05.04.1982
Neðri deild: 62. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3627 í B-deild Alþingistíðinda. (3165)

2. mál, Listskreytingasjóður ríkisins

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að þakka hv. menntmn. fyrir afgreiðslu þessa máls. Ég tel að nefndin hafi í heild sinni komið að mjög góðum niðurstöðum í sambandi við það efni sem hér er um fjallað. Ég vil taka fram að þær brtt., sem hér liggja fyrir nú, sem eru að vísu allmargar, horfa allar til bóta á þessu frv. Ég þakka líka nefndarformanni fyrir að hafa gefið mér tækifæri til þess að fylgjast með því, hvernig umr. hafa fallið í nefndinni um þetta. Ég hef yfirleitt ekkert við það að athuga, hvernig þessar till. eru orðaðar. Ég held að óhætt sé að segja að þær horfi allar til bóta.

En það, sem ég vil leggja áherslu á, er að meginefni þessa frv., sem felst í 2. gr. frv. eins og það var upphaflega hugsað, er óbreytt enn þá, 1. og 2. gr. reyndar, um stofnun þessa sjóðs og hvernig tekna skuli aflað í sjóðinn. Þetta stendur og er auðvitað höfuðatriði málsins. Hins vegar tel ég að hv. menntmn. hafi verulega bætt um þá ágalla, sem kunna að leynst í frv. varðandi framkvæmdaatriði og ég hef ekkert nema gott um það að segja.

Ég gerði nokkuð ítarlega grein fyrir því, þegar ég lagði þetta mál fyrir í haust, hvers vegna sú leið var valin að stofna til sérstaks listskreytingasjóðs ríkisins fremur en að reyna að halda í eldri ákvæði um þetta efni. Þá skýrði ég frá því hver ástæðan var. Hún var sú, að ég átti nokkuð ítarlegar umræður um þetta við stjórn Félags ísl. myndlistarmanna og bar mig einnig saman við ýmsa þá sem hafa haft með að gera framkvæmd á þeim ákvæðum sem gilda um listskreytingu skólamannvirkja, og niðurstaðan varð sú eftir nokkuð ítarlega athugun af minni hálfu, að heppilegasta leiðin mundi vera að breyta þarna um kerfi og finna kerfi sem tryggði snurðulausari framkvæmd á þessum hugmyndum en verið hefur eftir þeim lagaákvæðum sem gilt hafa bæði í eldri skólakostnaðarlögum og eins í grunnskólalögunum frá 1974. Sannleikurinn er sá, að í framkvæmdinni hafa þessi ákvæði þótt rekast á, varla verið í samræmi hvort við annað og verið mjög örðugt að framkvæma eftir þeim. Eins og við munum, sem unnum að gerð grunnskólalaganna á sinni tíð, var frv. upphaflega lagt þannig fyrir að hálfu ráðh. að frumkvæði um listskreytingu skyldi vera hjá ríkissjóði eða hjá menntmrn., en þessu ákvæði var síðan breytt í meðförum þingsins 1973–1974 og vafalaust hef ég staðið að einhverju leyti að því með öðrum, þó ég muni það ekki nákvæmlega, að því var breytt þannig að öll forstaða og frumkvæði skyldi vera í höndum sveitarstjórna. Í reyndinni hefur þetta, að fela sveitarstjórnunum frumkvæðið, orðið til þess að það hefur ekki gætt þess áhuga sem þó lá á bak við upphaflegu ákvörðunina um að hafa þetta ákvæði í grunnskólalögunum, þannig að það hefur því miður reynst mjög örðugt að framkvæma þessa hugmynd. Það hefur einmitt reynst svo að þessi dreifing á frumkvæðinu hefur orðið til þess að minna hefur verið framkvæmt í þessum efnum og miklu ómarkvissari stefnu haldið uppi en til stóð. Hins vegar hygg ég að það sé rétt, sem fram kom í máli hv. 7. landsk. þm., að þessi sjónarmið kunni að vera að breytast. Ég er alls ekki frá því að það kunni að vera rétt að einmitt frá því að farið var að ræða þessi mál aftur í fyrra og hittið fyrra hafi vaknað áhugi margra og skilningur margra sveitarstjórnarmanna á því, að það hafi verið galli á framkvæmdinni m.a. af þeirra hálfu og þeir hafi ekki sýnt nægilegt frumkvæði í þessum efnum og e.t.v. sé frumkvæðisáhuginn eitthvað að vakna að nýju. Það má vel vera að það sé rétt sem hv. 7. landsk. þm. segir um það efni. Þess vegna er ég honum að athuguðu máli alveg sammála um það sem fram kom í brtt. hans og ýmsum umr. hér, að það sé kannske óvarlegt að taka algerlega frumkvæði úr höndum sveitarstjórnanna. Ég hygg að það sé rétt leið, sem hv. 7. landsk. þm. hefur átt mikinn hlut að innan nefndarinnar og menntmn. samþykkt, að þessi ákvæði í grunnskólalögunum haldist áfram þannig að sveitarstjórnirnar geti beitt sínu frumkvæði ef þær hafa áhuga á. Ég tel að þessi breyting á frv. sé til bóta, eins og flest annað sem frá nefndinni hefur komið.

Ég ætla ekki að gera lítið úr áhyggjum hv. 2. þm. Suðurl. um framkvæmdaratriðin. Ég er ekki að gera lítið úr því, að menn velti fyrir sér hvernig fari um framkvæmdaratriðin í sambandi við þá ákvörðun að ákveða listskreytingar í skólum eða öðrum opinberum byggingum. Hins vegar held ég að hv. 2. þm. Suðurl. sé einum of svartsýnn hvað þetta varðar og geri of mikið úr því miðstýringarvaldi, sem þarna er fyrirhugað, og alveg sérstaklega eftir að hv. menntmn. hefur lagt til að breyta orðalagi 5. gr. Sýnist mér það mun minni ástæða til að hafa áhyggjur af þessu efni. Ég skal viðurkenna fúslega að ég var ekki að öllu leyti ánægður með 5. gr., þó að ég stæði að henni að lokum, og ætlun mín var að fylla frekar út í mál hennar með reglugerðarákvæðum. En ég held að það sé mun auðveldara að vinna að því verki eftir að fram er komin þessi till. frá hv. menntmn. og ef hún verður samþykkt. Ég held að þar hafi nefndin hitt á réttara orðalag og réttari hugsun en fram kom upphaflega í 5. gr.

Ég fagna því sem sagt, að þetta mál hefur fengið góða og ég vil telja jákvæða afgreiðslu hér. Ég vona að þetta mál, ef það verður að lögum, hafi raunverulega áhrif í þá átt að auka listskreytingu í skólum og öðrum opinberum byggingum og efli vinnumarkað myndlistarfólks einnig, sem er mjög mikilvægt atriði og skipti af minni hálfu afar miklu máli þegar ég stóð að undirbúningi þessa máls.

Ég læt sem sagt í ljós þá von, að hv. þingdeild afgreiði þetta mál, og styð þær brtt., sem liggja fyrir í málinu, þannig að málið geti haldið áfram sína leið til Ed. og geti orðið að lögum áður en þingi lýkur nú í vor.