02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3556 í B-deild Alþingistíðinda. (3101)

Umræður utan dagskrár

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég er hræddur um að ég ætli aðeins að syndga upp á náðina núna, eftir að samstarfsmaður forseta hér, hv. þm. Alexander Stefánsson, leyfir sér að viðhafa þau orð sem hann hafði. Að vísu læt ég það liggja á milli hluta hvort ég sé borinn þeim sökum af þessum sveitastjórnarmanni á Vesturlandi, að ég vilji ekki öryggi sjómanna sem mest, enda geta þeir sjálfir frekar borið um það heldur en hann og flokksbræður hans. Hitt vil ég leiðrétta hjá honum, að ég hef ekki í þessum umr. borið hæstv. sjútvrh. þeim sökum að hann vildi ekki sem mest öryggi þeirra sem sjó stunda. Hins vegar benti ég á það, að hann og framsóknarmenn og aðrir ráðherrar ríkisstj. hafi ekki látið íslenska sjómannastétt fylgjast með í þeirri félagslegu þróun, sem þeir hafa keypt sér fylgi við hjá öðrum stéttum þjóðfélagsins.

Þá vil ég einnig benda þessum hv. þm. á það, þegar hann talar um að við megum ekki koma hér upp utan dagskrár vegna sérstakra mála, — ég vil benda honum á það og jafnframt flokksbróður hans, forseta Sþ., að tvisvar fór ég fram á það við þessa menn í síðustu viku að fá að taka til máls utan dagskrár vegna ósannra orða sem þessi hv. þm., Alexander Stefánsson, viðhafði í blaðagrein fyrir skömmu. Þeir sögðu báðir: Nei, það er enginn tími til þess. Þú verður að bíða. Við þurfum að pumpa áfram mútufrv. ríkisstj., sem flokksbróðir þessa hv. þm. kallar svo, formaður þingflokksins, hv. þm. Páll Pétursson. — Þá er þessari setningu lokið, herra forseti.