02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3574 í B-deild Alþingistíðinda. (3126)

266. mál, sykurverksmiðja í Hveragerði

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni frv. til l. um sykurverksmiðju í Hveragerði sem gerir ráð fyrir að ríkisstj. sé heimilað að taka þátt í hlutafélagi sem reisi og reki sykurverksmiðju sem að stofnkostnaði er talin vera 241 millj. kr. eða 24 gamlir milljarðar. Er gert ráð fyrir að ríkisstj. sé heimilt að leggja fram allt að 29 millj. kr. af fé ríkissjóðs sem hlutafé í nefndu hlutafélagi og að ríkisstj. sé heimilt að veita ríkisábyrgð fyrir lánum eða taka lán, er hlutafélaginu verði veitt, til byggingar verksmiðjunnar að fjárhæð samtals allt að 43 millj. kr. Að auki er gert ráð fyrir að felld séu niður aðflutnings- og sölugjöld af vélum, tækjum og varahlutum til þessarar verksmiðju. Hér er því um að ræða fyrirtæki sem kostar gífurlega mikið fé, og gert er ráð fyrir að varið sé miklu af sköttum borgaranna til þess að leggja í þetta fyrirtæki.

Ég vil strax segja það, að mér finnst við lestur þessara gagna, sem við þm. höfum fengið, að í þessu máli séu svo margar brotalamir að það sé útilokað að þetta mál verði afgreitt á þessu þingi. Ég hef að vísu tækifæri til að fylgjast með því í nefnd, þar sem ég á sæti í iðnn. þessarar deildar, en ég mun eindregið mæla gegn því, að þetta frv. verði samþykki nú. Til þess þarf Alþingi meiri tíma. Það þarf að rannsaka þetta mál mun betur og mér finnst að Alþingi geti ekki látið söguna frá því á s.l. vori endurtaka sig, þegar á örstuttum tíma voru afgreidd frumvörp um þrjú önnur fyrirtæki, þar sem ríkinu var heimilað að leggja fram hlutafé, fyrirtæki sem vafalaust eru mismunandi góð, en nú hefur komið í ljós, eftir að Alþingi gerði sínar samþykktir, að verulegar brotalamir eru á og skal ég ekki nánar fara út í það.

Ég vil í þessu sambandi — þó að ég eigi tækifæri á því að fylgjast með þessu í nefnd — drepa á nokkur atriði, sem fram koma í gögnum þessa máls, sem ég tel að séu mjög alvarlegir fyrir.varar af hálfu þeirra sem um þetta mál hafa fjallað af hálfu iðnrn., þó að þeirra till. sé sú, að út í slíkan rekstur verði farið. Þeir benda t.d. á það á bls. 11 í þeirri skýrslu sem við þm. fengum í hendur á s.l. vori, að hrásykur sé landbúnaðarafurð og gildi hliðstæðar reglur, höft og innflutningskvótar í sykurræktunarlöndum og gilda almennt um landbúnaðarafurðir. Hrásykurverksmiðja er yfirleitt nálægt ræktunarsvæðunum. Alþjóðleg samtök hrásykurframleiðenda reyna að sporna á móti verðsveiflum á hrásykri. Þessu fylgir líka atriði sem við þekkjum mætavel úr okkar landbúnaðarsögu, að það eru bæði miklar niðurgreiðslur á sykri og alls kyns framleiðslustyrkir, sem veittir eru framleiðendum í sykurræktarlöndum til þess að tryggja að þeir geti selt sínar afurðir. Sykurframleiðsla er svo mikilvæg atvinnugrein í ýmsum löndum að reynt er að komast inn á markaðinn með miklum fjárgreiðslum af hálfu viðkomandi ríkisstjórna. Þetta er atriði sem verður að sjálfsögðu að hafa mjög vel í huga, þó að ljóst sé að verðið sé að miklu leyti mótað af uppboðsmörkuðum.

Markaðsverð sykurs er mjög sveiflukennt. Það kemur fram á bls. 14 í þessari skýrslu, að niðurstaða nefndar iðnrn. sé að verðið þurfi að vera hærra en 2.5 finnsk mörk á kg, er telst hátt miðað við meðalinnflutningsverð undanfarin 10 ár. „Hvernig hvítasykursverð þróast í hlutfalli við melassaverð á komandi árum er á einskis manns færi að segja til um,“ segir í þessari skýrslu. Þeir tala sem sagt um lágmarksverð 2.50 finnsk mörk.

