02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3548 í B-deild Alþingistíðinda. (3092)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Efnislega ætla ég ekki að ræða þessa fsp. sem hv. 1. landsk. þm. bar fram, og til þess liggja persónulegar ástæður að ég geri það ekki þó að ég gæti margt um þetta mál sagt. En ég kveð mér hér hljóðs vegna ummæla og svars hæstv. viðskrh. þar sem hann sagði að þetta leyfi hafi verið veitt og veitt leyfi til 67% erlendrar lántöku. Ég vil spyrja hann eftir hverju hann fer og hvernig hann meti og vegi menn sem sækja um innflutning skipa.

Áður en ég kem að því vil ég að það komi alveg umbúðalaust fram, að ég hefði talið skynsamlegast að leyfa ekki innflutning á einu einasta skipi á árinu 1981 og viðhalda því einnig á árinu 1982. Þá væri ekki verið að mismuna neinum, þá hefði erlend skuldasöfnun orðið mun minni og þá hefði verið léttara undir fæti á mörgum sviðum. En þegar farið er út í það að veita einum og neita öðrum, þá skil ég ekki þankagang hæstv. viðskrh.

Á s.l. hausti sótti útgerðarmaður frá patreksfirði um leyfi til að kaupa skip erlendis frá, sem var af sömu stærð og skipið sem hann átti fyrir og var orðið ónýtt eða svo gott sem. Það borgaði sig ekki að gera við það. Þetta er fullorðinn maður sem búinn er að vera sjómaður allt sitt líf, skipstjóri og útgerðarmaður nú sennilega í tvo áratugi. Hann sækir um innflutning á skipi. Hann fær svar að lokum frá viðskrh. um að honum sé heimilað að taka 67% erlent lán. Það var það sem hann bað um. En svo bætti hæstv. viðskrh. við því skilyrði, að Fiskveiðasjóður tæki við og endurlánaði, vitandi að Fiskveiðasjóður hefur tekið upp þá stefnu að bæta ekki við flotann og síst af öllu að veita lán til skipakaupa erlendis frá. Nú segir sami hæstv. ráðh. áðan um útgerðaraðila sem hefur gert út í fimm mánuði: Ég veiti honum leyfi til að taka 67% lántöku án nokkurs skilyrðis frá Fiskveiðasjóði. — Hvar er réttlætið hjá þessum hæstv. ráðh.? Hvernig ætlar hann að réttlæta þessar gerðir sínar gagnvart Alþingi og gagnvart þjóðinni? Það er eitthvað þarna á bak við. En hvað er það? Vill ekki hæstv. ráðh. upplýsa hvað það er, af hverju hann dregur menn þannig í dilka? Á að refsa mönnum sem eru við þennan atvinnuveg alla ævina?