02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3550 í B-deild Alþingistíðinda. (3095)

Umræður utan dagskrár

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég er hér með í höndunum afsal þar sem Sæhrímnir hf., Þingeyri, selur og afsalar Vélskipi hf., Tálknafirði, vs. Sæhrímmi, ÍS-100. Þetta afsal er dags. 20. mars 1980 og það hefur legið í viðskrn. þannig að það fór ekkert á milli mála á þessum tíma hver átti Sæhrímni, þó að upp kæmi ágreiningur milli aðila um það, hver ætti minni bátinn, Fálkann.

Hv. þm. Pétur Sigurðsson sagði að það væri framsóknarlag á þessu nýja skipi. Það er skuttogaralag á því og það er þá framsóknarlag. Ég uni því ágætlega ef skuttogaralagið er orðið að framsóknarlagi, vegna þess að skuttogarafloti þjóðarinnar — þó menn séu að skammast út í hann daginn út og daginn inn — færir meiri björg í bú og er meiri undirstaða undir íslenskt efnahagslíf, atvinnulíf og þjóðarbú heldur en kannske margan grunar. Ég get þess vegna vel fellt mig við það að skuttogaralagið sé framsóknarlag. (Gripið fram í: Ertu að segja mér þetta kannske?) Já, ég er að segja hv. þm. þetta meðal annarra.

Það hefur komið fram í þessu máli, að það eru tvö skip, sem hafa verið tekin af skrá, og veitt leyfi fyrir einu í staðinn. Ég hef raunar engu við það að bæta sem ég hef áður sagt í því efni. Hv. þm. Matthías Bjarnason gerði að umræðuefni þær reglur sem farið væri eftir í sambandi við veitingu á innflutningsleyfum fyrir skip. Ef um er að ræða notuð skip eru í raun og veru engar fastákveðnar reglur. Þegar um er að ræða ný skip erlend er reglan sú, að Fiskveiðasjóður verður að lána 50%, 17% fá menn að láni beint erlendis frá, og það verður að skipta á skipum, taka skip af skrá. Hins vegar er ekki tekið fram að það þurfi að vera nákvæmlega jafnstór skip, og það getur vel verið ágreiningsefni í þessu máli að stærra skip er keypt. En ég verð að segja það, að þó að ég viðurkenni þau sjónarmið að gæta þarf þess, að fiskiskipastóllinn verði ekki allt of stór, þá er ég algerlega mótfallinn því, að spenna þetta í spennitreyju þannig að menn, sem vinna við þessa atvinnugrein, geti sig hvergi hrært, þeir verði að kaupa nákvæmlega jafnstórt skip og það sem tekið er af skrá. Ég er algerlega mótfallinn því og ég tel mjög eðlilegt að útgerðarmenn fái heimild til þess að stækka við sig skip, ef þeir á annað borð þurfa að skipta, þó að ég viðurkenni að reglurnar um mörkin milli togara og báta séu þýðingarmikil mörk sem verður að hafa í huga.

Það verða að vera sérstakar ástæður fyrir hendi að mínu mati ef veitt er leyfi fyrir láni fram hjá Fiskveiðasjóði. Og ég áleit að það væru sérstakar ástæður fyrir hendi í þessu máli. Það voru sjómenn, það var skipstjóri og það var stýrimaður, sem misstu sitt skip og munaði minnstu að þeir týndu lífinu, og ég tel að það séu svo ríkar ástæður í sambandi við slík mál að ástæða sé til að gera undantekningu. Um þetta kunna að vera skiptar skoðanir. En ég verð að segja það, að þegar menn eru hér að tala um virðingu Alþingis finnst mér spurning hvort svona mál á að gera að stóru og löngu umræðumáli á Alþingi, að menn, sem hafa misst skip, sjómenn, fá leyfi til að kaupa annað skip. Mér finnst það vera mikil spurning.

Hv. þm. Matthías Bjarnason sagði fyrst að það hefði ekki átt að veita leyfi fyrir neinu skipi á þessu ári — engu skipi. Ég veit ekki betur en hann hafi talað við mig um að vinna að þessu sérstaka máli, og ég taldi það ekkert athugavert. Þessi maður, sem hann nefndi, hefur nú fengið lán úr Fiskveiðasjóði og hann fær innflutningsleyfi

fyrir skipi. Það er rangt hjá Matthíasi að ég hafi unnið á móti því. Ég hef verið því vinveittur að svo miklu leyti sem ég hef komið að því máli.