En nú kaupum við sykur á 1.80–2.00 finnsk mörk, sem sagt á mun lægra verði en því lágmarksverði sem nefndin, sem um þetta fjallaði, telur að þurfi að vera. (ÞS: Meðalverð 10 ára.) Já, meðalverð 10 ára, en við verðum að miða við hvað við sjáum fram á og hvernig markaðurinn er líklegur til að þróast. Sannleikurinn er sá, að þó að þetta sé meðalverð sem þarna var talað um og hv. þm. Þórarinn Sigurjónsson nefndi í sinni ræðu, þá er það staðreynd, að verðið í dag er 1.80–2.00, og það er enn reiknað með lækkun á markaðnum eins og ég skal nánar sýna fram á með þeim gögnum sem ég hef undir höndum.

Sannleikurinn er sá, að það er á ferðinni ný tækni í sambandi við sykurframleiðslu sem við verðum að horfa á þegar slíkt mál er metið. T.d. í Bandaríkjunum er nú hafin stórfelld framleiðsla á sérstöku kornsírópi sem kemur algerlega í stað sykurs og er um 15% ódýrara en sykur. Notkun þessa efnis eykst jafnhratt og nýjar verksmiðjur taka til starfa og framboðið eykst. Mikilvægi þessarar þróunar má sjá á því, að gosdrykkjaframleiðendur þar í landi, í Bandaríkjunum, nota um 25–30% allrar sykurframleiðslunnar, en hér á landi nota gosdrykkjaframleiðendunum 20% sykurframleiðslu. Ég hef hér úrklippu úr bandarísku fagtímariti sem gefið er út af þeim sem framleiða gosdrykki, og þar er verið að veita upplýsingar um við hverju megi búast einmitt á þessum markaði, upplýsingar fyrir þá sem eru í þessari framleiðslu. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna þess að gosdrykkjaiðnaðurinn er helsti kaupandi á sykri á heimamarkaði“, þ.e. yfir 30% af allri sykurframleiðslunni í Bandaríkjunum, „þá er það skoðun okkar, að notkun sérstaks kornsíróps muni lækka sykurverð í náinni framtíð. Við búumst við því að sykurverð og verð á sérstöku kornsírópi muni halda áfram að lækka til lengri tíma litið.“

Þetta er spá í þessu fagtímariti sem sérstaklega fjallar um þetta mál.

Starfshópurinn hefur líka gert ákveðna fyrirvara sem nauðsynlegt er að menn átti sig á og iðnrn. — a.m.k. á tímabili — gerði að sínum. Sá fyrirvari kemur sérstaklega fram í bréfi sem iðnrn. sendi Félagi ísl. iðnrekenda 28. jan. s.l., þar sem rn. var að boða til fundar og óska eftir að Félag ísl. iðnrekenda tæki þátt í slíkum fundi. Í þessu bréfi segir, með leyfi forseta:

„Forsenda fyrir byggingu sykurverksmiðju hérlendis er setning sykurlaga.“ — Takið eftir þessu orðalagi hv. þm.: „Forsenda fyrir byggingu sykurverksmiðju hérlendis er setning sykurlaga. Innflutningur á sykri verður þá háður leyfum. Einnig verður að stofna sérstakan sykursjóð, er hafi það hlutverk að tryggja innlendri iðnaðarframleiðslu sykur á heimsmarkaðsverði. Tekna í sjóðinn verður að afla með því að skattleggja innlendu framleiðsluna og hugsanlega innflutning eða með framlagi ríkissjóðs. Hafa Finska Socker“ — þ.e. finnska fyrirtækið sem var ráðgjafi í þessu efni — „gert það að skilyrði fyrir þátttöku sinni við byggingu sykurverksmiðju að sykurlög verði sett. Önnur leið til lausnar þessu er bann við innflutningi á sykri og að settir verði verðjöfnunartollar á allar vörur sem fluttar eru til landsins og innihalda sykur, t.d. kex, kökur, öl, gosdrykki, sælgæti.“

Rn. var sem sagt þeirrar skoðunar í janúar s.l., að forsenda þess að reisa slíka verksmiðju væri annaðhvort að banna innflutning á sykri til landsins eða skattleggja sérstaklega innflutning á sykri til þess að halda uppi verðinu svo að hin íslenska framleiðsla gæti þá orðið samkeppnisfær við þá erlendu.

