05.04.1982
Efri deild: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3611 í B-deild Alþingistíðinda. (3154)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég vitna að mestu leyti til fyrri ræðu minnar um þetta efni, við 2. umr., þegar þetta mál var hér til meðferðar fyrr í vetur. Ég mun þess vegna ekki víkja að einstökum þáttum í þessari lánsfjárlagagerð, heldur einungis þeirri meginstefnu sem í frv. felst. Sú meginstefna birtist vitaskuld í meiri erlendri skuldasöfnun en nokkru sinni fyrr.

Það hefur verið harla einkennilegt að sjá það á síðum Þjóðviljans og í málflutningi hæstv. fjmrh„ hversu lítið þessir aðilar, hæstv. ráðh. og Þjóðviljinn, vildu gera úr þeirri skuldasöfnun sem hér hefur átt sér stað. Ég tel að málflutningur hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar við umfjöllun þessa máls fyrr í vetur hafi tekið meira mið af sannleikanum og verið þjóðhollari, því þó hann fengist til að samþykkja þessi lánsfjárlög varaði hann samt við því, að nú væri heldur hátt stefnt í erlendri skuldasöfnun. Það hefði vissulega verið rismeira ef ráðherrar og Þjóðviljinn hefðu tekið þá stefnu og lagst á sveif með okkur í stjórnarandstöðunni og hv. formanni fjh.- og viðskn. þessarar deildar um það að vara við þessari gífurlegu skuldasöfnun.

Einn mælikvarðinn á þessa skuldasöfnun er vitaskuld hvað greiðslubyrðin sé mikil. Ef við lítum yfir liðin ár hefur greiðslubyrðin sem hlutfall af útflutningstekjum yfirleitt verið á bilinu 10–14%. En nú allra seinustu árin hefur sigið mjög á ógæfuhliðina. Á árinu 1981 er þetta um 17% og nú liggja fyrir áætlanir um að á þessu ári verði greiðslubyrði erlendra lána um 20% af útflutningstekjum. Ríkisstj. setti sér að halda sigvið 15%. Ég vil vekja athygli á því, að hér er farið 33% fram úr áætlun og áformum ríkisstj., hvorki meira né minna. Það er þriðjungi meiri þungi í greiðslubyrðinni en gert var ráð fyrir í áætlun ríkisstj.

Hversu alvarlegt þetta er held ég að menn sjái best af því, að fjórði hver þorskur, reyndar fjórða hver branda, sem dregin er úr sjó, fjórða hver vinnustund í fiskvinnslu og við fiskveiðar á samkvæmt þessu að fara í það að standa undir erlendum skuldum. Þetta er ógnvekjandi staðreynd og verður aldrei nógu oft endurtekin.

Greiðslubyrði af þessu tagi er næsta óþekkt hjá þjóðum sem búa við hliðstæðan efnahag og við. Hún er stórvarasöm. Og ef litið er á það, í hvað þessi lán eiga að fara sem tekin eru núna, hafa líka átt sér stað umskipti á því sviði. Aldrei fyrr hefur það gerst, að jafnhátt hlutfall erlendra lána væri tekið til þess að endurnýja gömul erlend lán. Það er farið að nálgast helming. Hvað gerist þá í framtíðinni, ef sífellt meira verður bundið í endurnýjun lána, og hvar stöndum við ef að kreppir og við höfum ekki sömu tækifæri til þess að fá erlend lán og áður hvort heldur sem er er þjóðarvoði sem ég hlýt enn einu sinni að vara mjög eindregið við.

Það hefur komið fram í málflutningi okkar Alþfl.manna, að þessi sigling væri þjóðhættuleg og stefndi sjálfstæði þjóðarinnar í voða. Ég hlýt enn og aftur að ítreka að hér er meira lagt undir en nokkru sinni fyrr. En það, sem verst er af því öllu, er að stærri hluti þessara erlendu lána eru hrein eyðslulán heldur en nokkru sinni fyrr. Eigi að lýsa erlendum lántökum næsta árs í fáeinum orðum er það þannig, að næstum helmingur fer í endurnýjun á gömlum erlendum lánum og þriðjungurinn af því, sem þá er eftir, fer í hrein eyðslulán, fer í lán til að mæta eyðslu með allt öðrum hætti en nokkru sinni hefur tíðkast áður. Hingað til höfum við fylgt þeirri stefnu að nettó-hluti erlendra lána, það sem er umfram það sem fer í endurnýjun, færi fyrst og fremst í orkufrekar iðnaðarframkvæmdir og í beislun fallvatnanna og hitaveituframkvæmdir. En núna er farið 500 millj. kr. fram úr þessari upphæð í erlendum lántökum, umfram það sem fer í endurnýjun erlendra lána. Þetta eru vitaskuld alvarlegustu atriðin í þeirri lánsfjáráætlun sem hér er til umr.

Skuldin á hvert mannsbarn verður 45–50 þús. kr. í lok þessa árs, eða 18–20 millj. gkr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Þetta er meiri skuldasöfnun en við höfum nokkurn tíma séð fyrr. Þetta gerist á sama tíma og við erum með viðskiptahalla sem nemur 1000 millj. kr. Ef fram vindur á þessari braut hefur eyðslu liðandi stundar verið ávísað á börn okkar og það er ekki til fyrirmyndar fyrir okkar. Bara viðskiptahallinn á nýliðnu ári svarar til 14–15 þús. árslauna verkamanna í dagvinnu. Þetta er gífurleg fjárhæð, fjárhæð sem við erum að ávísa á framtíðina. Það er af sem áður var, að ríkisstj. tali um jafnvægi í viðskiptum við útlönd. Hún hrósaði sér mikið af því fyrir einu ári, enda eru þessar tölur náttúrlega fyrst og fremst til marks um það, að í þessum efnum ríkir gífurlegt ójafnvægi.

Það er nauðsynlegt fyrir okkur sem þjóð og alveg sérstaklega fyrir þm. að horfast í augu við þessar staðreyndir. Það er ljóst að þessi skuldasöfnun getur stefnt sjálfstæði þjóðarinnar í hættu. Það er verið að hnýta skuldabagga til framtíðarinnar, og þeirrar tilhneigingar gætir í sífellt vaxandi mæli að taka lán sem koma ekki til greiðslu fyrr en eftir langan tíma.

Eins og ég sagði í upphafi, herra forseti, ætta ég ekki að fara nánar út í einstök atriði, heldur einungis að vara mjög eindregið við þeirri meginstefnu, sem í þessum lánsfjárlögum felst, - þeirri meginstefnu sem er sívaxandi skuldasöfnun erlendis og þýðir það, að landið stendur verr í árslok gagnvart útlöndum en það hefur nokkru sinni gert fyrr.