02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3542 í B-deild Alþingistíðinda. (3089)

Umræður utan dagskrár

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur Sigurðsson hóf mál sitt á að ræða um virðingu Alþingis og hélt síðan áfram að tala um silfur Egils og sagði að silfur ríkisstj. væri eins og silfur Egils, því væri dritað um landið eftir hentugleikum. Ég man nú ekki betur — ég er ekkert sérstaklega sögufróður maður þó að ég hafi gaman af sögu — en Egill dræpi þrælana eftir að þeir voru búnir að grafa silfrið, að það hafi aldrei fundist. (PS: Ég biðst vægðar. Þú mátt ekki drepa mig.) Það er fjarri því að mér detti slíkt í hug og ég skal ekki fara lengra út í þessa sögu, en hv. þm. verður að finna snjallari samlíkingu en þessa ef hún á að hitta í mark.

Varðandi þetta mál, sem hér um ræðir og ég var sérstaklega spurður um, skal ég að sjálfsögðu verða við þeirri beiðni þm. að gefa skýrslu um afskipti viðskrn. af þessu sérstaká máli, sem hann spurði um, og vil strax taka fram að frekari fyrirgreiðsla en 67% lánveiting hefur ekki verið veitt í viðskrn. og ég veit ekki til að hún hafi verið veitt neins staðar frá — ekki hvað snertir gjaldeyrisfyrirgreiðslu.

Hv. þm. minntist nokkuð á skrif í dagblaðinu Tímanum um þetta mál og minntist á að ég hefði verið með hofmóð í svari mínu þar. Ég sagði í sjálfu sér ekki neitt vegna þess að ég frétti fyrst um það í fyrrakvöld og sá í sjónvarpi að það var vefengt að þeir aðilar, sem hafa keypt Einar Benediktsson til landsins, hafi átt það skip sem fór í skiptum fyrir Einar. Ég óskaði eftir því í rn. í gærmorgun að þetta mál yrði athugað. Síðan var hringt í mig í gærkvöld heima hjá mér, og ég var þá ekki búinn að koma í rn. og athuga hvað gerst hefði í þessu, þannig að það var varla von til að ég gæti gefið miklar upplýsingar, hvorki Tímanum né öðrum, um þennan þátt málsins. Ég sagði þess vegna bókstaflega ekki neitt fyrr en ég vissi frekar um hvað þessi athugun leiddi í ljós. Mér finnst því koma úr hörðustu átt þegar þm. er að drótta því að mér, að ég hafi verið með sérstakan hofmóð í mínum yfirlýsingum. Ég hef raunar ekkert sagt um málið enn þá.

Mér er það ljúft, eins og ég sagði áðan, að gefa yfirlit um það sem hefur gerst í viðskrn. varðandi þetta mál. Í bréfi, dags. 7. des. s.l., sóttu Ólafur H. Ingimarsson stýrimaður, Tálknafirði, og Níels Anton Ársælsson skipstjóri, Tálknafirði, um heimild til innflutnings og erlendrar lántöku vegna togbáts frá Englandi. Í bréfinu kom fram að umsækjendur hefðu starfað sem sjómenn frá Tálknafirði og verið helmingseigendur að mb. Fálkanum BA-309 frá Tálknafirði, sem fórst 19. sept. 1981, og einnig verið eigendur að ms. Sæhrimni ÍS-100, sem dæmdur hefur verið í Úreldingar- og Aldurslagasjóð.

Umsóknin var send til umsagnar sjútvrn. og í bréfi þess, dags. 30. des. 1981, segir m.a., en það er föst regla um meðferð svona mála í viðskrn. að þau eru send til umsagnar sjútvrn. áður en nokkrar ákvarðanir eru teknar um frekari meðferð málsins:

„Það sem bæði Fálkinn BA-309 og Sæhrímnir ÍS-100, sem voru í eigu umsækjenda, hafa verið teknir út notkun á árinu getur rn. mælt með umsókn þessari.“

Síðar reis um það deila, hver muni hafa verið lögmætur eigandi að mb. Fálkanum BA-309 þegar skipið fórst. Viðskrn. leitaði því á ný álits sjútvrn., sem hinn 4. mars staðfesti að það mælti með umsókn ofangreindra aðila. Með bréfi viðskrn. frá 4. mars sama dag var heimilaður innflutningur og erlend lántaka vegna umrædds fiskiskips. Heimildin var veitt að vandlega athuguðu máli með hliðsjón af aðild umsækjenda að útgerð báta, en annar hafði farist, en hinn verið tekinn af skipaskrá. Rn. var ekki kunnugt um neinn ágreining um eignaraðild Níelsar Ársælssonar að ms. Sæhrímni ÍS-100.

