04.11.1981
Efri deild: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég get ekki neitað því, að mér fannst málflutningur hv. þm. Eiðs Guðnasonar nokkuð yfirborðskenndur, og ég stend einkum upp vegna þess sem hann sagði. Ég tel mig ekki hafa neitt minni áhuga á framgangi öldungadeilda en hann og tel mig hafa sýnt það í verki, bæði sem menntmrh. og sem fjmrh. Ég held að það hafi ekki orðið í annan tíma jafnmikill vöxtur í þessari starfsemi og einmitt á seinustu þremur árum. En auðvitað verður að hafa ákveðnar skynsamlegar reglur um hvernig á að launa þessi verk.

Ég vil vekja athygli á því, að í þessu máli er ekki deilt um aðalregluna. Það er alls ekkert deilt um að það eigi að greiða þessi störf með sérstöku álagi. Það er ekki deilt um 80–90% af þeim tilvikum sem hér er um að ræða, um kennslu í öldungadeildum. Það er deilt um undantekningarnar. Það er í raun og veru deilt um launakjör tiltölulega mjög lítils hóps, þess hóps sem ekki er hægt að segja með neinum rétti að aðstæður séu óvenjulegar hjá eða sérstakar, t. d. mikill fjöldi í bekkjardeildum eða mikil námsyfirferð. Þegar hvorugt þetta er til staðar hlýtur sú spurning að vakna, hvort ástæða sé til að halda svona háu álagi. Þetta gildir aðeins í undantekningartilvikum. Við höfum talið óhjákvæmilegt að taka launagreiðslur fyrir þessi störf til algjörrar endurskoðunar þannig að það sama gildi ekki um alla, þeir séu sérstaklega vel launaðir sem kenna við þessar sérstöku erfiðu aðstæður, og það eru langflestir sem starfa í þessum öldungadeildum, en hinir, þar sem það á ekki við, séu með eitthvað lægri hlutfallstölu.

Menn hafa verið að nefna 20, 30, 40, 50% álag í staðinn fyrir 60 og það væri sérstök matsnefnd sem skæri úr um það, eftir því hvað við á í hverju tilviki. En þegar öldungadeildarkennararnir hafa komið saman á fundi og hafa fjallað um þau drög að samkomulagi, sem hvað eftir annað hafa orðið til, hafa þeir sagt: Við viljum fá Hamrahlíðarsamningana og ekkert annað. Við erum ekki til viðtals um neitt annað. — Þeir vilja fá 60% á laun allra kennara og enga undantekningu af einu eða neinu tagi. Þannig hefur málið staðið. Fulltrúar þessara manna hafa verið til viðtals um það á samningafundum núna um hálfs árs skeið að gera þarna nokkurn mismun á og finna reglur sem gætu hentað í því sambandi, en þegar svo þessar reglur hafa verið lagðar fyrir kennarafundina segja þeir: Við viljum þetta álag til allra, annars gerum við verkfall.

Þegar hv. þm. segir hér: Ég legg á það áherslu að fjmrn. leggi sig enn betur fram til að ná þessum samningum, þá er hann bara að segja að við eigum að gefast upp í þessu deilumáli, við eigum að beygja okkur fyrir kröfunni 100% og ekki halda sjónarmiðum okkar til streitu. Það er sjónarmið út af fyrir sig, en ég hef ekki það sjónarmið. (Gripið fram í: Það voru kröfur launamanna.) Ég er hræddur um að margt yrði einkennilegt í þessu þjóðfélagi ef yfirleitt væri gengið að kröfum manna 100%.

Ég tek svo að lokum undir þau orð, sem féllu í ræðu hæstv. forseta deildarinnar, að auðvitað er það stóra málið í þessu sambandi að lög verði sett um framhaldsskóla og kveðið verði á í lögum um þessi mál, eins og til hefur staðið og hefur verið í drögum að framhaldsskólafrv. sem var lagt fram m. a. af mér sem menntmrh. fyrir tveimur árum, þar sem voru í fyrsta sinn settar fram tillögur um öldungadeildir við framhaldsskólana og hvernig kostnaður við þær skyldi greiddur.

Það er rétt, sem hefur komið fram í þessari umr., að ríkið borgar bara 1/3 af þessum launum. Hins vegar er auðvitað ljóst að samningslega séð getur ekki annar verið samningsaðili af hálfu launagreiðanda en ríkið vegna þess að kennararnir eru ráðnir við ríkisstofnanir. Það er venjulega einn samningsaðili þegar fleiri aðilar eiga aðild að stofnun, t. d. ríki og bær. Annaðhvort eru þá sveitarfélögin samningsaðilinn eða ríkið. Það er yfirleitt ekki hægt að hafa þar neitt samkrull. Í þessu tilviki er um ríkisskóla að ræða, þannig að ég held að sé alveg rökrétt og eðlilegt í sjálfu sér að ríkið sé þarna samningsaðili.

Það er hins vegar eftirtektarvert í þessu sambandi, að þarna er ekki verið að deila um neinar upphæðir. Þetta er ekki neitt fjárhagsmál. Þetta er fyrst og fremst stefnumál og þegar deilt er í þessu máli er ríkið auðvitað ekki aðeins að verja hagsmuni sína, sem eru tiltölulega smáir í þessu sambandi, heldur er það líka að verja hagsmuni .Nemendanna sem greiða 1/3 af þessum kostnaði.