02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3571 í B-deild Alþingistíðinda. (3125)

266. mál, sykurverksmiðja í Hveragerði

Þórarinn Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka iðnrh. fyrir að hafa lagt fram þetta frv. um sykurverksmiðju í Hveragerði. Þetta mál hefur verið á dagskrá nokkuð lengi eða síðan 1977, að þál. um það var samþykkt hér í þinginu. Þá var ríkisstj. falið að kanna það og nú kemur það hér í lagafrv. til þess að Alþingi geti tekið ákvörðun um framhald þess.

Áhugamannafélag um sykuriðnað var stofnað 1978 af nokkrum áhugamönnum, aðallega í Hveragerði. Þetta áhugamannafélag hefur unnið að málinu síðan eftir því sem það hefur haft aðstöðu til. Það hefur unnið margar skýrslur um þessi mál og það safnaði hlutafé til að gera athuganir og rannsóknir á hagkvæmni sykurvinnslu á Íslandi. Hinrik Guðmundsson verkfræðingur og framkvæmdastjóri Verkfræðingafélags Íslands hefur unnið þarna mikið og gott starf og átt stærstan hlut í vinnslu þessara athugana sem hafa legið fyrir nú um nokkurt skeið. Ásamt með því hefur Finska Socker lagt margvíslegar upplýsingar í þá skýrslu, enda hefur það mikla reynslu í þessari vinnslu sykurs og því fyrst að nota þessa aðferð. En hún byggist á melassa frá venjulegum sykurverksmiðjum. Rófnamelassi er talinn hafa 50% sykurinnihald og ef þessi melassi er unninn áfram í svona verksmiðjum kostar töluvert meira að ná því sykurmagni en því sem búið er að taka. Þess vegna er það yfirleitt ekki unnið meira en að 50% lokamelassa. Hann er síðan notaður til fóðurs búfénaði þeirra þjóða sem rækta sykurrófur. Þegar búið er að taka það auðveldasta úr sykurrófunum er mun kostnaðarsamara að ná því sem eftir er ef nota þarf olíu til þeirra hluta. Fyrirhugað er að vinna þetta hráefni áfram hér á landi, flytja inn þennan 50% melassa og vinna hann áfram með jarðgufu, sem er nægilega mikið til af hér á landi víða, m.a. í Hveragerði, eins og stefnt er að með þessu frv. til laga.

Það er stefnt að því, að í þeirri verksmiðju, sem hér um ræðir, verði hægt að vinna úr þessum melassa 40% svo að ekki verði eftir nema 10% af lokamelassa. Er áformað, eins og kom fram hjá hæstv. ráðh., að þurrka þennan melassa í sérstakri verksmiðju sem yrði sett upp við sykurverksmiðjuna og gert er ráð fyrir í stofnkostnaði. Að lokinni þurrkun á þessu er ráðgert að nota hann til íblöndunar í fóðurblöndur sem yrðu á markaði hér innanlands. Þessi lokamelassi er talinn mjög góður og er eftirsóttur a.m.k. meðal annarra þjóða, en hefur lítið verið notaður hér á landi og þá ekki öðruvísi en eins og síróp eða eins og melassinn er þegar ekki er búið að þurrka hann.

Í landinu eru notuð um 10 þús. tonn af sykri. Af þessum sykri fara í kringum 70% til ýmiss konar iðnaðar, en um 30% fara til einkaneyslu. Það er þess vegna langstærstur hlutinn sem fer til iðnaðar. Þess vegna er mikið atriði að þeir, sem nota sykurinn, geti verið með í að vinna hann hérlendis. Hefur verið rætt um það hjá áhugamönnum um sykuriðnað að reyna að fá þessa aðila til samstarfs um verksmiðju. Til þess að framleiða þetta magn innanlands, 10 þús. tonn, þurfum við að flytja inn um 25 þús. tonn af melassa sem yrði síðan unninn hér. Úr honum kæmu þá um 10 þús. tonn af sykri eins og neyslan er í landinu. Þessi 25 þús. tonn yrðu flutt inn á tankskipum og mundi þar af leiðandi verða ódýrara að flytja þau inn í landið. Er gert ráð fyrir að okkar skip, sem flytja frá landinu ýmiss konar lýsi t.d., gætu tekið þennan melassa aftur frá Evrópu, t.d. frá Finnlandi, Þýskalandi eða einhverjum öðrum Evrópulöndum. Úr þessari vinnslu, þessum 25 þús. tonnum kæmu í kringum 10 þús. tonn af þurrum lokamelassa. Honum þyrfti að koma á markaðinn hérna innanlands. Hann er talinn mjög gott fóður og ætti að vera vel samkeppnisfær að verði til við annað fóður hér á landi eða innflutt fóður og þess vegna ólíklegt annað en auðvelt sé að selja þetta magn, því að í landinu notum við 600 þús. tonn af innfluttu kjarnfóðri.

