02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3544 í B-deild Alþingistíðinda. (3090)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hæstv. viðskrh. var mál þetta eins og önnur lík sent sjútvrn. til umsagnar og við svöruðum því eins og fram kom í svari hans, enda töldum við mjög eðlilega endurnýjun á þessum tveimur bátum sem nefndir voru í bréfi umsækjanda, Fálkanum og Sæhrímni. Þeirri reglu hefur ætíð verið fylgt, að ef útgerðarmenn óska að endurnýja skip sín fyrir gömul skip, sem tekin eru úr notkun, fái þeir heimild til þess. Ég vil leiðrétta það, sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að síðan sé flutt annað skip inn út á slíka heimild. Það er alrangt. Þegar þetta er gert eru gömlu skipin tekin af þeirri skrá úreldingar sem Fiskveiðasjóður leggur til grundvallar fyrir almennar leyfisveitingar. Þess er vandlega gætt og um það er samstarf milli sjútvrn. og Fiskveiðasjóðs. Ég kannast því ekki við eitt einasta tilfelli þar sem rúmlestatala skipa, sem sérstök skip hafa verið flutt inn í staðinn fyrir, hefur verið tekin með í því sem lagt er almennt til grundvallar. Ég leyfi mér að fullyrða að svo sé ekki því að þess er vandlega gætt.

Hv. þm. taldi óeðlilegt að útgerðarmaður, sem selur skip í gegnum Úreldingarsjóð, fengi heimild til að endurnýja skip sitt. Það var orðað svo af einum ágætum hv. þm., að Úreldingarsjóður væri ekki til þess að taka útgerðarmenn úr umferð, heldur skip. Ég er honum sammála um það, enda vil ég upplýsa að það, sem fæst úr Úreldingarsjóði, dugar yfirleitt varla til að borga þær skuldir sem hvíla á gömlu skipunum. Það gerir það áreiðanlega ekki í þessu tilfelli, þannig að ég hygg að það hafi ekki komið eyrir af úreldingarfé til að kaupa hið nýja skip. A.m.k. kemur mér mjög á óvart ef svo er.

Það er haft eftir mér að ég hafi verið plataður í þessu máli. Reyndar átti að bæta við: Ef rétt reynist það sem fullyrt er hef ég verið plataður. — Það kom ekki fram í greininni, en mér heyrist á svari hæstv. viðskrh. að tvímælalaust hafi fyrirtækið Vélskip hf. á Tálknafirði verið meirihlutaeigandi að Sæhrímni og þá m.a. sá ungi maður, sem er að kaupa nýtt skip, og fjölskylda hans. Sú breyting á eignaraðild, sem verður við uppboð á skipinu, virðist vera nánast formsatriði. Hins vegar kom í ljós, í sambandi við Fálkann BA-309 að umsækjendur gátu ekki fært sönnur á eign sína á Fálkanum. Mér er hins vegar persónulega vel kunnugt um að þessir menn gerðu Fálkann út eftir að hann var keyptur og meðan hann var ofansjávar, og ég leyfi mér að fullyrða að þeir menn, sem til þekkja, m.a. á Tálknafirði, hafi talið þessa menn meðeigendur að Fálkanum. En það er rétt, að í ljós kom að þeir hafa ekki afsal til að sanna sitt mál. Þess vegna kom umsóknin aftur til sjútvrn. Þá höfðu þessir ungu menn lagt í töluverðan kostnað til að festa sér þetta einkaskip. Miðað við að Sæhrímnir var 120 rúmlesta skip, var eftir atvikum talið rétt að mæla með því að endurnýjun fengist út á það skip eitt. Ég viðurkenni að okkur þótti stækkunin þá fullmikil miðað við að Fálkinn er dottinn út úr myndinni, en miðað við þessi atvik, eins og ég hef nefnt, þótti þó rétt að mæla með þessu, og mér heyrðist, eins og ég sagði áðan, að fram kæmi hjá hæstv. viðskrh. að það hafi verið út af fyrir sig eðlilegt.

Hv, þm. spurði hvort skipið hafi verið skoðað o.s.frv. Að sjálfsögðu. Það fær ekkert skip að koma inn í landið nema með heimild frá Siglingamálastofnun. Það er þá ekki tollafgreitt. Að sjálfsögðu var svo í þetta sinn. 12. jan. 1982 skrifar Siglingamálastofnun umsögn um skipið, sem er þá byggð á teikningum og öðrum upplýsingum sem hún hafi fengið. Þar eru gerðar ýmsar athugasemdir, m.a. aths. við íbúðir. Reyndar kemur fram að klefarnir séu stórir og ýmislegt sé út af fyrir sig jákvætt við klefana, en þó er talið nauðsynlegt að lagfæra þar einangrun, lagfæra gólf, bæta við sturtu o. s. frv„ svo að ég nefni eitthvað af því sem nefnt er í þessari umsögn. Síðan er farið utan og litið á skipið og væntanlegum kaupendum gerð grein fyrir því með bréfi 18. febr. 1982, hvað þurfi að gera við skipið áður en það fái haffæriskírteini. Í þessu bréfi segir m.a., með leyfi forseta:

