02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3565 í B-deild Alþingistíðinda. (3124)

266. mál, sykurverksmiðja í Hveragerði

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um sykurverksmiðju í Hveragerði, sem er 266. mál þessarar deildar. Í 1. gr. frv. segir svo:

Ríkisstj. er heimilt að taka þátt í hlutafélagi, er reisi og reki sykurverksmiðju í Hveragerði, og að leggja fram í því skyni allt að 40% hlutafé þess, enda verði hlutafé félagsins minnst 30% af stofnkostnaði verksmiðjunnar.“

Gert er ráð fyrir að einstaklingar, fyrirtæki og sveitarfélög verði eigendur að a.m.k. 60% hlutafjár og er það hliðstætt því sem gert hefur verið ráð fyrir í heimildarlögum um miðlungsstór iðnfyrirtæki að undanförnu, þar sem áhugafélög hafa staðið að undirbúningi, svo sem varðandi steinullarverksmiðju og stálbræðslu, svo að þekkt og nýleg dæmi séu tekin. Vil ég leggja áherslu á það atriði, að ríkið ætlar sér ekki að vera frumkvæðis eða meirihlutaaðili að stofnun sykurverksmiðju, enda segir í ákvæði til bráðabirgða í frv. svo:

„Ekki er ríkisstj. heimilt að taka þátt í hlutafélagi samkv. 1. gr. né leggja fram fé ríkissjóðs sem hlutafé samkv. 1. tölul. 2. gr. né veita ríkisábyrgð eða taka lán samkv. 2. tölul. 2. gr. fyrr en tryggð hafa verið hlutafjárframlög annarra aðila fyrir 60% af hlutafé væntanlegs félags.“

Í 2. gr. er kveðið á um að framlag ríkissjóðs sem hlutafé verði allt að 29 millj. kr. og að ríkissjóður ábyrgist allt að 25% heildarlánsfjárþörf vegna stofnkostnaðar fyrirtækisins. Stofnkostnaður sykurverksmiðju er áætlaður 241 millj. kr. á verðlagi 1. mars 1982. Framlög og ábyrgðir ríkissjóðs eru í samræmi við þessar tölur. Samkv. 2. gr. er ríkinu heimilt að leigja væntanlegu hlutafélagi lóð úr landi ríkisins í Ölfusdal undir verksmiðjubyggingu og tryggja því rétt til nýtingar jarðgufu á jarðgufusvæði í eigu ríkisins.

Í 3. gr. er kveðið á um að iðnrh. og fjmrh. skipi fulltrúa á aðalfundi félagsins að jöfnu.

Hugmyndin um byggingu sykurverksmiðju á sér nokkurn aðdraganda. Málið kom til kasta Alþingis vorið 1977, en þá var samþykkt þáltill. þess efnis, að gerð yrði hagkvæmniathugun á að byggja sykurhreinsunarverksmiðju á Íslandi. Var finnska fyrirtækið Finska Socker AB fengið til að gera skýrslu um málið á grundvelli athugunar. Skýrslan var tilbúin í oki. 1977. Lagt var til í henni að framleiða sykur úr melassa og var hér um grundavallarbreytingu að ræða, þar sem áður hafði verið reiknað með að hreinsa hrásykur. Rófumelassi er tiltölulega ódýrt og vannýtt hráefni, sem fellur til í venjulegum sykurverksmiðjum sem framleiða sykur úr rófum.

Á árinu 1978 var stofnað Áhugafélag um sykuriðnað hf. Beitti félagið sér fyrir því í samvinnu við Finska Socker AB með stuðningi Norræna iðnaðarsjóðsins að vinna ítarlega skýrslu um sykurvinnslu í Hveragerði. Skýrslan inniheldur m.a. forhönnun á verksmiðjunni. Í skýrslum Áhugafélags um sykuriðnað og eins í skýrslu starfshóps iðnrn., sem ég vík að síðar, eru flestir útreikningar sýndir í finnskum mörkum. Er ástæðan sú, að fyrirtækið Finska Socker AB vann upphaflega útreikninga og var áfram miðað við finnsk mörk til að halda samræmi víð fyrri athuganir.

Niðurstöður úr skýrslu Áhugafélags um sykuriðnað hf. og Finska Socker AB frá því í febr. 1980 eru prentaðar í grg. með frv., en þar kemur m.a. fram eftirfarandi:

„1. Það er fullkomlega tæknilegur möguleiki að byggja sykurverksmiðju sem grundvallast á melassahráefni.

2. Það er mögulegt að framleiða 1. flokks kristallaðan sykur úr sykurinnihaldi frummelassa með venjulegri kristöllunaraðferð.

3. Sú orka, sem vinnslan þarf á mismunandi stigum, sérstaklega eiming á sykurupplausninni og lokamelassanum, fæst úr jarðgufu. Einnig er hægt að framleiða raforku til eigin þarfa með jarðgufunni.

4. Það er hagkvæmt að velja verksmiðjunni stað í Hveragerði, þar sem nauðsynlegar forsendur fyrir framleiðslu af þessu tagi eru fyrir hendi: vinnuafl, vatn, kælivatn og það sem mikilvægast er: jarðgufa, en tilraunir sýna að nægjanleg jarðgufa með heppilegum eiginleikum er fyrir hendi.

5. Núverandi dreifi- og sölukerfi á Íslandi getur séð um dreifingu og sölu á allri ársframleiðslunni, um 10 þúsund tonnum á ári.

6. Tilraunir sýna að það er mögulegt að þurrka þann hluta hráefnisins, sem ekki er sykur, hinn svokallaða lokamelassa, og gera úr honum þurrt fóður, svokallað melassamjöl eða mjölkenndan melassa. Það ætti að vera mögulegt að koma melassamjölinu með tiltölulega skjótum hætti á markaðinn með hjálp íslensku fóðurblöndunarfyrirtækjanna.

7. Á grundvelli tiltölulega nákvæmrar forhönnunar er fjárfesting í verksmiðjunni áætluð 106.3 millj. finnskra marka reiknað á verðlagi í nóv. 1979. Fjárfestingin nær yfir verksmiðjulóð, verksmiðjubyggingar og vélbúnað, búnað til öflunar og dreifingar á orku, geymslur fyrir hráefni og framleiðsluvörur og flutningatæki svo og annan óhjákvæmilegan kostnað. Það vekur athygli að hlutdeild tolla, skatta og opinberra gjalda í heildarfjárfestingunni er um 20%.

8. Ef 15 ára endurgreiðslutími og 12% ársvextir eru notaðir við fjárfestinguna verður kostnaðarverð sykursins í finnskum mörkum talinn 2.4 á kg. Þegar 36% verslunarálagningu er bætt við fæst verðið í íslenskum krónum gömlum á þeim tíma 350 á kg á venjulegum kristölluðum sykri. Þetta verð er vel samkeppnishæft við sykurverð eins og það var á Íslandi í nóv.–des. 1979, segir í þessari skýrslu frá Finska Socker og Áhugafélaginu á þeim tíma. Almennt er hægt að draga þá ályktun, að sykurframleiðsla á Íslandi tryggi sykurverð til neytenda sem er hóflegt og sambærilegt verðlagi í öðrum Evrópulöndum. Þetta er mögulegt við núverandi aðstæður án niðurgreiðslna og með lítils háttar stuðningi eins og tíðkast í flestum löndum Evrópu.

9. Hin áframhaldandi mikla hækkun á eldsneytisverði eykur stöðugt verðið á hreinsuðum sykri á heimsmarkaði. Þar sem jarðvarmi er fyrir hendi á Íslandi býður eigin sykurframleiðsla upp á mikilvæga möguleika til að hagnýta þessa orku. Þurrkun lokamelassans eykur enn notkunargildi jarðvarmans.

