02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3561 í B-deild Alþingistíðinda. (3112)

260. mál, verslanaskrár og veitingasala

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. á þskj. 548, sem er 260. mál þessa hv. þings, um breytingu á tvennum lögum raunar: annars vegar lögum nr. 42/1903, um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, og hins vegar lögum nr. 53/1963, um veitingasölu, gististaðahald o.fl. Flm. þessa frv. eru úr allshn. Nd.

Svo sem kunnugt er hafa í vetur orðið allnokkrar umræður um erlend nöfn á íslenskri atvinnustarfsemi og kemur þar raunar tvennt til. Í fyrsta lagi ber að taka fram, að árið 1959 var gerð lítils hátta breyting á lögum nr. 42 frá 1903 — raunar um sama mál — þar sem lagt var bann við því, að atvinnustarfsemi, sem heyrði undir þau lög, bæri erlend nöfn. Hins vegar tókst svo illa til í það skipti, að í lögunum varð prentvilla. Sagt var að ágreiningi, sem rísa kynni, skyldi vísa til Örnefnanefndar. Hún starfar samkv. lögum nr. 35 frá 1953, en í lögunum frá 1959 var vísað til laga nr. 33 frá 1953. Ef menn skoða lagasafn er raunar tekið fram neðanmáls að hér sé um augljósa prentvillu að ræða. Engu að síður hefur þessi prentvilla staðið framkvæmd laganna fyrir þrifum.

Eftir allítarlega athugun í allshn. er þessi augljósa prentvilla í fyrsta lagi leiðrétt. Í annan stað er viðbót í 8. gr. laga nr. 42 frá 1903. Í lögunum sagði að nafn það, sem notað er við atvinnuna, og undirskrift fyrir hana eigi að lúta ákvæðum sem hér fara á eftir o.s.frv., „enda beri fyrirtækið nafn, sem samræmist íslensku málkerfi að dómi skrásetjara“. Nú hefur reynslan leitt í ljós að þetta er ekki alveg svona einfalt vegna þess að það er gerlegt að skrá fyrirtæki og þá undir alíslensku nafni, en síðan rekur fyrirtækið atvinnustarfsemi undir öðru nafni og þá nafni sem ekki samrýmist íslensku málkerfi í hvívetna. Fyrir vikið er bætt inn í lagagreinina þessum orðum: „enda beri fyrirtækið og atvinnustarfsemi þess nöfn, sem samrýmist íslensku málkerfi að dómi skrásetjara“. Síðan kemur, eins og reyndar verður í lögunum þegar prentvillan hefur verið leiðrétt: „Ágreiningi, sem rísa kann út af nafni, má skjóta til nefndar þeirrar, sem starfar samkv. lögum nr. 35/1953“. Þessi breyting er gerð við 8. gr. laga nr. 42 frá 1903 og þá lagt til að jafnframt falli úr gildi lög nr. 24 frá 1959, sem er sú lagagrein, sem ég hef vísað til, með prentvillunni.

Í annan stað er lagt til að inn í 4. gr. laga nr. 53 frá 1963, sem er um veitingasölu, gististaðahald o.fl., þar sem talin eru upp skilyrði fyrir því, að menn geti rekið slíka starfsemi, sé bætt fjórða skilyrði, sem sé því, að óheimilt sé að veita leyfi ef nafn á fyrirtæki og eða atvinnustarfsemi falli ekki að hljóðkerfi og beygingum í íslensku máli. Og enn fremur til samræmis: Ágreiningi, sem rísa kann út af nafni, má skjóta til nefndar þeirrar sem starfar samkv. lögum nr. 35 frá 1953.

Herra forseti. Ég hygg að í raun og veru sé hér aðeins um að ræða leiðréttingar sem gangi til þeirrar áttar sem áður hafði vakað fyrir löggjafanum í þessum efnum, en í ljósi reynslunnar sé nauðsynlegt að gera þessar breytingar svo að þau lög nái tilgangi sínum, þ.e. þeim tilgangi sem þeim áður var ætlað.

Svo sem ég hef tekið fram er þetta mál flutt af nefndarmönnum í hv. allshn. Nd., en í desembermánuði barst nefndinni bréf þar sem á þessi efni var bent. Þar sem frv. er flutt af nefnd læt ég, herra forseti, nægja að óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr.