05.04.1982
Neðri deild: 62. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3630 í B-deild Alþingistíðinda. (3169)

58. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Þegar þessi skattur var lagður á í fyrsta sinn árið 1979 var hann hugsaður sem líður í tímabundnum ráðstöfunum þáv. ríkisstj. í efnahagsmálum. Skattinum var aldrei ætlað að standa í lögum nema mjög skamman tíma, enda er vafasamt að slíkur skattur eigi rétt á sér nema sem tímabundin ráðstöfun. Stafar þetta af augljósum göllum á framkvæmd skattheimtunnar, alls kyns mismununar, sem honum fylgir, og hvers konar vafaatriða sem slíkri skattheimtu fylgja. Sem frambúðarúrræði í skattamálum er skattheimta af þessu tagi óæskileg.

Þótt skatturinn hafi jafnan verið framlengdur til eins árs í senn er hann smátt og smátt að festast í sessi sem varanlegur tekjustofn fyrir ríkissjóð. Er sú þróun í meira lagi óæskileg, að veigamiklir þættir tekjustofna ríkissjóðs skuli vera skattar af því tagi sem frá upphafi voru hugsaðir sem tímabundin bráðabirgðaráðstöfun með öllum þeim göllum sem óneitanlega hljóta ávallt að fylgja slíkum tekjuöflunaraðferðum.

M.a. vegna þess að þm. Alþfl. áttu á sínum tíma hlut að því leiða sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði í lög sem tímabundið úrræði til aðeins eins árs til fjáröflunar vegna sérstakra efnahagsúrræða haustið 1979, hafa þeir fallist á tilmæli um tímabundna framlengingu skattsins tvívegis síðan. En eins og að framan segir er það skoðun þingflokks Alþfl. að gjalda beri varhug við að festa slíkan skammtímafjáröflunaraðferð varanlega í sessi, en í þá átt stefnir tvímælalaust með umrædda skattheimtu.

Þingflokkurinn telur að nú sé kominn tími til að taka ákvörðun um að stöðva þá þróun, þannig að aðilum, sem undirbúa fjárlagagerð, verði ljóst að Alþingi muni ekki fallast á að endurnýja umræddan skatt til frambúðar um eitt ár í senn, og jafnframt verði ákveðið hvenær þessi skattheimta verið látin niður falla. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1982 lagði þingflokkur Alþfl. til að sú ákvörðun yrði tekin af Alþingi að umræddur skattur yrði felldur niður í tveimur jöfnum áföngum, hann yrði lækkaður um helming á yfirstandandi ári, en alfarið felldur niður á næsta ári.

Í samræmi við framangreinda afstöðu þingfl. Alþfl., sem fram kom í tillöguflutningi við afgreiðslu fjárlaga yfirstandandi árs, hefur hv. 3. þm. Vestf. flutt brtt. á þskj. 501 um að skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði verði lækkaður um helming. Verði sú till. samþykkt munu þm. Alþfl. greiða atkvæði með framlengingu skattsins í því formi um eitt ár til viðbótar. Verði sú till. felld styðja þm. Alþfl. ekki framlengingu skattsins og munu í öllum tilvikum samkvæmt framansögðu greiða atkvæði gegn frekari framlengingu skattsins verði þess leitað á næsta þingi.