10. Þjóðhagsleg áhrif fjárfestingarinnar verða í fyrsta lagi tiltölulega jafnt og hóflegt sykurverð, í öðru lagi næst umtalsverður gjaldeyrissparnaður, um það bil 158 millj. finnskra marka á ári. Þar fyrir utan er hægt að reikna með hagstæðum áhrifum á atvinnuástand þar sem verksmiðjan býður upp á ný störf fyrir 60–70 manns. Einnig hlýtur hin nýja tækni, sem berst til landsins, að vera áhugaverð.“

Iðnrn. skipaði í maímánuði 1980 starfshóp til að yfirfara skýrslu Áhugafélags um sykuriðnað hf. og Finska Soeker AB. Samkv. bréfi rn. bar starfshópnum að leggja mat á niðurstöðu skýrslunnar og tæknilegar forsendur og hagkvæmni þess að reisa og reka sykurverksmiðju í Hveragerði. Jafnframt bar starfshópnum að athuga aðra framleiðslu sem tengst gæti rekstri verksmiðjunnar og ábendingar hafa komið fram um. Starfshópur þessi skilaði niðurstöðum sínum í jan. 1981 og var skýrslu hans dreift hér á hv. Alþingi í maímánuði 1981. Ég tel rétt að drepa á helstu niðurstöður og upplýsingar úr þeirri skýrslu, þó að hún sé hv. alþm. aðgengileg í heild.

Í fyrsta lagi segir þar: „Heildarframleiðsla á hrásykri í heiminum er um 90 millj. tonna á ári. Þar af eru framleidd um 30 millj. tonna af rófusykri og falla þá til um 10 millj. tonna af rófumelassa, sem mundi verða aðalhráefni íslenskrar sykurverksmiðju. Ekki er líklegt að verulegar breytingar verði á sykurframleiðslutækninni á næstu árum, svo að gera má ráð fyrir áframhaldandi framboði af melassa.

2. Hrásykur er landbúnaðarafurð og gilda hliðstæðar reglur, höft og innflutningskvótar í sykurræktunarlöndum og gilda almennt um landbúnaðarafurðir. Hrásykurverksmiðjur eru yfirleitt nálægt ræktunarsvæðunum. Alþjóðleg samtök hrásykurframleiðenda reyna að sporna á m'oti verðsveiflum á hrásykri.

3. Óverulegur hluti, eða 10–15% af hrásykri er seldur á frjálsum uppboðsmarkaði. Þar hafa verðsveiflur verið mjög miklar og virðist reglan um framboð og eftirspurn ein ráða þar verðlagningu.

4. Eftirspurnin eftir hvítum sykri hefur farið vaxandi ár frá ári á hinum frjálsu mörkuðum. Láta mun nærri að 67 millj. tonna af hvítum sykri séu seldar á þessum mörkuðum. Afgangurinn af framleiðslunni er seldur á lokuðum mörkuðum, eins og t.d. innan Efnahagsbandalags Evrópu, en ríki innan þess framleiða um 12 millj. tonna af hrásykri og flytja út um 3 millj. tonna af hvítum sykri, aðallega til Afríku og Asíulanda.

5. Íslendingar flytja nær allan sinn sykur inn frá Efnahagsbandalagi Evrópu, aðallega frá einu fyrirtæki í Danmörku. Íslensku innflytjendurnir eru taldir um 50 talsins, enda er hvítur sykur fluttur inn í mjög smáum sendingum. Við njótum þannig kosta og galla hins frjálsa uppboðsmarkaðar.

6. Tæknilega virðist ekkert því til fyrirstöðu að framleiða hérlendis sykur úr melassa. Líklegt má telja að framboð af melassa verði nægilegt. Spurningin er einvörðungu um verðið. Verð á melassa hefur farið hækkandi á undanförnu. Verðlagning á melassa ákvarðast af eftirspurn eftir skepnufóðri og grundvallast á samsvarandi fóðurgildum. Nokkur skoðanaágreiningur er um þessi atriði milli erlendra kunnáttu- og hagsmunaaðila.

