02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3563 í B-deild Alþingistíðinda. (3116)

131. mál, útflutningsgjald af grásleppuafurðum

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Segja má að tvö mál séu til umræðu sem hljóti að fara saman, þ.e. 12. dagskrármálið, útflutningsgjald af grásleppuafurðum, og 11., sem er breyting á lögum um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins og varðar einnig grásleppuafurðir.

Samkv. 12. dagskrármálinu er lagt til að 3.25% útflutningsgjald verði lagt á grásleppuafurðir, og í 3. gr. frv. er lagt til að því verði skipt þannig, að 41% þessa gjalds renni til greiðslu iðgjalds af líf-, slysa- og örorkutryggingum skipverja, 20% renni til Aflatryggingasjóðs sjávarútvegsins, 24% til Fiskveiðasjóðs Íslands og 15% til Samtaka grásleppuhrognaframleiðenda. Aðrar greinar þessa frv. eru í fullu samræmi við þær reglur sem gilda um greiðslu útflutningsgjalds. Tel ég mig ekki þurfa að rekja það nánar.

Ég vil hins vegar upplýsa að þetta mál er reyndar fylgifrv. frumvarpsins um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins og hafa þau verið lengi í smíðum. Þau voru samin í samráði við Samtök grásleppuhrognaframleiðenda fyrir tveimur árum og lögð fram á hinu háa Alþingi á síðasta þingi, en urðu þá ekki útrædd. Hins vegar var mikið fjallað um þau í nefnd í hv. Ed., og eftir þá umfjöllun ákvað sjútvrn. að taka málið til endurskoðunar. Það var gert s.l. sumar. Þessi mál, um útflutningsgjald af grásleppuafurðum svo og Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, voru tekin til gagngerðrar endurskoðunar og lögð fram að nýju nú nokkru fyrir áramótum. Þau hafa að nýju fengið ítarlega meðferð í sjútvn. Ed. og hefur þar enn verið breytt nokkuð til samkomulags, m.a. fellt niður ákvæði til bráðabirgða um greiðslu gjalds til byggingar á geymsluskemmu hér í Reykjavík. Þetta var nauðsynlegt til að ná samkomulagi um frv., og er ekki farið fram á að þetta verði endurskoðað að neinu leyti. Þó tel ég sjálfsagt að geta þessa hér, vegna þess að þar var um samkomulagsatriði með grásleppukörlum að ræða, og ég tei alveg tvímælalaust að góð geymsla sé nauðsynleg til að varðveita þessa afurð. Það hefur komið mjög fram í vetur. Ég vil jafnframt geta þess, að til samkomulags hef ég heitið því að aðstoða samtökin við að koma upp geymslu eftir nánari athugun, m.a. með því að mæla með lánveitingu til byggingar á slíkri geymslu úr Fiskveiðasjóði, þannig að þó ákvæðið til bráðabirgða um geymsluna sé fellt úr frv. hef ég heitið því að aðstoða við framgang þess. Þetta vil ég að komi fram.

Ég veit ekki hvort hæstv. forseti leyfir mér að fara örfáum orðum um 11. dagskrármálið, það er svo nátengt.

Eins og ég las upp úr frv. um útflutningsgjald af grásleppuafurðum, 3. gr., er ætlað að 20% gjaldsins renni til Aflatryggingasjóðs sjávarútvegsins. Það er einmitt ráðstöfun þess fjármagns hjá Aflatryggingasjóði sjávarútvegsins sem frv, á þskj. 138 fjallar um. Gert er ráð fyrir að þegar fjallað sé um ráðstöfun á þessu fé vegna grásleppuhrognaframleiðenda taki fulltrúi frá Samtökum grásleppuhrognaframleiðenda sæti í stjórn Aflatryggingasjóðs. Ég vil geta þess, að einnig það frv. var endurskoðað í sumar. Gert var ráð fyrir því áður, að við Aflatryggingasjóð yrði sérstök deild, en það mætti andstöðu og var því fallið frá því og náðist fullt samkomulag við stjórn Aflatryggingasjóðs sjávarútvegsins um að sá háttur yrði á hafður sem nú er gert ráð fyrir í frv. Hefur það farið óbreytt í gegnum hv. Ed.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til að frumvörpunum báðum, ef ég má orða það svo því að ég geri ekki ráð fyrir að hafa aðra framsögu um frv. um Aflatryggingasjóð, verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.