þéttriðið skólakerfi í tónmenntamálum. En önnur ástæða er sú, og það skulu menn ekki vanmeta, að Sinfóníuhljómsveit Íslands á bara með tilveru sinni verulegan þátt í þessari grósku. Það eru ekki aðeins þessir reglulegu tónleikar sem haldnir eru, heldur má að öðru leyti rekja margháttað tónlistarlíf til hennar og svo það að þar verða auðvitað til hinir færustu kennarar.

Þetta hefur svo sem verið rakið hér ítarlega og óþarfi við að bæta. En vegna þess að ég vil leggja áherslu á hversu nauðsynlegt er að þetta frv. verði samþykki, þá vil ég segja það, að menn hafa hér nefnt til, að ég hygg, þrjú efnisatriði sem menn vildu sjá kannske á annan veg, og allt er það mjög eðlilegt, Í fyrsta lagi er það, að Sinfóníuhljómsveitin ræki hlutverk sitt á landsbyggðinni betur, í annan stað að meira verið um það að haldnir séu skólatónleikar, og svo í þriðja lagi að starfsfólki þar verði gerð kennsluskylda.

Allt getur þetta verið sjálfsagt og eðlilegt. En þó hygg ég að það sé nokkur kjarni málsins, að þessi efnisatriði, sem nefnd hafa verið, eru stjórnunarlegs eðlis. Ég hygg að það sé ágætt að stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar, eins og nú er lagt til að hún sé skipuð, sé kunnugt um þessi sjónarmið og þennan áhuga Alþingis, en að það sé óþarfi að setja þetta í lög að svo stöddu. Menn geta vel hugsað sér það, að eftir að þessi grundvallarlög hafa verið sett, þar sem kveðið er á um stjórn hljómsveitarinnar, fjölda hljóðfæraleikara og um kostnaðarskiptingu, verði reynslan að skera úr um það, hvernig þeim hlutverkum einnig, sem hér hafa verið nefnd af öðrum hv. ræðumönnum, er sinnt. Það er þá hægur vandi fyrir næsta Alþingi, hvernig svo sem það verður saman sett, eða næstu þing að gera viðbætur við þessi lög ef mönnum þykir ástæða til. En því er þetta nefnt að það getur verið flókið mál að setja í lög skyldur um það, með hverjum hætti t.a.m. hljómsveit eins og þessi skal fara út um land, þó svo að það sé almennum orðum talað hið æskilegasta markmið.

Annað má nefna í þessu sambandi. Það hefur færst mjög í vöxt, sem er vitaskuld af hinu góða, að fólk utan af landi tekur sig saman í hópferðir til að sækja hér leikhús. Ég held að ég fari rétt með, að flugfélög séu fólki innan handar með að greiða niður ferðakostnað í slíkum tilfellum. Það má vel hugsa sér að þessi hljómsveit taki þátt í slíku með því að leika á öðrum kvöldum en hún hefur gert. Þetta nefni ég bara sem eitt dæmi og til að undirstrika hversu erfitt er að hugsa sér að setja slíkt í lög. Allt þetta getur heyrt framtíðinni til.

Hér er gerð tillaga um stjórn hljómsveitarinnar, um kostnað og um stærð hennar. Þetta eru auðvitað aðalatriði málsins. Hitt, sem nefnt hefur verið, þykir mér frekar heyra til framkvæmdaatriðum, stjórnunaratriðum. Ef hins vegar hljómsveitin þróast í næstu framtíð í þessum efnum til annarrar áttar en Alþingi hefur kosið, ef hljómsveitin sinnir ekki hlutverkum þeim sem hér hafa verið nefnd, þá er auðvitað alltaf opin leið fyrir Alþingi að gera bragarbót og viðbætur við þessi lög.

Ég held að að öðru leyti sé ekki ástæða til að fara mörgum orðum um þetta á þessu stigi. Málinu verður væntanlega vísað til hv. menntmn. Það ættu að vera allar líkur á því, að nefndin skili frv. frá sér fljótt og vel til 2. umr. og það verði að lögum á þessu þingi. Væntanlegri stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar verður áreiðanlega kunnugt um þau útfærsluatriði sem hér hafa verið nefnd, bæði áhugann hér á Alþingi og það, að slíkur vilji er til. Þá ætti að vera hægur vandi að stjórna hljómsveitinni í þeim anda. En þyki þingi í hinni allra næstu framtíð sem þar vanti eitthvað á, þá ætti að vera hægt að setja viðbætur við þessi lög.