05.04.1982
Neðri deild: 62. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3623 í B-deild Alþingistíðinda. (3162)

2. mál, Listskreytingasjóður ríkisins

Frsm. minni hl. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Fyrir þessari þingdeild hafa legið tvö frv. um listskreytingar opinberra bygginga. Annars vegar er frv. sem við erum flm. að, við hv. 6. þm. Reykv., Birgir Ísl. Gunnarsson, og hv. 3. þm. Reykn., Ólafur G. Einarsson. Í því frv. var gengið út frá því að á listskreytingu opinberra bygginga skyldi litið sem byggingarkostnað mannvirkis og var þar gert ráð fyrir að varið skyldi frá 1–2% af byggingarkostnaði til listskreytingar hverju sinni. Á hinn bóginn lá fyrir deildinni stjfrv. þar sem sú leið var valin að stofnað skyldi til sérstaks listskreytingasjóðs. Þar er gert ráð fyrir að 1% álag á samanlagðar fjárveitingar ríkisins í A-hluta skuli renna til listskreytinga.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það, að frv. ríkisstj. gerir náttúrlega ráð fyrir heldur minna fjármagni en í frv. okkar fólst, og við höfum raunar séð það á þessu þingi m.a. og á undanförnum þingum að lögákveðin framlög til sjóða úr ríkissjóði eru stundum léttvæg þegar hæstv. ríkisstjórnir fara að beita stóra hnífnum. Þær gera þá stundum ekki mikið með hvað í lögum stendur, og skiptir þá ekki máli hvort sá sjóður, sem skorinn er niður, heitir Erfðafjársjóður, Kirkjusjóður eða Listskreytingasjóður. Eitt skal yfir þetta allt saman ganga. Það er því síður en svo að slíkt ákvæði í þessu frv. gefi tryggingu fyrir þessu fjármagni. En það er rétt að vera jákvæður í þeim efnum samt, og auðvitað er þakkarvert að sérstöku formi skuli þó komið á listskreytingar opinberra bygginga, því þær hafa satt að segja verið mjög handahófskenndar á undanförnum árum. Ber að þakka það út af fyrir sig.

Það er nokkur reynsla komin á þær listskreytingar sem gerðar hafa verið í samræmi við ákvæði grunnskólalaga og skólakostnaðarlaga um þau efni, og held ég að óhætt sé að fullyrða að meðal sveitarfélaganna úti á landi hefur vaknað meiri áhugi í þessa átt en áður, sem er m.a. afleiðing af því, að í skólum landsins er nú betri kennsla og betri kynning en áður varðandi listskreytingu og fólk stendur nær listinni en áður var. Af þeim sökum lögðum við fulltrúar Sjálfstfl. í menntmn. áherslu á að þetta gamla fyrirkomulag, að sveitarfélögum væri frjálst í samvinnu við ríkið að verja allt að 2% áætlaðs stofnkostnaðar til listskreytingar, skyldi haldast í þeim skólabyggingum sem hafist var handa um að byggja, það væri sem sagt á valdi sveitarfélaganna að fara heldur þá leið ef þau kysu svo. Nú hefur menntmn. í heild fallist á að opna þennan möguleika og stöndum við ásamt nefndinni allri að brtt. á þskj. 579 um þau efni. Af þeim sökum hljótum við Ólafur G. Einarsson, hv. 3. þm. Reykn., að kalla aftur brtt. okkar á þskj. 469.

Nú er það auðvitað álitamál, hvernig stjórn listskreytingasjóðs skuli háttað. Í þessu frv. er sú leið valin að leggja mikið vald í hendur sjóðstjórnarinnar sjálfrar og taka að sama skapi frumkvæðið úr höndum sveitarfélaganna. Það er markmiðið með þeirri hugmynd sem á bak við sjóðstjórnina liggur. Í bréfi frá formanni Félags íslenskra myndlistarmanna, Sigrúnu Guðjónsdóttur, til formanns nefndarinnar er þetta skýrt tekið fram þegar hún segir með leyfi hæstv. forseta:

„Einnig voru menn á eitt sáttir um að æskilegt væri að frumkvæði varðandi skreytingar væri í höndum Listskreytingasjóðs, en ekki sveitarstjórna, eins og fram kemur í frv. Birgis Ísl. Gunnarssonar o.fl.“

Þetta er m.ö.o. hugmyndin á bak við þetta frv. Okkur tókst á hinn bóginn að ná samstöðu um að sveitarstjórnirnar gætu haldið frumkvæði sínu varðandi þær skólabyggingar sem nú er verið að reisa. Síðan er ákvæði um að endurskoðun skuli fara fram á lögunum að fimm árum liðnum með hliðsjón af þeirri reynslu sem fengist hefur af því fyrirkomulagi sem hér er gert ráð fyrir á listskreytingu opinberra bygginga. Á þessum tíma geta bæði kerfin sem sagt fengið að vinna saman á næstu árum og þá ætti nokkur reynsla að hafa fengist af hvort betra sé og hvort kannske sé eðlilegra að láta Listskreytingasjóðinn ekki taka til þeirra opinberu bygginga þar sem sveitarfélögin eru verulegir aðilar að framkvæmdum. Á þessu stigi málsins er of snemmt að deila um það frekar, en ég vil sem sagt leggja áherslu á að samkomulag hefur tekist um að sveitarstjórnirnar halda frumkvæði sínu, ef þær vilja, í þeim byggingum sem byrjað er að reisa.

Ég vil svo almennt segja það, að þótt þetta frv„ eins og það liggur fyrir, sé auðvitað spor í rétta átt — og ég vil segja verulegt spor — er ýmislegt ógert enn svo að starfsaðstaða myndlistarmanna sé viðunandi. Í þeirri nefnd, sem nú vinnur á vegum menntmrn. að tillögum til úrbóta í þessum efnum og ég á m.a. sæti í, eru uppi hugmyndir um að launasjóður myndlistarmanna verði settur á stofn með svipuðum hætti og Launasjóður rithöfunda, Tónskáldasjóður Íslands, sem við nokkrir þm. lögðum fram frv. um fyrir skömmu, og fleiri. Að síðustu hefur verið um það rætt að fella niður tolla af vörum til listaverkagerðar og vil ég þá fyrst nefna listmálaraliti, en á þeim er almennur tollur 35% og 30% vörugjald, fyrir utan auðvitað aðra skatta. Þar er um verulega leiðréttingu að ræða, sem á að geta valdið því, að starfsskilyrði myndlistarmanna verði mun betri en verið hefur um skeið. Þá eru að vísu mörg önnur verkefni óleyst, en verulegur áfangi mundi nást þegar þessu hefur verið komið í kring og aðeins lagað til.

Ég vil svo gera mér vonir um að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi og fái afgreiðslu í Ed. svo að unnt verði að taka það inn í dæmið þegar gengið verður frá fjárlögum fyrir næsta ár.