„Getur siglingamálastjóri fyrir sitt leyti fallist á að skip þetta verði flutt til landsins og að skráning þess verði leyfð á Íslandi, að því tilskildu að eftirfarandi atriðum, sem hér eru upp talin, verði fullnægt í síðasta lagi áður en endanlegt haffæriskírteini verður gefið út.“

Síðan eru talin upp 32 atriði, sum mjög smávægileg. það eru nánast lagfæringar sem hver maður getur gert. Það eru að sjálfsögðu gerðar kröfur um að björgunarbátar séu yfirfarnir og séu í lagi og yfirleitt gerðar kröfur um allan þann öryggisbúnað sem er til í íslenskum reglugerðum um slík skip. Sumt af því er mjög lítilfjörlegt. Annað, sem breyta þarf, er stærra. Sé ég ekki ástæðu til að lesa listann hér upp, en hv. fyrirspyrjandi getur að sjálfsögðu fengið aðgang að honum ef hann vill. Þó vil ég nefna atriði sem kunna að vera stærri, eins og t.d. að setja upp vökva- eða rafknúinn skutrennuloka, lagfæra fiskimóttöku í aðgerðarrými, lagfæra lúgur fyrir fisk á þilfari, koma í veg fyrir að sjór geti runnið þar niður um o.s.frv. Það er fjölmargt sem hér er talið upp, þannig að ég hygg að ég geti fullvissað hv. fyrirspyrjanda um að þetta skip hefur verið vandlega athugað og gerðar til þess allar þær kröfur sem eru gerðar til fiskiskipa.

Hitt vil ég svo taka fram, að það verður að vera útgerðarmannanna sjálfra að ákveða hvort þeir kaupa skip hafandi fengið þessi skilyrði í hendurnar. Sjútvrn. getur ekki tekið neinn þátt í því, enda hygg ég að útgerðarmennirnir séu sjálfir, a.m.k. í langflestum ef ekki öllum tilfellum, langsamlega færastir um að meta slíkt, a.m.k. þeir sem einhverja reynslu hafa. Sömuleiðis stuðlar sjútvrn. að sjálfsögðu ekki að því að samningar á milli sjómanna og útgerðarmanna séu brotnir. Það kemur vitanlega ekki til mála. Um það allt verða útgerðarmenn sjálfir að fjalla við sjómannafélög á sínum stað, og ég er viss um að svo verði gert í þessu tilfelli.

En án þess að fara nú ítarlega út í almenna endurnýjun flotans vil ég fara um það fáum orðum.

Ég er þeirrar skoðunar, að það þurfi að endurnýja bátaflotann, og ég vil mjög gjarnan stuðla að því, að það verði gert með innlendri skipasmíði. Ég vil að þau skip séu fullkomin og góð, og því hefur verið að því stefnt að koma hér af stað raðsmíði sem megi lækka verulega innlendan smíðakostnað á skipum. En ég vil taka skýrt fram að takist það ekki kemur ekki til mála að miklu hærri kostnaður við endurnýjun skipa innanlands verði gerður að útgerðarvandamáli. Staðreyndin er nefnilega sú, að við eigum í samkeppni við þjóðir í kringum okkur sem njóta að því er virðist langtum lægri smíðakostnaðar en býðst hér innanlands. Eins og ég segi tekst vonandi að lagfæra það með raðsmíðum. Ég fæ á borðið hjá mér svo að segja daglega frá hinum mætustu og virtustu útgerðarmönnum samanburðartölur á því, hvað kostar að smíða skip hér innanlands og smíða nýtt skip erlendis. Við vitum að í þessu eru alls konar niðurgreiðslur erlendis, sem við ráðum því miður ekki við. Eina leiðin til að reyna að lækka þetta er með raðsmíðinni. En ofan á aðra aðstoð, sem sjávarútvegur erlendis nýtur, sem er gífurleg, er vart unnt að leggja á Íslenska útgerðarmenn að borga þennan mikla kostnaðarmun. Ég endurtek: Vonandi tekst að lækka hann. Þess vegna hef ég talið rétt, að þegar útgerðarmaður tekur skip úr notkun verði honum heimilt á sama ári að flytja inn skip sem er með svipaðan sóknarþunga. Það fer ekki alveg nákvæmlega eftir brúttórúmlestatölunni. (Gripið fram í: Hvað var Sæhrímnir stór?) Sæhrímnir — ég held að ég fari rétt með — var 120 lestir. Eins og ég sagði áðan er fullmikill stærðarmunur á þessum skipum eftir að Fálkinn dettur út.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta. Ég vil leyfa mér að fullyrða að í mjög mörgum tilfellum hefur tekist að fá ágæt skip, notuð, erlendis, sem hafa sómt sér vel í hinum íslenska flota. Ég er þeirrar skoðunar, að þetta skip sé í eldra lagi, og það er ljóst, að það þarf að gera ýmislegt við það. Ég vil lýsa von minni að þetta skip verði happadrjúgt á íslenskum fiskimiðum.