7. Íslendingar nota um 10 þús. tonn af hvítum sykri árlega. Talið er að það magn breytist lítið á komandi árum þótt þjóðinni fjölgi. Erfitt er þó að fullyrða um það. Neysla á íbúa hefur farið minnkandi að undanförnu. Rétt er þó að nefna að samdráttur í kex- og sælgætisiðnaði gæti vissulega haft veruleg áhrif á innlenda eftirspurn.

Til þess að fullnægja þörfum landsmanna fyrir sykur koma þrjár leiðir til álita, ef einvörðungu er horft á hag neytenda.

1. Óbreytt ástand, þ.e. að kaupa sykur á dagverði á uppboðsmörkuðum og leyfa mörgum innflytjendum og frjálsri samkeppni að sjá um verðmyndun.

2. Opinber innkaup og verðjöfnunarsjóður, þ.e. að fylgja í fótspor flestra Evrópulanda og setja lög og reglugerðir um sykurinnflutning.

3. Að reist verði sykurverksmiðja.

Ekki er á neins manns færi að segja til um með fullkominni vissu, hvernig verð á hvítum sykri þróast í hlutfalli við melassaverð á komandi árum. Samkv. útreikningum miðað við tilteknar forsendur er líklegt að hér sé unnt að reisa og reka sykurverksmiðju, er ynni hvítasykur úr melassa og seldu á hliðstæðu verði og er.á hvítum sykri innan Efnahagsbandalagslandanna og framleiddi einnig melassamjöl og seldi á heldur lægra verði en innflutt fóður.“

Þetta var tilvitnun úr skýrslu starfshóps iðnrn. frá jan. 1981.

Eins og segir í aths. með frv. er ekki einfalt mál að leggja mat á arðsemi sykurverksmiðju hérlendis. Verð á aðföngum, hinum svokallaða melassa, hefur verið nokkuð stöðugt en stórar sveiflur hafa verið á verði hvítasykurs. Áhugafélag um sykuriðnað hf. og starfshópur rn. voru ekki sammála um viðmiðunarverð á melassamjöli og verð á sykri frá verksmiðjunni. Áhugafélag um sykuriðnað telur eðlilegt að miðað sé við meðalverð áranna 1970–1980 og reyndist það vera 2.90 finnsk mörk á kg eða 6.40 kr. á kg. En starfshópur rn. taldi eðlilegt að miða við 2.50 finnsk mörk á kg eða 5.50 ísl. kr. Einnig eru skiptar skoðanir um á hvaða verði ætti að reikna melassamjölið og hvort verksmiðjan geti selt allt það magn af melassamjöli sem til fellur.

Reiknað er með að framleiða um 10 þús. tonn af sykri, en við þá framleiðslu fellur til jafnmikið magn eða 10 þús. tonn af melassamjöli. Yrði þetta melassamjöl notað í fóður og kæmi að hluta í stað innflutts fóðurkorns. Veltur á miklu hvaða viðtökur melassamjölið fær hjá bændum.

Melassi hefur verið notaður sem fóður fyrir búfé í mörgum löndum og í Finnlandi hefur búfé verið gefinn afgangsmelassi, sem svo er kallaður. Áhugafélag um sykuriðnað áætlar verð á melassamjöli 1.92 kr. á kg miðað við verðlag í júlí 1981, og er það verð vel samkeppnisfært við innflutt fóðurkorn, þ.e. um 80% af verði innflutts fóðurkorns miðað við sama þurrefnisinnihald.

Í des. 1981 lagði Áhugafélag um sykuriðnað hf. fram endurmetna útreikninga um stofnkostnað, rekstrarkostnað og arðsemi fyrirhugaðrar sykurvinnslu í Hveragerði og eru allar tölur færðar til verðlags í júlí 1981 eins og fram kemur í fskj. I með frv. Miðað við þær forsendur, sem Áhugafélagið leggur til grundvallar sínum útreikningum, er hér um arðbært fyrirtæki að ræða. Í útreikningum félagsins kemur fram að afkastavextir séu 29.4 sbr. fskj. I. Ég vil sérstaklega undirstrika að hér er átt við afkastavexti af hlutafé. Yfirleitt er venja að reikna með afkastavöxtum af heildarfjárfestingunni.

