02.04.1982
Efri deild: 63. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3532 í B-deild Alþingistíðinda. (3075)

28. mál, almannatryggingar

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég verð að játa að ég var orðinn nokkuð óþreyjufullur eftir því, að þetta mál kæmist út úr þeirri nefnd sem hafði það til meðferðar, og mun formaður hv. nefndar jafnvel hafa orðið var við þessa óþreyju mína annað veifið. Því var ég óþreyjufullur að ég taldi að málið hefði fengið svo góðar undirtektir hér í deildinni þegar það var flutt við upphaf þings, en þetta er 28. mál þingsins, að ég gerði ráð fyrir að það gæti fengið skjóta afgreiðslu. Aðalatriðið er þó vitaskuld að afgreiðsla fáist og eftir atvikum get ég sætt mig við þá afgreiðslu sem hér er lögð til af hálfu nefndarinnar.

Frv., eins og ég lagði það fram upprunalega og við þm. Alþfl., gerði ráð fyrir að kostnaður af því tagi sem hér er um fjallað, þ.e. ferðakostnaður samlagslæknis annars vegar og hins vegar óhjákvæmilegur flutningskostnaður sjúks manns um lengri vegalengd en 10 km, yrði greiddur að fullu af almannatryggingunum. Brtt. fela hins vegar í sér að fyrstu 10 km skuli greiddir af sjúklingum, hvort heldur um er að ræða flutninga á sjúklingum eða vitjun af hálfu læknis. Á sama hátt hefur nefndin gert ráð fyrir því, að ef sjúkraflutningar eiga sér stað með skipi eða flugvél skuli sjúklingurinn greiða 500 kr.

Þegar ég mælti fyrir þessu frv. í upphafi benti ég sérstaklega á það hrikalega misrétti, sem fælist í þeim reglum sem í gildi eru, gagnvart þeim sem búa mjög langt frá lækni og þyrftu jafnvel að borga fyrir 100 km akstur undir lækni, sem á þágildandi verðlagi taldist vera 275 kr. eða 27 500 gkr„ þegar læknir kæmi að vitja sjúklings, og sams konar kostnaður gæti komið upp á ef flutningur læknis gerðist t.d. með snjóbíl. Ég benti líka á það mikla misrétti sem varðaði greiðslu á sjúkraflutningum, þegar fjórðungur af flugfargjaldi næmi upp undir 2000 kr. fyrir ýmsa hluta landsins, Austfirði, Vestfirði, Norðurland, ef farið er til Reykjavíkur. Og þó að sú regla væri almenn að menn greiddu fjórðunginn, þá væri það gat í lögunum, að þegar um væri að ræða flutning milli sjúkrahúsa gæti flugfargjaldið lent að fullu á sjúklingunum, jafnvel 5–8 þús. kr.

Þær breytingar, sem nefndin leggur til að verði gerðar, fela í sér að aldrei verður um svo hrikalega gjaldtöku að ræða, um eins hrikalega mismunun að ræða og ég rakti dæmi um samkv. núgildandi reglum. Það er í rauninni sett hámark á það, hvað sjúklingarnir þurfi að greiða, í mesta lagi 500 kr. ef um er að ræða flutning með flugvél eða með skipi, og í annan stað að því er varðar sjúkraflutninga á landi, þá greiði þeir einungis kostnað vegna fyrstu 10 km, og á sama hátt að því er varðar ferðakostnað samlagslæknis, þá sé einungis greitt fyrirfyrstu 10 km.

Eins og kom fram í grg. okkar flm. með frv. á sínum tíma hafði okkur verið bent á að regla af þessu tagi kæmi til álita. Við töldum hana að vísu ekki fullnægja þeim réttlætiskröfum sem eðlilegt væri að gera, vegna þess að við teljum eðlilegt og sanngjarnt að sjúklingur beri engan kostnað af sjúkraflutningum. En eftir atvikum getum við sætt okkur við þetta og fögnum því, að svo rík samstaða skyldi nást um þetta mál og að dregið hafi verið mjög verulega úr misréttinu með því að samþykkja frv. með þessum breytingum.

Að síðustu fögnum við því, að þetta mál skuli hér koma til afgreiðslu, og væntum þess, að nú verði skammt í að þetta geti orðið að lögum.