02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3565 í B-deild Alþingistíðinda. (3120)

131. mál, útflutningsgjald af grásleppuafurðum

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Aðeins út af þessu máli. Ég hef að vísu fullan skilning á því sem hv. 5. þm. Vestf. fjallar hér um, og ég get tekið undir það með honum, að æskilegt er að lýðræði í hverjum félagsskap sé sem allra mest. Hins vegar verð ég að tjá mig sammála hv. 4. þm. Suðurl. því að ég fæ alls ekki séð hvernig við getum skyldað Samtök grásleppuhrognaframleiðenda í þessari lagasmíð til eins eða neins í þessu sambandi. Ég held að það sé ekki hægt.

Hins vegar vil ég láta það koma hér fram, að ég hef átt marga fundi með stjórn þessara samtaka og ég hef sannfærst um að það er ekki bara út af þessu máli, heldur fjölmörgum öðrum hagsmunamálum grásleppuhrognaframleiðenda algerlega nauðsynlegt að þarna séu ein samtök. Ég verð að segja að t.d. í sambandi við stjórnunarhugmyndir sem við erum líklega neyddir til að framkvæma, þ.e. að takmarka grásleppuveiðar, er mjög mikils virði fyrir okkur í sjútvrn. að hafa þessi samtök til að styðjast við. Allt, sem við höfum gert í þessum málum, hefur verið gert í fullu samráði við þau samtök.

Mér er hins vegar ljóst að innan samtakanna eru töluverðar deilur. Það kunna að vera ýmsar skýringar á því, m.a. kannske þær, að menn telja sig ekki hafa nægilega mikil áhrif á stjórn samtakanna. Í stjórninni eru þó menn sem stunda grásleppuveiðar annars staðar en á Suðvesturlandi. Ég ætla ekki að fara að ræða um þær deilur, en það er eindregin von mín að þær sjatni og þessi samtök eflist. Ég held að það sé ákaflega nauðsynlegt fyrir grásleppuhrognaframleiðendur.

Áður en við hófum að skipta að ráði við þessi samtök gengum við úr skugga um að yfirgnæfandi meiri hluti þeirra, sem hafa haft leyfi frá sjútvrn. til grásleppuveiða er í þessum samtökum. Sá fjöldi hefur stöðugt farið vaxandi. Ég hef leyft mér að líta svo á að þetta væru þau einu samtök sem við gætum stuðst við. Ég endurtek: Það er von mín og, ef ég má orða það svo, ráðlegging til grásleppuhrognaframleiðenda að þeir komi sér saman í einum samtökum og ráði þar sínum málum á þann veg að sem lýðræðislegast sé.