Iðnrn. hefur gert útreikninga á arðsemi miðað við nánast sömu forsendur og Áhugafélag um sykuriðnað hefur í sínum útreikningum. Útreikningar rn. byggðir á þessum forsendum sýna að afkastavextir heildarfjárfestingar yrðu rétt um 11%, rétt tæp 11 reiknað á föstu verðlagi, en skylt er að taka fram að þá var miðað við verðið 2.83 finnsk mörk á kg, en síðan hefur sykurverð lækkað niður í 2–2.20 finnsk mörk á kg, sem er mjög sérstætt ástand og í algeru lágmarki miðað við verðþróun um langt árabil.

Helstu rekstrarliðir í fyrirhugaðri sykurvinnslu eru, miðaðir við þriðja starfsár verksmiðjunnar, hráefnisútgjöld 34%, launakostnaður 15, afskriftir 29, vextir 6 og ýmis kostnaður 16, sbr. sundurliðun í aths. Stofnkostnaður er áætlaður, eins og áður er getið, 241 millj. kr., sem skiptist þannig: Byggingar o. fl. 43 millj. kr., vélar o. fl. 184 millj. kr. og rekstrarfé 14 millj kr., samtals 241 millj. kr.

Starfshópur iðnrn. benti á að hugsanlegt væri að smíða eitthvað af vélum, sem þarf til verksmiðjunnar, hérlendis.

Um staðsetningu er það að segja, að Áhugafélag um sykuriðnað hf. stefnir að því að reisa verksmiðjuna við Hveragerði. Felast staðarkostir fyrst og fremst í nálægð við jarðgufu. Melassa yrði skipað á land í Þorlákshöfn og þarf að reisa aðstöðu þar fyrir móttöku á hráefninu. Samkv. uppdrætti er verksmiðjunni ætlaður staður við mynni Grænadals austan Varmár. Ríkið á þetta land og var það á sínum tíma keypt að frumkvæði raforkumálastjórnarinnar með það fyrir augum að sem best færi saman nýting lands og jarðhita á þessum hluta ásamt því landi sem ríkið átti fyrir í Ölfusdal.

Jarðhitasvæðið í Ölfusdal er hluti af háhitasvæðinu í Henglinum og er einstakt að því leyti, hvað það er nálægt byggð. Fyrir eru á þessu svæði fjórar borholur sem mögulegt væri að nýta í tengslum við verksmiðjuna. Orkustofnun hefur framkvæmt mælingar á tveimur þeirra og reyndust þær vera nothæfar. Þrátt fyrir þetta hefur Áhugafélag um sykuriðnað hf. tekið inn í áætlun sína allan stofn- og rekstrarkostnað þriggja nýttra 1000 metra djúpra borhola ásamt tilheyrandi gufuveitu fyrir verksmiðjuna. Af þessum þremur borholum yrði ein ávallt til vara ef loka þyrfti annarri af hinum tveimur, t.d. vegna hreinsunar og bilana. Gert er ráð fyrir að verksmiðjan framleiði raforku til eigin þarfa úr jarðgufu og er gert ráð fyrir því í áætlunum um borholur og gufuveitu. Orkukostnaður í heild er áætlaður um 7% framleiðslukostnaðarverðs sykursins. Í sambærilegri verksmiðju erlendis, sem fullnægði orkuþörf sinni með olíu, yrði orkukostnaður um 24% af kostnaðarverði innflutts sykurs sem kominn væri í vörugeymslu heildsala á Íslandi.

Sykurnotkun hér á landi var árið 1980 9723 tonn samkv. hagskýrslum og er skipting á þeirri notkun sýnd á fskj. II sem unnið er af Félagi ísi. iðnrekenda. Á þessu yfirliti kemur fram að heimili nota um 30% af innfluttum sykri en iðnaður ýmiss konar 70%.

