02.04.1982
Efri deild: 63. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3534 í B-deild Alþingistíðinda. (3079)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Frv. til lánsfjárlaga var upphaflega lagt fram í þessari hv. deild og hlaut mjög ítarlega meðferð í nefnd. Nú hefur frv. verið afgreitt frá Nd. og er þá skemmst að segja af þeirri afgreiðslu, að þar var ekki um að ræða neinar teljandi breytingar á efnisatriðum lánsfjáráætlunar, en á hinn bóginn voru tekin inn í frv. ákvæði sem varða lækkun ríkisútgjalda í samræmi við efnahagsáætlun ríkisstj. fyrir þetta ár og áform um lækkun ríkisútgjalda að upphæð 120 millj. kr. Þessi ákvæði eru allmörg eins og kunnugt er.

Við meðferð málsins í Nd. var að vísu tekið inn ákvæði sem varðar raðsmíði fiskiskipa og er nú 34. gr. frv., að ríkissjóði sé heimilt, gegn þeim tryggingum sem metnar eru gildar, að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán til smíði á fiskiskipum innanlands. Nær þessi heimild til smíði fjögurra skipa í senn. Einnig er rétt að geta þess, að heimild, sem er í 6. gr. fjárlaga og miðar að því að tekið sé 15 millj. kr. lán til Bjargráðasjóðs til endurlána vegna erfiðleika í landbúnaði sem sköpuðust vegna erfiðs tíðarfars á seinasta ári, þessi heimild er hér formlega komin inn í lánsfjáráætlunina. Raunar hafa þegar verið gerðar ráðstafanir til þess að útvega þetta fé.

Herra forseti. Þar sem málið hefur hlotið rækilega meðferð hér í deildinni og ekki hafa verið gerðar neinar teljandi efnisbreytingar á frv. sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið. Ég vil þó láta þess getið vegna mikilla umr. í Nd. um væntanlega lækkun ríkisútgjalda, að ég gerði upphaflega grein fyrir meginreglum í sambandi við lækkun ríkisútgjalda þegar efnahagsáætlunin var til umr. hér í þinginu 28. jan. s.l. Síðan gerði ég aftur grein fyrir þessum þætti málsins við 3. umr. um frv. til lánsfjárlaga í Nd., en sendi síðan sundurliðaðan lista yfir lækkun ríkisútgjalda hjá hverri einstakri stofnun til hv. fjvn. og hv. fjh.- og viðskn. í Ed. og Nd. Ég tel því, að þinginu hafi verið gerð nægileg grein fyrir þessum þætti málsins, og sé enga ástæðu til að málinu sé vísað til nefndar. Hins vegar hef ég heyrt hugmyndir um að óskir komi fram um það og mun þá að sjálfsögðu ekkert hafa við það að athuga ef þess er sérstaklega óskað.