Í tilefni þeirra umræðna, sem orðið hafa varðandi þessi skipakaup, óskaði rn. í gær eftir frekari upplýsingum frá kaupendum vegna þessa máls. Í grg., sem rn. barst í gær frá Benediki Sveinssyni hrl. fyrir hönd kaupenda ms. Einars Benediktssonar, segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Hlutafélagið Vélskip hf., Tálknafirði, var stofnað 19. mars 1980 vegna kaupa á ms. Sæhrímni frá Þingeyri. Hlutafé er kr. 250 þús. og á fjölskylda Níels Ársælssonar 55%, þar af Níels Ársælsson sjálfur 42%. Gunnbjörn Ólafsson og fjölskylda eiga 45%. Ms. Sæhrímnir var gerður út frá Tálknafirði frá maí 1980 til hausts 1980, að skipið fór í Slipp í Reykjavík til viðgerðar. Skipstjóri allan tímann var Níels Ársælsson og Ólafur Ingimarsson stýrimaður. Vélskip hf. reyndi að selja skipið, en sala tókst ekki og var að lokum talið að viðgerð á skipinu mundi ekki svara kostnaði. Úreldingarsjóður og Aldurslagasjóður veittu Vélskip hf. styrki til að eyða bátnum samkv. bréfum Samábyrgðar Íslands, sem eru dags. 4. sept. s.l. Veðhafar knúðu fram uppboð á skipinu áður en til greiðslu kom úr sjóðnum til að nýta þá fyrirgreiðslu, sem samþykkt hafði verið af sjóðnum, varð samkomulag um það milli hluthafa, að Gunnbjörn Ólafsson keypti bátinn á uppboðinu, og fékkst fyrirgreiðslan úr sjóðnum færð yfir á nafn Gunnbjörns, enda þar nánast um nauðsynleg formsatriði að ræða þar sem Vélskip hf. gat ekki verið uppboðskaupandi þar sem félagið var uppboðsseljandi. Af framansögðu er ljóst að Níels Ársælsson hafði yfir að ráða meirihlutaeignaraðild að ms. Sæhrímni með hluthafaeign sinni í Vélskip hf. meðan skipið var gert úr, og skipið er dæmt í Úreldingarsjóð meðan sú eignaraðild varir.“ Þetta er úr skýrslu Benedikts Sveinssonar hrl. sem hann sendi viðskrn. í gær. Gunnbjörn Ólafsson hefur ekki haft samband við viðskrn. vegna þessa máls.

Varðandi meðferð málsins vildi ég segja að þegar það var vefengt í fyrradag, að kaupendur ms. Einars Benediktssonar hefðu verið eigendur Sæhrímms ÍS-100, óskaði ég eftir því í gær að viðskrn. athugaði málið nánar. Í morgun lágu þessar upplýsingar fyrir og eftir að hafa fjallað nánar um þær telur rn. ekki ástæðu til frekari aðgerða, nema eitthvað það nýtt komi fram sem gefur tilefni til þess.

Kaupendur Einars Benedikssonar, þeir Níels Ársælsson skipstjóri og Ólafur Ingimarsson stýrimaður, óskuðu eftir að innflutningsleyfið væri stílað á væntanlegt hlutafélag sem þeir ætluðu að stofna um kaupin á skipinu, eins og altítt er þegar menn festa kaup á nýjum skipum. Þessir menn eru starfandi sjómenn sem urðu fyrir því mikla áfalli að skip þeirra fórst við Látrabjarg í vonskuveðri í septembermánuði á árinu 1981, og þeir tveir björguðust þar, eins og kunnugt er. Þessa sjómenn vantaði því skip í stað þess sem þeir höfðu misst, og er það raunar upphaf þessa máls.

Það sem gerst hefur er að tveir bátar, mb. Fálkinn BA-309 og ms. Sæhrímnir ÍS-100, hafa verið teknir af skipaskrá. Fálkinn var 59 smálestir og Sæhrímnir 89. Einar Benediktsson er skilgreindur sem bátur þar sem hann er styttri en 39 metrar. Hann er 35 metrar að lengd og vélaraflið verður innan 900 hestafla. Þetta eru þær helstu upplýsingar sem ég get gefið um þetta mál. Mér hefur verið sagt að skipið sé tæpar 300 rúmlestir.