02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3564 í B-deild Alþingistíðinda. (3119)

131. mál, útflutningsgjald af grásleppuafurðum

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Suðurl. virtist ekki hafa mikinn skilning á þessu máli, enda mun hægt að fara á stuttum tíma úr hans kjördæmi á fund í Reykjavík, og kannske speglar það afstöðuna. Hins vegar væri fróðlegt að vita hvert þessi 15% ættu að fara, ef samtökin mundu nú klofna, og hvort það væri réttlætanlegt, ef stærri hópur stæði fyrir utan, að skattleggja hann til að greiða til þess hóps sem hefur nokkurs konar prókúruumboð fyrir nafninu Samtök grásleppuhrognaframleiðenda.

En hitt, hvort við eigum að skipta okkur af hvernig félög skipuleggja sín mál í þessu landi, hlýtur náttúrlega að vera spurningin um hvort við gerum einhverjar kröfur til skipulagningar félaga ef við ætlum að fara að lögþvinga greiðslur til þeirra. Hin almenna regla félaga er sú, að félagsmenn greiði skatt af fúsum og frjálsum vilja til þeirra samtaka sem þeir eru í.