Framboð af hrásykri og þar með hvítum sykri er mjög háð hversu gengur með ræktun á sykurreyr og sykurrófum. Uppboðsverð á hrásykri hefur sveiflast mjög undanfarna áratugi. Verðbreytingar á sykri hafa leitt til þess, að tilraunir hafa verið gerðar til þess að hafa stjórn á ræktun á sykurreyr og sykurrófum, framboði á hrásykri og söluverði. Verð á hvítum sykri hefur haldist lágt undanfarin tvö ár og seinustu mánuði hefur, eins og áður er getið, innflutningsverð á sykri farið lækkandi. Er vissulega erfitt að spá um verðþróun.

Með bréfi Áhugafélags um sykuriðnað hf. til iðnrn., dags. 7. des. 1981, er spurst fyrir um hvort rn. vilji beita sér fyrir því, að sykurvinnslu í Hveragerði verði tryggður sykurmarkaður á Íslandi t.d. í 10 ár. Starfshópur rn. áleit á sínum tíma að nauðsynlegt kynni að reynast að setja lög um sykurinnflutning og afurðir er innihalda sykur. Ef sett væru lög um að sykurinnflutningur verði háður leyfum og tollaður til jöfnunar á framleiðslukostnaði íslenskrar sykurverksmiðju yrði jafnframt nauðsynlegt að leggja verðjöfnunartolla á allar þær vörur er innihalda sykur eigi samkeppnisaðstaða innlends iðnaðar ekki að raskast. slík lagasetning yrði á marga lund erfið í framkvæmd og krefst mikillar skriffinnsku. Mál þetta var tekið upp við Félag ísl. iðnrekenda, sem lagðist eindregið gegn hugmyndum um slíka lagasetningu, sbr. bréf þess á fskj. III með frv. Því er ekki fyrirhugað að setja lög um sykurinnflutning og verður því fyrirhuguð verksmiðja að gera ráð fyrir því í áætlunum sínum að geta keppt við heimsmarkaðsverð á sykri.

Herra forseti. Eins og fram kemur í 1. gr. frv. er hér um heimildarlög að ræða og þátttaka ríkissjóðs í fyrirhugaðri sykurvinnslu svipuð og gert er ráð fyrir í heimildarlögum sem Alþingi samþykkti í fyrra um steinullarverksmiðju og stálbræðslu, en að baki beggja þessara iðnaðarkosta standa áhugaaðilar eins og varðandi sykurvinnsluna, sem óska eftir vilyrði um stuðning og fjárhagslega aðild ríkisins. Ríkisstj. hefur því talið rétt að afla heimildar til þátttöku í hugsanlegri sykurvinnslu, en í ákvæði til bráðabirgða, sem ég rakti áðan, er sett það skilyrði, að tryggt hafi verið hlutafjárframlag annarra aðila fyrir 60% hlutafjár væntanlegs félags.

Ýmsar hugmyndir hafa að undanförnu komið fram um breytingar á vinnslu sykurs til iðnaðarnota og nýtingu efna, annarra en hefðbundin hafa talist, til sykurvinnslu. T.d. hefur nýlega verið nefnt að úrvinnsla sykurefna úr mysu gæti komið til álita hérlendis. Skylt er að hafa auga á þróun af slíku tagi þegar metin er sú verksmiðja sem hér er til umr., því að hér er um verulega fjárfestingu að ræða og engum er greiði gerður með því að veðja á rangan hest í þessu máli fremur en öðrum. Hlýtur það að vera forgönguaðila í fyrirtæki, sem stofnað yrði, að hafa vakandi auga á öllu sem að hag þess lýtur.

Ég vænti þess, að hv. þdm. og iðnn. beggja deilda taki málið til gaumgæfilegrar meðferðar og stuðli að því, að það fái afgreiðslu með eðlilegum hætti og helst á þessu þingi. Ég legg því til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. iðnn. þessarar deildar.