05.04.1982
Efri deild: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3605 í B-deild Alþingistíðinda. (3148)

272. mál, Kísiliðjan

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir undirtektir við þetta frv. Ég skal reyna að svara þeim fsp. sem fram hafa verið bornar, að svo miklu leyti sem ég get það án gagnaöflunar.

Varðandi það, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. vék að um söluþóknun til sveitarfélaga, samkv. samningi þar að lútandi, var spurning hans á þá leið, hvort breyting yrði á tekjum sveitarfélaganna vegna fyrirhugaðra breytinga á þessari þóknun. Ég nefndi það, að þarna hefði í reynd verið um að ræða, a.m.k. um alllangt skeið, þá prósentutölu eða viðmiðun sem gert er ráð fyrir að verði nú bundin í samningi, þannig að ég tel að ekki sé um nema breytingu að ræða samkv. þessu. Það eru engar ráðagerðir uppi þar að lútandi, a.m.k. er mér ekki kunnugt um þær. Hitt er svo annað mál, að það er full ástæða til þess að fara yfir þetta svið, tekjur og tekjudreifingu af stærri iðnfyrirtækjum í landinu. Iðnrn. hefur verið að afla gagna og vitneskju hjá starfandi fyrirtækjum hér og erlendis um tilhögun þeirra mála, en það er ekkert sem tengist þessu fyrirtæki eða þessum breytingum sérstaklega.

Í öðru lagi var spurt hér um hlut heimaaðila. Ég hygg að það hafi verið hv. 3. þm. Vesturl. sem einnig vék að því máli. Það hafa ekki mér vitanlega komið fram óskir af hálfu sveitarfélaga á Norðurl. e. um að auka hlutdeild sína. Lækkun á þeirra hlutdeild — 0.1% ef frv. þetta yrði að lögum — stafar einvörðungu af tilfærslu í eignarhlutdeild og auknu hlutafé ef ekki kæmi aukin hlutur sveitarfélaganna þar á móti.

Ég mundi fagna því ef sveitarfélög á Norðurlandi eystra sæju sér fært og vildu leggja fram aukið hlutafé í Kísiliðjunni hf. Ég tel hins vegar eðlilegt að ríkið sé þar forustuaðili, þar sem það hefur staðið undir rekstri fyrirtækisins sem meirihlutaeigandi frá upphafi. Ég teldi mjög æskilegt að sveitarfélög gætu aukið þar sinn hlut, og ég tel fyllilega eðlilegt að kannað verði hvort vilji sé til þess. En ég hygg að slíkar óskir liggi ekki fyrir og sérstök athugun á vilja sveitarfélaga hafi ekki farið fram í sambandi við þetta.

Meginálitamálið í sambandi við þetta frv. var af hálfu þeirra rn. sem um það fjölluðu hvort þessi hlutafjáraukning væri réttmæt og hvort unnt væri og æskilegt að fá samstarfsaðilana til aukinnar þátttöku eða til að leggja fram aukið hlutafé á móti og halda sinni eignarhlutdeild. Nú tel ég það síður en svo spor í öfuga átt að hlutur íslenska ríkisins fari vaxandi í þessu fyrirtæki. Ég vil þó taka fram að það var síður en svo að kapp væri lagt á það af hálfu stjórnvalda að breyta eignarhlutdeildinni frá því sem var.

Það var ekki vilji til þess frá fyrirtækinu John Manville, nú Manville, að leggja fram meira hlutafé en sem svaraði þessu eina láni upp á 262 þús. bandaríkjadala. Ástæðurnar, sem þeir færðu fyrir því, voru sérstaklega þær, að fyrirtækið ætti í örðugleikum í sambandi við rekstur annars staðar og hefði önnur fjárfestingaráform ofar á blaði. Auk þess teldu þeir að þær ástæður, sem leitt hefðu til þeirra erfiðleika í rekstri Kísiliðjunnar sem raun ber vitni, væru staðbundnar og þeim nánast óviðkomandi, þar sem er jarðeldurinn í nágrenni Mývatns — sem ekki verður að sjálfsögðu skrifaður á erlenda fremur en innlenda aðila — svo og sú ákvörðun íslenskra stjórnvalda að gera sérstakar kröfur vegna umhverfismála í Mývatnssveit og lýsa Mývatnssveit verndarsvæði. Þetta hafa þeim m.a. fært fram í umræðum um þetta mál og tel ég rétt að það komi hér fram.

Um arðgreiðslur af hlutafé til sveitarfélaga vegna rekstrar Kísiliðjunnar hef ég því miður ekki tiltækar upplýsingar, en það er sjálfsagt að afla þeirra, ef óskir eru þar að lútandi, og koma þeim á framfæri við hv. iðnn. Þarna er um umtalsvert fjármagn að ræða með beinum og óbeinum hætti, m.a. vegna hafnargjalda á Húsavík og vegna gjalda sem runnið hafa til Skútustaðahrepps. Ég má segja að eftir að hallaði undan fæti hjá fyrirtækinu hafi komið til sérstakar greiðslur til Skútustaðahrepps til að vega upp á móti minnkandi aðstöðugjaldi. Tengist það öðrum erfiðleikum hjá því sveitarfélagi í sambandi við náttúruhamfarir á svæðinu. Þetta liggur allt fyrir á sínum stað, að ég hygg, og sjálfsagt að veita þær upplýsingar hér á hv. Alþingi þó að ég hafi þær ekki hér meðferðis nú.

Varðandi mál hv. 3. þm. Norðurl. e. sé ég ekki ástæðu til að fara að ræða þetta frv. í tengslum við mat manna á efnahagsþróun hérlendis eða erlendis. Það mætti margt um það segja. Aðeins vil ég benda á að það er ekki neitt sérstakt fyrir Ísland að erfiðleikar séu uppi í iðnrekstri, hvað þá í þungaiðnaði, og hægt að færa mjög mörg dæmi því til stuðnings. En ég sé ekki ástæðu til að gera það hér og nú. Ég þakka undirtektir hv. þdm., sem hér hafa tjáð sig um frv., og vona að það verði lögfest á þessu þingi.