Félag ísl. iðnrekenda snerist mjög hart gegn þessu, og sú varð niðurstaðan í rn., eins og fram kemur í grg. sem fylgir frv., að iðnrn. leggur ekki til að sett verði lög um sykurinnflutning. En það er nokkuð athyglisvert, að forsenda fyrir þeirri ákvörðun rn. virðist ekki vera sú, að þeir telji slík sykurlög óæskileg í sjálfu sér eða innflutningsbann á sykri óæskilegt í sjálfu sér, heldur vegna þess, hversu erfitt verði að framfylgja slíkum reglum vegna þess hve sykur er stór hluti í ýmsum vörum sem fluttar eru til landsins. Starfshópurinn eða nefnd iðnrn. hefur líka látið frá sér fara atriði sem verða að skoðast sem mjög alvarlegir fyrirvarar í þessu efni. Hæstv. iðnrh. las t.d. upp VII. kafla í niðurstöðum nefndarinnar. Ég vil þó, vegna þess að mér finnst það merkilegur kafli, lesa hann upp, með leyfi forseta, en þar segir:

„Íslendingar nota nú um 10 þús. tonn af hvítum sykri árlega.“ Ég skýt hér inn í: 10 þús. tonn er það sem reiknað er með að verksmiðjan framleiði, sem sagt alla notkun okkar Íslendinga. „Talið er að það magn breytist lítið á komandi árum þótt þjóðinni fjölgi. Neysla á íbúa hefur farið minnkandi að undanförnu. Rétt er þó að nefna að samdráttur í kex- og sælgætisiðnaði gæti haft veruleg áhrif á innlenda eftirspurn. Til þess að fullnægja þörfum landsmanna fyrir sykur koma þrjár leiðir til álita, ef eingöngu er horft á hag neytanda:

1. Óbreytt ástand, þ.e. að kaupa sykur á dagverði á uppboðsmarkaði og leyfa mörgum innflytjendum og frjálsri samkeppni að sjá um verðmyndun.

2. Opinber innkaup og verðjöfnunarsjóður, þ.e. að fylgja í fótspor flestra Evrópulanda og setja lög og reglugerð um sykurinnflutning. Til álita gæti komið að verðjafna úr sjóðnum þegar uppboðsverð á sykri er hátt, en skattleggja í hann þegar verðið er lágt. Gert er ráð fyrir samningum um innkaup. Hugsanlega kemur þátttaka í ISA til greina, en það eru alþjóðleg samtök hrásykurframleiðenda.

3. Reisa sykurverksmiðju. Verksmiðjan mundi veita um 70 manns atvinnu og sjá fyrir sykurþörf landsmanna á meðalverði er ekki væri langt frá meðalverði EBE. Verksmiðjan mundi nota innlenda orku. Þessi valkostur er sennilega dýrasti valkosturinn í stofnkostnaði og rekstrarkostnaði og sá áhættusamasti.“

Þetta er það sem nefndin tekur sérstaklega fram í sinni greinargerð.

Það er rétt að hafa það í huga, að sykurnotkun hér á landi skiptist þannig að 30% eru notuð í einkaneyslu, þ.e. á heimilum, en 70% af sykri eru notuð til iðnaðarframleiðslu, ýmiss konar iðnaðar. Ef við rösuðum um ráð fram í þessu efni, ef farið væri að byggja sykurverksmiðju án þess að það mál væri búið að athuga mun betur en nú hefur verið gert, þá gæti það orðið til þess að hækka verulega verð á fjöldamörgum iðnaðarvörum, ef á að þvinga þær til þess að kaupa hina innlendu framleiðslu og gera annan iðnað okkar verr samkeppnishæfan innan annarra landa sem við erum í harðri samkeppni við, bæði vegna innflutnings þaðan svo og vegna þess að við viljum gjarnan flytja út okkar iðnaðarvörur. Allt það sem ég hef hér tilgreint — og reyndar mætti tilgreina mörg fleiri atriði sem fram koma í þessum skýrslum — bendir til þess, að það sé óráð að ætla sér að ná þessu frv. fram á þessu þingi. Þetta mál þarf miklu betri athugun. Sú nefnd, sem fær það til meðferðar, þarf að gera á því rækilegar sérfræðilegar athuganir sem tekur miklu lengri tíma en eftir lifir af þessu þingi.

Áhugi á nýjum atvinnugreinum og nýjum iðnaðartækifærum hér á landi er vissulega góðra gjalda verður og ég tel lofsvert framtak þeirra manna, sem áhuga hafa á þessu máli, að hafa vakið máls á því og hafa lagt í það vinnu og fyrirhöfn að gera þessar athuganir. En reynsla okkar sýnir þó ótvírætt að slíkir áhugamenn hafa alltaf tilhneigingu til að fegra hlutina um of, hafa tilhneigingu til þess að draga úr stofnkostnaði í áætlunum, draga úr rekstrarkostnaðaráætlunum og fegra markaðsaðstæður mun meira en ástæða er til. Ég vil þó segja að þegar þessar skýrslur eru lesnar niður í kjölinn bera þær þó vott um lofsverða hreinskilni, sem við verðum vissulega að taka tillit til þegar við metum þetta mál endanlega. Hér er verið að leggja til að verja miklum fjármunum af hálfu skattborgaranna til að reisa fyrirtæki sem er í meira lagi vafasamt.