Ég kem þá að því með nokkrum orðum, hver kostnaðurinn er við að byggja svona verksmiðju. Hann er mjög mikill og er áætlaður, eins og segir í þessu frv., 1. mars 1982 um 241 millj. kr. En mér finnst að við þurfum að athuga þessa tölu ofurlítið. Í þessari tölu eru ekki innflutningsgjöld, eins og reyndar er tekið fram í frv. Þetta er því sú upphæð sem það kostar að byggja þessa verksmiðju að frádregnum innflutningsgjöldum. Þetta er kostnaður við að reisa fullkomna og fullbyggða sykurverksmiðju með öllum tækjum og geymslum, skrifstofubyggingum og öðru sem til þarf. Enn fremur er þarna kostnaður við að bora þrjár borholur í Hveragerði sem eru 1000 metra djúpar hver og yrðu notaðar til orkuöflunar eða til þess að fá nægilega gufu. Eins og hæstv. iðnrh. nefndi er áformað að nota tvær holur og að ein hola yrði til öryggis ef einhver þeirra bilaði. Þessi borkostnaður er innifalinn í þessum 241 millj. En ég má benda á það, að í Hveragerði er nægilega mikið af holum, sem ríkið á, og ætti því að vera hægt að spara sér a.m.k. í byrjun að bora þessar holur og þá yrði þeim upphæðunum ódýrara að koma fyrirtækinu af stað.

Það er einnig gert ráð fyrir í þessari kostnaðaráætlun að koma upp sérstakri gufutúrbínu til framleiðslu á nægilegri rafmagnsorku fyrir fyrirtækið. Er þá reiknað með að nota sömu gufuna og er notuð við vinnsluna á sykrinum. Auk þess, eins og fram kemur í frv., eru bílar og flutningatæki, tankar og geymslur í Þorlákshöfn, sem þarf til þess að taka á móti melassanum og flytja til Hveragerðis, reiknaðir með í stofnkostnaðinum.

Ég vil þá aðeins minnast á nokkra þætti í sambandi við það sem vinnst við það að koma upp svona verksmiðju í landinu. Það mundi veita 60–70 manns atvinnu. En þegar við tölum um 60–70 manns, sem fá atvinnu, þá held ég að það leiði af sjálfu sér að þessir 60–70 manns þurfa ýmiss konar þjónustu og margt í kringum verksmiðjuna sjálfa, þannig að ekki væri ólíklegt að bæta mætti við kannske allt að 100 manns sem yrðu starfandi óbeint í kringum verksmiðjuna. Hér er því um verulegt atvinnufyrirtæki að ræða sem veitir mörgu fólki atvinnu, og yrði þess vegna að teljast mjög hagkvæmt hvað það snertir að færa þessa vinnslu á sykri inn í landið.

Með því að flytja melassann inn í tankskipum mundi sparast mikið í flutningskostnaði. Við mundum spara í erlendum gjaldeyri 15–18 millj. finnskra marka, sem þýðir um 25–30 millj. ísl. kr„ með því að flytja inn svona hálfunninn melassa. Minna yrði flutt inn af erlendu kjarnfóðri, sem notað er handa búfjártegundum okkar í dag, sem nemur þessum 10 þús. tonnum. Þetta er líka atriði í þessu máli. Við fáum líka eitt sem mér finnst verulega ástæða til að minna á, og það er að við öðlumst dýrmæta reynslu af notkun jarðgufu til iðnaðar. Það er líka hægt að hugsa sér áframhaldandi nýtingu á þeirri orku sem afgangs er frá verksmiðjunni. Það mætti byggja upp annan iðnað eða ylræktarver eða nýta hitann til upphitunar húsa, svo að eitthvað sé nefnt. Vandinn er sá, sem reyndar kemur fram í þeirri greinargerð sem fylgir frv., að við þurfum að kosta nokkru til að koma í veg fyrir mengun af því heita vatni sem kemur frá verksmiðjunni. Það er reiknað með því í þeim stofnkostnaðaráætlunum, sem hér liggja fyrir frá áhugamönnum um sykuriðnað, að það verði annaðhvort að byggja geyma til að kæla afgangsvatnið eða dæla því ofan í jörðina aftur. Sá kostnaður er nokkur og ef hægt væri að losna við hann mundi stofnkostnaður verða minni.

Þá vil ég líka minna á það, að orkukostnaðurinn í heild við þessa framleiðslu mundi vera um 7% af framleiðslukostnaðarverði sykurs. Til samanburðar má geta þess, að ef þetta væri unnið erlendis með olíu mundi þessi kostnaður verða 24% af kostnaðarverði innflutts sykurs. Stafar það eingöngu af því að olía yrði notuð til þessarar vinnslu. Sést best af þessu hvað hagkvæmt er að nýta þá gufu og orku sem við höfum hér í landinu, auk þess sem það skapar gífurlega mikla vinnu og sparar gjaldeyri. Samkv. skýrslu Guðmundar Björnssonar verkfræðings frá 4. des. 1981 yrði sykurverð til heildsala eftir 9 ára rekstur 2.30 kr. ísl., eða lægra verð en það hefur verið lægst á síðustu 10 árum, 1970–1980. Það hefur sem sagt aldrei orðið lægra en það, jafnvel þó að verð hafi sveiflast mikið til eins og línuritið með frv. sýnir.

Ég vil nú ekki hafa þessi orð öllu fleiri, en ég vona að sú nefnd, sem fær þetta til umfjöllunar, athugi málið vel og að það verði skoðað af færustu mönnum svo að ekki verði um mistök að ræða. En vegna þess, að ég veit að það er ýmislegt mjög hagstætt við að koma þessari verksmiðju upp, er ég þess fullviss að hér er um mjög gott. mál að ræða. Ég legg áherslu á að frv. fái eins fljóta afgreiðslu og unnt er svo að hægt sé að fara sem fyrst af stað með undirbúning og uppbyggingu á góðu fyrirtæki.