02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3553 í B-deild Alþingistíðinda. (3097)

Umræður utan dagskrár

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég skal reyna að stytta mál mitt sem mest ég má, en í fyrsta lagi langar mig til þess að leiðrétta það sem kom fram hjá hæstv. sjútvrh. og var af. hans hálfu talin ein veigamesta forsenda fyrir því að réttlæta það, að Einar Benediktsson yrði fluttur inn í landið í staðinn fyrir Sæhrímni ÍS-100. Það er það atriði sem hann gat um hér skýrt og greinilega í ræðustól, að hann hafi talið að Sæhrímnir væri 120 brúttólestir að stærð. Samkv. skrám og upplýsingum, sem hægt er að ná í, á bls. 186 í skipaskrá, var þetta skip 87 brúttólestir. Þó að við leggjum saman brúttólestatölu Sæhrímnis og Fálkans nær sú brúttólestatala ekki helmingnum af stærð hins nýja skips, Einars Benediktssonar, sem er 312 brúttólestir. Auðvitað er þetta ekki einhlítur mælikvarði á sóknarþungann, en þetta segir samt sína sögu, og vegna þess að hæstv. ráðh. gerði þetta að stóru máli í sínum málflutningi taldi ég rétt að þetta kæmi hér skýrt og greinilega fram. Sæhrímnir ÍS var 87 brúttólestir en ekki 120. Fálkinn, sem núverandi eigendur Einars Benediktssonar geta ekki sýnt fram á að þeir hafi verið eigendur að, er 59 brúttólestir. Einar Benediktsson er, eins og hér hefur komið fram, 10 ára gamall togari, 312 lestir. Og það hélt ég að allir, a.m.k. allir hv. þm. Vestfirðinga vissu, að við þær gæftir, sem þar verður að sæta í útgerð, er stórkosttegur munur að vera á togara — ég endurtek — togara á borð við Einar Benediktsson eða á smábátum eins og Sæhrímni og Fálkanum. Þetta vita þeir sem hæla sér mest af því að hafa flutt skuttogara til landsins. Sóknarþunginn er því engan veginn sambærilegur.

Þá hefur það komið fram, herra forseti, í þessum umr. að heimiluð var 67% erlend lántaka í þessu skyni. Þetta ber að skoða með tilliti til ákvörðunar Fiskveiðasjóðs í gær um að lækka lánshlutfall úr 66% í 60%. Í hvaða skyni? Í því skyni að koma í veg fyrir og draga úr innflutningi fiskiskipa til landsins. Á þetta ber að leggja áherslu og sýnir annars vegar ákvörðun hæstv. ráðh. og hins vegar viðleitni stjórnar Fiskveiðasjóðs til þess að koma í veg fyrir þá þróun sem hefur átt sér stað hér að undanförnu.

Við þetta allt saman bætist — svo sem kom réttilega fram hjá hv. síðasta ræðumanni, 4. þm. Suðurl. — að sóknin hefur verið að aukast í þorsk vegna þess að loðnuflotinn hefur að verulegu marki verið settur á þorskveiðar, þar sem loðnuveiðar hafa brugðist. Þeir menn, sem bera ábyrgð á því að leyft er að flytja inn 312 tonna togara í staðinn fyrir 87 lesta bát bera ábyrgð á því að við búum hér á landi við sífellt rýrnandi lífskjör. Þessir hæstv. ráðherrar hafa lýst því yfir að þeir vilji telja niður verðbólguna, en þeir eru að telja niður lífskjörin.